Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Samráð og sátt milli heimila og skóla

Ágætu hátíðargestir

Frá því ég tók við starfi mennta- og menningarmálaráðherra árið 2009 hefur markvisst verið unnið að innleiðingu nýrrar menntastefnu í samstarfi við aðila skólasamfélagsins, þar með talið foreldrasamfélagið. Ný heildarlög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla voru samþykkt árið 2008 en vinna við aðalnámskrá fyrir þessi skólastig í kjölfar laganna kom í minn hlut og einnig setning fjölmargra reglugerða við lögin. Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Ég tók þá ákvörðun að hugað yrði sérstaklega að hlutverki skólakerfisins í þeirri uppbyggingu og endurmótun samfélagsins í kjölfar efnahagshrunsins Sú áhersla kom því inn í vinnu við aðalnámskrár þar sem einstaklings- og samfélagsmiðuð gildi almennrar menntunar á skóla­stigunum þremur eru skilgreind sem sex grunnþættir menntunar. Grunnþættirnir eru læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, sköpun og heilbrigði og velferð.  Í þessu sambandi er rétt að nefna að í leik- og grunnskólalögum er beinlínis tekið fram að nemendur eigi að geta notið bernsku sinnar í skólastarfi, og einnig notið öryggis að öðru leyti.

Grunnstef þeirra laga sem nú gilda um leikskóla og grunnskóla er hugsunin um  hvað sé barninu fyrir bestu. Í þeim tilgangi var sérstaklega horft til mikilvægis aukinnar samvinnu, samfellu og tengsla milli skóla. Ráðuneytið hefur í þeim efnum undanfarin misseri unnið samtímis að gerð aðalnámskráa fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og mótað sameiginlega reglugerðir fyrir skólastigin, m.a. um skólabrag, sérfræðiþjónustu, nemendur með sérþarfir, öryggismál, upplýsingamál, mat á skólastarfi og stuðning við þróunarstarf, námsgagnagerð og endurmenntun. Í öllum þessum málum leitast ráðuneytið við að eiga gott samstarf við alla hagsmunaaðila til að tryggja sem besta sátt um stefnumótunina.

Fullyrða má að foreldrar séu mikilvægasta breytan þegar kemur að velgengni barna í lífinu. Þegar foreldrar sýna barni sínu umhyggju og aðhald, taka þátt í daglegu lífi þess, sýna náminu áhuga og miðla jákvæðu viðhorfi til menntunar eru meiri líkur á að börnum líði vel, þau standi sig vel í námi og farnist vel í lífinu almennt.  Aðkoma foreldra getur einnig skipt sköpum við að byggja upp farsælt skólasamfélag með  stuðningi við faglegt starf í skólum, menntun barna sinna og félagsstarf. Foreldrar geta einnig með samtakamætti lagt sitt af mörkum með því að halda utan um nemendahópa með margvíslegu foreldrastarfi og er slíkt sjálfboðastarf ómetanlegt og jafnframt mikilvægt forvarnarstarf.

Um leið og ég óska Landssamtökum foreldra, Heimili og skóla, hjartanlega til hamingju með tvítugsafmælið, þá vil ég fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins og stjórnvalda þakka samtökunum fyrir allt sem þau hafa lagt af mörkum á undanförnum tveimur áratugum til umbóta í þágu barna og ungmenna og eflingar skólahalds almennt hér á landi.  Ég vil jafnframt nota tækifærið og hvetja Heimili og skóla til að vinna áfram í því að auka virkni foreldra á öllum skólastigum í námi barna sinna og foreldrastarfi allt frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla en með því að virkja foreldra á jákvæðan hátt er hægt að leysa úr læðingi afl sem stuðlar að enn betri menntun og velferð og um leið betra og jákvæðara samfélagi.

Í dag þykir sjálfsagt að hafa fulltrúa frá foreldrum með í stefnumótun stjórnvalda í menntamálum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, bæði á landsvísu og í einstökum sveitarfélögum og skólum. Þetta var ekki sjálfgefið fyrir tuttugu árum þegar Landssamtökin Heimili og skóli voru stofnuð en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Þá var hvergi gert ráð fyrir fulltrúum foreldra í stefnumótun í menntamálum og sjálfstæð foreldrafélög við skóla voru fá, en víða voru starfandi foreldra- og kennarafélög sem aðallega fengust við að skipuleggja fjáraflanir eða standa að uppákomum í skólum, allt góðra gjalda vert en sjálfstæð rödd foreldrahreyfingar var vart sýnileg fyrr en með stofnun Heimilis og skóla, þótt vissulega hafi með stofnun SAMFOKS (Sambands foreldra- og kennarafélaga í Reykjavík) árið 1983 sjónarmið foreldra orðið sýnilegri.

Nú er hins vegar  gert ráð fyrir virkri þátttöku foreldra í menntun eigin barna á öllum skólastigum sem bundið er í menntalögin, virku samstarfi við skóla, setu í nefndum og ráðum hvers konar og að foreldrar taki virkan þátt í að skapa jákvæðan skólabrag og viðhalda honum. Eitt af því sem talið er einkenna góðan skóla er gott og fjölbreytt samstarf heimila og skóla og foreldrastarf.  Nóg er af fjölbreyttum verkefnum fyrir foreldra, bæði í tengslum við menntun eigin barna og þátttöku í að skapa jákvæða skólamenningu og enn betra skólastarf og velferð nemenda á öllum skólastigum, fyrir utan að standa vörð um það sem áunnist hefur í menntamálum. Heimili og skóli á líka áfram að vera sjálfstæður málsvari foreldra gagnvart stjórnvöldum og samtökin eiga að vera óhrædd að gagnrýna það sem miður fer og benda á atriði sem þarfnast úrbóta.

Foreldrar eru hvattir til  að kynna sér vel nýja aðalnámskrá fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem ráðuneytið gaf út á síðasta ári  og vinna með skólunum og börnum sínum að innleiðingu hennar á næstu árum.  Þess er vænst að nýjar aðalnámskrár veiti foreldrum og skólum aukin tækifæri til að efla og þróa samstarf heimila og skóla á öllum skólastigum.

Ég get ekki látið hjá líða að nota tækifærið og vekja athygli á nýlegri og metnaðarfullri reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins sem sett var að höfðu  víðtæku samráði við hagsmunaaðila. Reglugerðinni er ætlað víðtækt hlutverk hvað varðar m.a. skólabrag, agamál, eineltismál, ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í þeim efnum. Markmið reglugerðarinnar er m.a. að nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öryggir í öllu starfi á vegum skólans og að allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigði og jákvæð samskipti eru höfð að leiðarljósi.  Einnig er markmiðið að stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti. Reglugerðin hefur verið rækilega kynnt og henni hefur verið tekið fagnandi í skólasamfélaginu. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að stofnað hefur verið sérstakt þriggja manna fagráð á vegum ráðuneytisins í eineltismálum til að taka á erfiðustu eineltismálunum. Það er einnig ánægjulegt að greina frá því að Alþingi samþykkti sl. vor mikilvægar breytingar á framhaldsskólalögum sem veita heimildir til sambærilegrar reglugerðar um ábyrgð og skyldur í framhaldsskólum sem nú er í vinnslu á vegum ráðuneytisins.

Eitt af því gleðilega sem ég hef tekið þátt í sem mennta- og menningarmálaráðherra er að taka ár hvert þátt í afhendingu Foreldraverðlauna Heimilis og skóla, en samtökin hafa nánast
frá upphafi lagt áherslu á að hampa því sem vel er gert í skólum. Mér finnst ákaflega mikilvægt að beina sjónum að því sem vel er gert í skólum, jákvæðum sprotaverkefnum í skólasamfélaginu, stórum sem smáum, staldra við og veita frumkvöðlum og eldhugum viðurkenningu fyrir óeigingjarnt brautryðjendastarf sem er til hagsbóta fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild. Einnig hef ég fengið tækifæri til þess að kynnast nokkrum verðlaunaverkefnum sérstaklega og farið í heimsókn til verðlaunahafa með forystufólki Heimilis og skóla og fengið að kynnast verðlaunaverkefnum. Þetta hafa verið mér ómetanlegar stundir að fá tækifæri til að kynnast jákvæðu grasrótarstarfi í byggðum landsins.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur allt frá stofnun Landssamtakanna Heimilis og skóla fyrir tæpum tveimur áratugum átt farsælt samstarf við samtökin og hefur einnig reynt eftir mætti að styðja þau fjárhagslega. Ég vil nota þetta tækifæri til að greina frá því að ráðuneytið hefur að undanförnu unnið að endurskoðun á styrktarsamningi ráðuneytisins við
Heimili og skóla með það að markmiði að gera stuðninginn enn markvissari en verið hefur, en sú breyting hefur orðið á skipan mála að allur opinber stuðningur við samtökin kemur nú frá ráðuneytinu, en áður kom opinber stuðningur bæði frá Alþingi og ráðuneyti. Með þessari breytingu er auðveldara fyrir stjórnvöld að gera samning við Heimili og skóla um þá þætti sem taldir eru skipta mestu máli upp á starfsemi samtakanna, m.a. við að styðja við foreldrastarf, miðlun og öflun upplýsinga og þátttöku samtakanna í mótun menntastefnu og innleiðingu hennar. Ég vonast til að fljótlega verði hægt að ganga frá styrktarsamningi við Heimili og skóla til þriggja/fjögurra ára. Ráðuneytið væntir mikils af þessum samningi og treystir því að samtökin nái enn frekar að eflast sem þjónustuaðili stuðningsaðili við foreldra. Í því sambandi lítur ráðuneytið sérstaklega til kynningar á nýjum aðalnámskrám í foreldrasamfélagi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og samstarfi við foreldra við innleiðingu meginhugmynda aðalnámskrárinnar í skólastarf á komandi árum. Ég tel að mörg tækifæri séu fyrir Heimili og skóla og foreldra almennt að þróa samstarf heimila og skóla með það að markmiði að stuðla að bættri menntun, öryggi og velferð nemenda. Hvert skólasamfélag og hvert heimili þarf að skoða með hvaða hætti hægt er að beisla betur orkuna og auðlindina sem býr í foreldrum og samtakamætti þeirra, í þágu unga fólksins. Ég vil hvetja foreldra og starfsfólk skóla til að standa saman að menntun og velferð barna og ungmenna og finna leiðir til að vinna saman við að ná því markmiði. Sagt hefur verið að það
þurfi heilt þorp til að ala upp barn og að samvinna allra aðila sem byggist á gagnkvæmum samskiptum og gagnkvæmri virðingu sé lykillinn að árangri.

Ég vil að lokum ítreka árnaðaróskir mínar til Heimilis og skóla á þessum tímamótum og óska samtökunum velfarnaðar í mikilvægum verkefnum í þágu barna og ungmenna á komandi árum og vænti jafnframt áframhaldandi góðs samstarfs við samtökin um mótun og framkvæmd menntastefnu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum