Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

20. nóvember 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2012-2013

Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á baráttudegi gegn einelti

Ávarp Katrínar Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, á baráttudegi gegn einelti, 8. nóvember 2012.

Ég vil byrja á að óska okkur öllum til hamingju með baráttudaginn.  Dagur eins og þessi er mikilvægur – við þurfum að staldra við og hugsa um hvernig við getum lagt okkar af mörkum til að stuðla að góðum samskiptum.

Virðing og jákvæð samskipti einkenna góða vinnustaði. Það er sama hvar okkur ber niður, hvort sem það eru skólar, bakarí, ráðuneyti eða spítalar. Hvert sem við lítum er mikilvægt að fólk vinni saman að því að skapa góðan starfsanda þar sem öllu starfsfólki líður vel.

Í dag er baráttudagur gegn einelti hér á landi haldinn í annað sinn. Á þessum degi er þjóðin hvött til að standa saman gegn þeim vágesti sem einelti er. Í ár er sjónum sérstaklega beint að vinnustöðum, þar sem margir verja drjúgum tíma.

En hvers vegna höldum við þennan baráttudag? Daginn, ásamt átaki um vitundarvakningu í þessum málum, má rekja til samstarfs þriggja ráðuneyta, mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og velferðarráðuneytis. Samstarfið hófst árið 2010 og felst í að fjalla um og fylgja eftir tillögum að aðgerðum gegn einelti í íslensku samfélagi.

Eitt af hlutverkum verkefnisstjórnarinnar er að taka þátt í og stuðla að vitundarvakningu um hið alvarlega samfélagslega vandamál sem einelti er, þætti í skóla- og starfsumhverfi sem geta stuðlað að einelti, leiðir til að taka á kvörtunum um einelti, neikvæð samfélagsleg áhrif af einelti og aðgerðir til að sporna gegn einelti.

Kannanir hafa sýnt að stór hluti starfsmanna ríkisins þekkir til eineltis í sínu nánasta umhverfi. Um fjórðungur þeirra telur sig hafa orðið vitni að einelti og einn af hverjum tíu hefur reynt það á eigin skinni.

Við þetta verður ekki unað. Einelti á ekki að líðast á nokkrum vinnustað. Þess vegna er mikilvægt að nýta dag eins og þennan til þess að skapa umræðu um þessa meinsemd með það í huga að finna lausnir. Orð eru til alls fyrst, en það þarf líka raunverulegar aðgerðir.

Hér er brýnt að líta til stjórnenda, sem bera ábyrgð á því að stuðla að menningu sem grundvallast á virðingu í samskiptum.  Einelti er alvarlegt vandamál á vinnustöðum sem stjórnendum ber að taka á. Afleiðingar þess eru ekki aðeins slæmar fyrir þolendur heldur einnig fyrir rekstur stofnana eða fyrirtækja. Einelti getur haft margvísleg neikvæð áhrif á líðan starfsmanna, starfsánægju, metnað, fjarvistir og félagslegt starfsumhverfi. Áhrif eineltis á rekstur og ímynd stofnana eða fyrirtækja eru ávallt neikvæð. Það er eitt af hlutverkum stjórnenda að ganga á undan með góðu fordæmi, leysa ágreiningsmál og vanda alla stjórnunarhætti svo sem fyrr er getið.

Markmiðið með því að auka meðvitund um þessi mál er ekki að koma í veg fyrir allan ágreining, sem í raun getur verið óhjákvæmilegur þar sem ólíkir einstaklingar koma saman. Ágreiningur sem ekki er leystur getur hins vegar þróast út í einelti. Við slíku þarf að sporna.

Ein leið til að sýna í verki andstöðu við einelti er undirritun þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti. Þjóðarsáttmálann er að finna á vef átaksins, www.gegneinelti.is. Ég hvet fólk til að fylgja fordæmi þeirra þúsunda Íslendinga sem þegar hafa skrifað undir.

Með undirritun þjóðarsáttmálans skuldbindur fólk sig til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélaginu og standa vörð um rétt fólks til að þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Fólk skuldbindur sig jafnframt til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi og vera góð fyrirmynd.

Það er ábyrgð okkar allra að skapa góða vinnumenningu sem einkennist af jafnræði og virðingu fyrir náunganum. Komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. Líðum ekki einelti!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum