Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

31. maí 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Uppbygging samfélagsins byggist á menntun

Nú í vor verða kynntar nýjar námskrár sem byggjast á þeim nýju menntalögum sem samþykkt voru árið 2008. Við gerð námskránna er einnig unnið að því að leggja nýjar áherslur varðandi inntak í námi og skólastarfi sem meðal annars er ætlað að koma til móts við þá gagnrýni sem sett er fram í Rannsóknaskýrslu Alþingis þar sem lögð er áhersla á það hlutverk stjórnvalda hverju sinni að mennta hinn almenna borgara nægilega vel svo hann geti veitt valdhöfum eðlilegt aðhald, hvar sem þeir standa í litrófi stjórnmálanna eða á vettvangi atvinnulífs.

Mína viðleitni til að bregðast við þessu má finna í þeim sex grunnþáttum sem lagðir eru til grundvallar í námskrám allra skólastiga. Þeir eru læsi, sköpun, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, jafnrétti og lýðræðismenntun með áherslu á siðfræði og mannréttindi. Í læsinu felst m.a. áhersla á gagnrýnið miðlalæsi sem þarf að vera samfaglegur þáttur í öllu námi, bæði í formlega skólakerfinu og innan fullorðinsfræðslunnar og efla þannig læsi á „hvers kyns áróður og innistæðulausa ímyndarsmíð“ (eins og segir í skýrslu þingmannanefndar).

Á þjóðfundi um menntamál og á menntaþingi var kallað eftir aukinni áherslu á lýðræðismenntun og siðfræði og að mínu mati höfum við núna einstakt tækifæri til að efla lýðræðismenntun, ekki aðeins með fræðslu um lýðræði heldur einnig að efla lýðræðisleg vinnubrögð í öllu skólastarfi. Hvað varðar jafnréttismenntun þá hefur núna í vetur verið tilraunakennt námsefni um jafnréttismál, Kynungabók, þar sem lögð er áhersla á gagnrýna nálgun á staðalmyndir og valdahlutföll kynjanna. Þetta er spennandi tilraunastarf sem vonandi leggur grunn að enn jafnréttissinnaðra samfélagi en við eigum nú.

Menntun til sjálfbærni er að halda innreið sína víða í hinum vestræna heimi og skilningur á mikilvægi hennar fer jafnt og þétt vaxandi enda lykilþáttur í að ná jafnvægi samfélagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátt við mótun samfélagsins.  Sama má segja um skilning á mikilvægi skapandi starfs fer vaxandi, enda átta æ fleiri sig á því að skapandi hugsun er nauðsynleg til að byggja upp nýja og fjölbreytta atvinnustefnu þar sem byggt er á þekkingu og skapandi hugsun.

Mikilvægi velferðar og heilbrigðis, hvort sem er líkamlegs, félagslegs eða andlegs verður seint nægilega ítrekað. Fljótlega eftir hrun var sett á fót svokölluð velferðarvakt sem starfar þvert á ráðuneyti og er ætlað að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins. Sérstaklega hefur verið tekið á eineltismálum og samþykkti ríkisstjórnin í fyrra sérstaka fjárveitingu til þriggja ára til að berjast gegn einelti. Þá hafa ráðuneyti velferðar og menntamála unnið að heilsueflingu og forvörnum í framhaldsskólum og er ætlunin að halda því starfi áfram og víkka ennfremur út.

En lykilatriðið í að innleiða og þróa menntastefnu eru öflugir kennarar. Við Íslendingar eigum sem betur fer frábært fagfólk á öllum skólastigum. Það hefur svo sannarlega sannast nú í efnahagskreppunni þar sem fjölskyldur landsins hafa reitt sig á skólana sem samfélagslegar stoðir þar sem börnin sækja ekki einungis menntun heldur líka traust og umhyggju. Það er mikilvægt að hafa það í huga við uppbygginguna framundan að þau menntakerfi sem búa vel að kennurum standa sterkt. Víða má sjá að skólakerfi hafa verið endurskipulögð með það í huga að efla faglegt sjálfræði og ábyrgð kennara, bæta aðbúnað þeirra og möguleika til endurmenntunar fyrir utan kjörin sem þarna skipta auðvitað miklu. Eins skiptir miklu máli að aðstoða kennara við að takast á við verkefni sem fylgja nýjum námskrám. Í þeim anda er nú unnið að útgáfu þemahefta um hvern grunnþátt þar sem m.a. verða hagnýtar ábendingar fyrir skólastjórnendur og kennara um hvernig grunnþættir geti verið leiðarvísir í skólastarfi, s.s. í stefnu skóla, starfsháttum, við gerð starfs- og rekstraráætlana og í tengslum við samstarf heimila og skóla.

Við Íslendingar höfum lært það af kreppunni að menntun skiptir miklu og það má meðal annars sjá á menntaátaki stjórnvalda en á undanförnum misserum hafa stjórnvöld haft víðtækt samráð þar sem menntamálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og forsætisráðuneytið hafa verið í samstarfi við fulltrúa á opinberum og almennum vinnumarkaði og stjórnarandstöðu til að bregðast við bráðavanda á vinnumarkaði og í menntakerfinu.

Afurð þess samstarfs er átakið Nám er vinnandi vegur. Fjármögnun átaksins er tryggð í samráði ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins í tengslum við gerð kjarasamninga en í heild verða framlög til menntamála með átakinu aukin um sjö milljarða króna næstu þrjú ár. Framhaldsskólinn verður efldur, atvinnuleitendum verða gefin aukin tækifæri til að mennta sig, sérstakur þróunarsjóður stofnaður til að efla starfstengt nám og samstarf skóla og fyrirtækja um starfstengt nám verður aukið. Lög um LÍN og framfærslukerfi námsmanna verða endurskoðuð, skil framhaldsskóla og fullorðinsfræðslu verða gerð sveigjanlegri, námsráðgjöf efld og vinnustaðanámssjóður styrktur.þar sem m.a. á að opna framhaldsskólana fyrir umsækjendum yngri en 25 ára en vegna fjárskorts á síðustu misserum hefur það ekki reynst mögulegt.

Þessi markmið stjórnvalda byggjast meðal annars á sóknaráætlun fyrir Ísland sem mótuð hefur verið á undanförnum misserum þar sem sett eru fram háleit markmið um að efla menntunarstigið í landinu og sem flestir ljúki að lágmarki prófi úr framhaldsskóla. Ef við höldum rétt á spöðunum mun menntakerfið gegna lykilhlutverki við uppbyggingu öflugra samfélags á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum