Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

31. júlí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Skriðuklaustri


 

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Skriðuklaustri við hátíðardagskrá í tilefni loka fornleifarannsókna, opnunar minjasvæðis og að 500 ár eru frá vígslu klausturkirkjunnar, 19. ágúst 2012.

Kæru hátíðargestir

Við erum hér saman komin á sögufrægum stað til að fagna lokum fornleifarannsóknar á rústum klaustursins á Skriðu í Fljótsdal. Hér er um að ræða  eina umfangsmestu fornleifarannsókn sem gerð hefur verið í landinu og hefur  hún staðið yfir í áratug. Rannsóknin hefur brugðið mikilvægu ljósi á þróun samfélagsins á Íslandi á síðmiðöldum.  Klaustrið á Skriðu var síðasta klaustrið sem stofnað var á kaþólskum tíma og starfaði einungis frá  árinu 1494 til siðaskipta árið 1550. Strax um  aldamótin 1600 voru húsin orðin rústir einar eins og greint er frá í úttekt. Skriðuklaustur var griðastaður fyrir sjúka, aldraða og fátæka, enda gekk plágan síðari um Ísland á fyrstu starfsárum klaustursins. Fornleifarannsóknin hefur  meðal annars leitt í ljós að á Skriðuklaustri voru stundaðar lækningar og þar voru einnig markvisst ræktaðar lækningajurtir.

Á þessum tíma var Skriðuklaustur í alfaraleið, þótt okkur finnist staðurinn heldur afskekktur nú þegar við þræðum firðina á ferðum okkar um landið. Þá ferðuðust menn gangandi yfir heiðar og milli og jafnvel yfir jökla, enda var í þá daga yfirleitt valin stysta leiðin þótt hún væri torfær. Skriðuklaustur hefur því einnig þjónað sem áningarstaður fyrir þreytta ferðalanga, enda síðasti viðkomustaður áður en lagt var að stað yfir hálendið.    

Fornleifarannsóknin hefur  einnig leitt í ljós að hér langt inn í landi borðuðu menn   fisk  í miklum mæli. Fiskbeinin sem hér hafa verið grafin upp eru heldur engin smáfiskabein heldur bein af stórfiski meira en eins metra löngum sem hefði hvergi getað komið nema frá suðurströndinni hinum megin við Vatnajökul. Skriðuklaustur átti einmitt Borgarhöfn í Suðursveit meðal annarra sjávarjarða og hafa stórfiskabeinin líklega komið úr róðri þaðan yfir jökulinn á baki einhvers dugmikils manns.  

Það er alltaf gleðilegt þegar ritaðar heimildir og rannsóknir ríma vel saman og gefa sífellt skýrari mynd af menningarsögu okkar. Ég vil þakka starfsmönnum og stjórn Skriðuklausturrannsókna fyrir gott starf og góðar heimtur. 

Nú er búið að ganga frá minjasvæðinu til framtíðar og er frágangurinn til fyrirmyndar. Grunnform bygginganna hefur verið hlaðið upp þannig að hægt er að ganga um rústirnar og upplifa fortíðina, hvort sem við ímyndum okkur að við séum ósérhlífnir kórbræður, þreyttir ferðalangar að bíða færis að fara yfir jökulinn eða sjúklingar með sárasótt, berkla eða holdsveiki. (Síðast nefnda verður að teljast nokkuð óskemmtileg tilhugsun).  Svo er líka hægt að fá yfirsýn yfir klausturminjarnar frá útsýnispallinum hérna fyrir ofan. Einnig er vert að minnast á óeigingjarnt starf sjálfboðaliða sem hafa komið svæðinu í svo fagurt horf. Ég er mjög ánægð með afraksturinn og tel að þetta sé góður arfur til afkomenda okkar. 

En það eru fleiri tilefni til að fagna. Við minnumst einnig 500 ára vígsluafmælis kirkjunnar, en hún var vígð síðla í ágúst á því herrans ári 1512 af Stefáni Jónssyni Skálholtsbiskupi.  Kirkjunni hrakaði eftir að klaustrið lagðist af en hún var engu að síður starfrækt í samtals 280 ár (eða til ársins 1792). Nú er hún Snorrabúð stekkur og Skriðuklausturkirkja einnig, en staðurinn er helgur fyrir því.   

Góðir áheyrendur

Mig langar til að hoppa yfir nokkrar aldir og víkja aðeins að hagnýtari málefnum tengdum Skriðuklaustri og Gunnarsstofnun í okkar samtíma.

Eins og ykkur er kunnugt um, gáfu hjónin Gunnar Gunnarsson skáld og eiginkonu hans Franzisca  íslenska ríkinu jörðina Skriðuklaustur  ásamt húsakosti með þeim skilmálum að jarðeignin skyldi vera ævarandi eign íslenska ríkisins og skyldi hún hagnýtt þannig að til menningarauka horfði.  Í maí 2010 var samþykkt tillaga mín og landbúnaðarráðherra á fundi ríkisstjórnar að allar tekjur af jörðinni Skriðuklaustri skyldu í framtíðinni renna frekari stoðum undir starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar og stuðla þannig að vexti og viðgangi stofnunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum