Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

18. ágúst 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Opnun sýningar í Sögusetri íslenska hestsins, 14. ágúst 2010, Hólar í Hjaltadal

Kæru gestir.

Það er mér sérstök ánægja og heiður að opna hér í dag fyrsta áfanga af þremur í yfirlitssýningunni um íslenska hestinn og myndbands- og ljósmyndasýninguna Hesturinn í náttúru Íslands.

Nú hallar sumri og þá fara bændur að huga að því að smala búfé af fjöllum líkt og get hefur verið allt frá upphafi byggðar á Íslandi. Hér steinsnar frá Hólum er langvinsælasta stóðrétt landsins, Laufskálarétt. Stóðréttir eru afar merkilegar út frá menningu og menningarsögu Íslands og eru nú sem fyrr mikil mannamót. Þar skipast menn og konur á upplýsingum og sögum um hrossin og ættir þeirra.

Hesturinn hefur fylgt Íslendingum allt frá því land að var numið og hefur hann allar götur síðan skipað afar mikilvægt hlutverk í lífi landsmanna og menningu, svo mikið að ef til vill má segja að án hans hefði íslensk þjóð ekki lifað af hér á landi.

Fyrr á öldum gerði hann okkur kleift að ferðast og flytja varning landshorna á milli og gegndi þannig lykilhlutverki. En menn hafa einnig notið hestaíþróttarinnar, um það vitna Íslendingasögurnar og bækur á borð við Horfna góðhesta. Þar má lesa um hoppdans hesta, vekringa og góðhesta. Í þessum bókum er að finna gömlu hestanöfnin á borð við Kengálu og Flugu og Glæsi og Sörla. Þessum góðu nöfnum eigum við að halda á lofti og í heiðri.

Með þjóðfélagsbreytingum síðustu aldar var hestinum skákað úr aðalhlutverki ferðafélagans og vinnuþjarksins. Um skeið var óljóst hvort hann hefði nokkru hlutverki að gegna á nýrri vélaöld sem einkenndist af ríkri áherslu á framkvæmdir og þróun verkmenningar.

Um miðja síðustu öld var svo komið að íslenski hesturinn átti verulega undir högg að sækja; hann var orðinn gamaldags og ekki laust við að þeir sem stunduðu hestamennsku væru litnir hornauga og jafnvel taldir sérvitringar. Sem betur fer voru til menn sem skildu að aldrei mætti glatast sá merkilegi menningararfur sem íslenski hesturinn sannarlega er.

Sögusetur íslenska hestsins, alþjóðlegrar miðstöðvar þekkingar og fræðslu hefur ekki síst það hlutverk að skrá þessar upplýsingar og sögur og byggja upp heimildasafn sem varðveitir minjar, skjöl, ljósmyndir og hvað annað um íslenska hestinn og miðla honum til íslendinga og erlendra unnenda hans. Sýningarhald er einnig undirstaða í starfsemi setursins og sýningarnar sem senn opna munu án efa bæta við þekkingu okkar á íslenska hestinum í sínu náttúrulega umhverfi og sýna okkur fram á hversu mikil áhrif hann hefur haft á náttúru Íslands í áranna rás.

Sögusetrið er mikilvæg stoð fyrir rannsóknir um sögu, samfélagsleg áhrif og eiginleika íslenska hestsins fyrir háskólasamfélagið, ekki síst háskólann hér á Hólum en einnig fyrir Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og aðra. En sögusetrið hefur einnig sjálft mikilvægu hlutverki að gegna í rannsóknum og vil ég hér hvetja til að saga kvenna í hestamennsku verði á næstu árum sérstaklega skoðuð og gerð skil.

Það er sannarlega vel við hæfi að hafa valið Sögusetri íslenska hestsins aðsetur í Skagafirði, en hér liggur vagga íslenskrar hrossaræktar í dag. Hér í héraði fæddist meginættfaðir íslenskra hestastofnsins hann Sörli frá Svaðastöðum nr. 71 og hún Ragnars Brúnka nr. 2719 frá Sauðárkróki merkasta ættmóðir íslenskra hrossa í seinni tíð.

Góðir gestir. Með þessum orðum lýsi ég sýningar Söguseturs íslenska hestsins formlega opnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum