Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

19. maí 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á ársfundi Mímis- símenntunar 17. maí 2010

Ársfundur Mímis

Ágætu tilheyrendur!

Það er mér mikið ánægjuefni að fá að ávarpa ársfund Mímis. Með því vil ég færa fram þakkir okkar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir það mikilvæga framlag sem Mímir-símenntun hefur lagt fram til fræðslu- og menningarmála gegnum tíðina.

Við lifum á umbrotatímum sem reyna á þrek og úthald þjóðarinnar, en ekki síður á hugvit og sköpunargáfu. Fræðslustofnanir sem starfa utan hins hefðbundna skólakerfis hafa margar hverjar leikið lykilhlutverk í því að bregðast við þeim áskorunum sem kreppa í íslensku samfélagi hefur fært okkur. Þar er Mímir ekki undanskilinn. Þegar nýjar þarfir fyrir menntun og fræðslu gera vart við sig er mikilvægt að við eigum fræðsluaðila sem geta með skjótum hætti brugðist við og þróað fræðslutilboð sem henta við þær aðstæður sem nú ríkja. Fyrir þetta erum við þakklát.

Vöxtur þess fræðslukerfis sem dafnað hefur við hlið hins formlega skólakerfis undanfarin 10-15 ár hefur verið með miklum ágætum. Þar hafa samtök launafólks og vinnuveitenda tekið frumkvæði og verið drifkrafturinn að baki starfseminni, ásamt því mikla hæfileikafólki sem hefur helgað sig uppbyggingu óformlega kerfisins. E.t.v. má segja að það hafi verið þessari starfsemi til góðs að hún hefur ekki verið fjötruð í lög, reglugerðir og líkön til þessa, en hefur fengið að njóta frumkvæðis og krafts þeirra sem þar hafa starfað.

Nú er þó svo komið að Alþingi hefur samþykkt lög um framhaldsfræðslu sem munu setja starfseminni fastari skorður, en jafnframt opna leiðir til þess að nám utan formlega kerfisins fáist metið sem hluti af námi innan þess, þ.e. til brautskráningar á framhaldsskólastigi. Margþætt rök hníga að setningu laga um framhaldsfræðslu. Efst í mínum huga eru rök sem lúta að mannauði, lýðræði, jafnræði og loks almenn tæknirök. Fullorðinsfræðsla á að mínu viti að vera samfélagslegt verkefni, hluti af okkar samábyrga velferðarsamfélagi, en ekki aðeins hagsmunamál atvinnurekenda og launþega. Með þessu er á engan hátt gert lítið úr því mikla frumkvöðlastarfi í að þróa fullorðinsfræðslu sem þessir aðilar hafa sinnt. Framlag þeirra er ómetanlegt. En lög um framhaldsfræðslu þurfa að ná til allra, ekki bara fólks á vinnumarkaði.

Markhópur nýrra laga eru einstaklingar með stutta formlega skóalgöngu að baki og skal stefnt að því að veita þeim aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu og veita einstaklingum sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku framhaldsfræðslu þar sem tekið er mið af ójafnri stöðu þeirra og hæfi. Meðal mikilvægra ákvæða í hinum nýju lögum, sem munu vonandi verða traustir byggingasteinar í brúarsmíðinni, varða námskrár fræðsluaðila, gæði, vottun fræðsluaðila og viðmiðaramma fyrir óformlegt nám. Þá er fjármögnun starfseminnar settar fastari skorður með ákvæðum um Fræðslusjóð.

Það getur verið áhugavert að velta fyrir sér tilurð þess hluta menntakerfisins á Íslandi sem lög um framhaldsfræðslu taka til. Þar voru það ekki stjórnvöld sem fóru á undan og mótuðu stefnuna, heldur áðurnefnd samtök á vinnumarkaði. Ekki var fæðingin heldur fyllilega sársaukalaus, þetta hefur verið reiptog fram og tilbaka um fjármagn og leiðir. Þó að komin séu ný lög held ég að reiptoginu linni sosum ekki – en við í ráðuneytinu bjóðum keik upp í þann dans og fögnum áframhaldandi samstarfi við þá sem vilja láta sig fræðslu fyrir markhóp Mímis varða.

Framundan er samráð milli ráðuneytis og samstarfsaðila um útfærslu þeirra þátta sem ég nefndi hér að framan. Vil ég í því sambandi benda á möguleika sem felast í nýjum nálgunum fyrir námskrár í framhaldsfræðslu, skilgreiningar nýrra námskeiða á þessu sviði, undirbúning úthlutunarreglna Fræðslusjóðs og fleira. Jafnframt mætti hafa í huga aukið samstarf um framhaldsfræðslu fatlaðra. Við munum á næstu vikum ýta úr vör vinnuhópum um einstaka efnisþætti þar sem samstarfsaðilar okkar í framhaldsfræðslu munu eiga aðkomu.

En það er ekki endalaus sæla með málefni framhaldsfræðslu um þessar mundir. Framlög til starfsemi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og til námskeiðahalds, raunfærnimats, náms- og starfsráðgjafar og fleiri verkefna hafa stóraukist á undanförnum árum. Skv. fjárlögum ársins 2010 nema fjárveitingar til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins 88,3 m.kr. og til námskeiða og ráðgjafar 680,9 m.kr. Þar fyrir utan eru svo framlög til rekstrar hinna ýmsu fræðsluaðila um allt land sem nema um 270 m.kr., háð því hvað er nákvæmlega talið með.

Við undirbúning frumvarps um framhaldsfræðslu náðist samkomulag um aukin fjárframlög til FA vegna aðkomu opinbera geirans, eins og það er orðað í stöðugleikasáttmálanum, og við það verður að sjálfsögðu staðið.

Hins vegar þarf fyrirsjáanlega að grípa til sparnaðar á þessu sviði eins og annars staðar í opinberum rekstri vegna ríkjandi efnahagsástands og fyrirhugaðs samdráttar á málaflokkum ráðuneytisins, þ. á m. væntanlega 5% - 10% niðurskurðar til framhaldsskóla, sem óhjákvæmilega hlýtur einnig að hafa áhrif á framhaldsfræðsluna.

Lög um framhaldsfræðslu voru lokahnykkurinn af hálfu stjórnvalda í mótun stefnu um ævinám, eða „lifelong learning“. Hún felur í sér þá sýn að fólk eigi endurkomu auðið í nám ef það hefur einhvern tíma á lífsleiðinni horfið frá námi. Fólki er nauðsynlegt að halda áfram að mennta sig, og ef það þarfnast stuðnings til þess að geta nýtt sér námstilboð þarf að mæta því með raunhæfum hætti. Stefna mennta- og menningarmálaráðuneytis hefur verið að auka þátttöku fullorðinna í námi, bæta aðgengi þess að námi, fjölga úrræðum og efla stuðning og ráðgjöf. Ég tel að við höfum náð góðum árangri með starfi okkar á umliðnum árum, ekki síst fyrir tilstilli fræðsluaðila eins og Mímis-símenntunar. Fyrir þetta ber að þakka.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að óska eftir góðu samstarfi við fræðslu- og hagsmunaaðila um innleiðingu laga um framhaldsfræðslu og lýsi því hér yfir að við stefnum að því að halda ráðstefnu um málefni framhaldsfræðslunnar þegar næsta haust.

Ég óska ykkur alls hins besta á ykkar ársfundi og hlakka til að eiga ykkur áfram að sem mikilvæga liðsmenn í framhaldsfræðslu á Íslandi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum