Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

26. október 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2012-2013

Ávarp ráðherra við lagningu hornsteins að Búðarhálsvirkjun

Forseti Íslands, forstjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar og aðrir góðir gestir.

„Traustir skulu hornsteinar hárra sala,“ kveður listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson. Í dag er lagður hornsteinn að miklu mannvirki, Búðarhálsvirkjun, í víðum fjallasal hér við Þjórsá.

Vart mun sá hornsteinn sem hér var lagður skipta sköpum fyrir burðarþol mannvirkisins. Þessi hornsteinn er hins vegar einkar mikilvægur fyrir burðarþol endurreisnar efnahagslífs og samfélags.

Ekki aðeins hafa orðið þau tímamót að afl árinnar knýr nýja virkjun og skapar verðmæti og ný störf. Það eru líka tímamót að þetta mannvirki er að fullu byggt og fjármagnað eftir hrun. Þetta er mikilvægt merki um þá sókn sem hafin er hér að nýju, eitt merki af mörgum og fleiri munu senn líta dagsins ljós. Horfum við þá ekki síst til Norðausturlands.

Fjármögnun þessa verkefnis markaði á vissan hátt þáttaskil þar sem aukið traust erlendra bankastofnana á Íslandi eftir hrun var staðfest með fjármögnunarsamningum. 230 milljóna dollara fjárfesting skiptir og mun skipta íslenskt efnahagslíf miklu máli.

Ég man vel haustið 2010 þegar ég var iðnaðarráðherra og Búðarhálsvirkjun fór af stað, hversu mikið gleðiefni það var að sjá stórverkefni í atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar hefjast. Þá var atvinnuleysi 7,5% en hefur minnkað og er í dag 4,9%. Við erum því á réttri leið.

Um þessa framkvæmd hér við Búðarháls hefur verið góð sátt í samfélaginu. Heilsársverk sem skapast vegna byggingar Búðarhálsvirkjunar yfir allan framkvæmdatímann eru á milli 700 og 800.  Með Búðarhálsvirkjun bætast við 95 MW af endurnýjanlegri raforku og við aukum enn sjálfbæra nýtingu fallvatns frá Þórisvatni að Sultartanga.

Ég er bjartsýn – betri tíð er framundan.

Við höfum náð góðum tökum á ríkisfjármálunum og getum brátt farið að greiða niður skuldir okkar. Það er ekki bara gott fyrir ríkissjóð heldur líka fyrir Landsvirkjun og efnahagslífið í heild sinni.
Liðið er á aðra öld frá því rafvæðing Íslands hófst og það má kalla mikið ævintýri, ævintýri sem færði landið í einni svipan frá miðöldum til nútímans. Í hugum þjóðskáldanna  okkar var raforkan framtíðin og lykillinn að nýju og betra lífi. Í Aldamótum Hannesar Hafstein boðar  krafturinn nýtt þjóðlíf.

Sé ég í anda knör og vagna knúða
krafti, sem vanst úr fossa þinna skrúða,
stritandi vélar, starfsmenn glaða og prúða,
stjórnfrjálsa þjóð, með verslun eigin búða.

Kraftur fossins vekur Einar Benediktssyni einnig von um betri kjör í  ljóði sínu Dettifoss.

Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör
að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör,
að nota máttinn rétt í hrapsins hæðum,
svo hafin yrði í veldi fallsins skör.

Góðir gestir.

Framkvæmdir hér við Búðarháls hafa gengið vel, kostnaðaráætlun staðist og það sem mest er um vert hafa engin vinnuslys orðið þótt verkið hafi ekki verið hættulaust. Að byggingu þessari hafa fjölmargir komið – verkfræðingar, hönnuðir, iðnaðarfólk og verkafól sem unnið hafa að því að „nota máttinn rétt í hrapsins hæðum“. Ég þakka ykkur öllum vel unnin störf.

Megi Búðarhálsvirkjun verða til heilla landi og þjóð.
Til hamingju með daginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum