Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

16. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Menningarlandið 2013 á Kirkjubæjarklaustri 

Ágætu ráðstefnugestir

Ég býð ykkur velkomin á ráðstefnuna Menningarlandið 2013 hér á Klaustri. Það er ágætis uppbrot í annasömu vori að þjóta hingað austur á land í þessa fögru náttúru sem Kirkjubæjarklaustur skartar, til að taka þátt í þessari spennandi samkomu.

Þetta er fjórða ráðstefnan undir þessu heiti, nú tileinkuð framkvæmd og framtíð menningarsamninga. Sú fyrsta var haldin á Seyðisfirði í maí 2001 en þá var einmitt undirritaður fyrsti menningarsamningurinn við landshluta fyrir Austurland. Önnur ráðstefnan var haldin 2009 í Stykkishólmi og var það mitt fyrsta embættisverk að ávarpa þá ráðstefnu – einkar gleðilegt fyrir nýja ráðherrann. Þriðja ráðstefnan var síðan haldin í Reykjavík til undirbúnings menningarstefnu.

Með fyrsta menningarsamningnum fyrir Austurland var stigið nýtt skref í samskiptum ríkisins og sveitarstjórna á þessu sviði. Sá samningur varð fordæmi og fyrirmynd annarra þeirra sem fylgdu í kjölfarið. Með þessum samningum hefur sveitarfélögum verið falið vald sem áður var í höndum ráðuneytisins, og verkefni og ábyrgð verið færð frá ríki til sveitarfélaganna með það sem grundvallarhugmyndafræði að heimamenn meti þörfina og áherslurnar best. Slík samvinna krefst skilnings og gagnkvæms trausts og langs undirbúnings. Reynslan hefur að flestra mati verið góð.

Vaxandi áhugi landsmanna á menningarmálum er greinilegur á Íslandi á undanförnum árum og einnig skilningur á að þessi málaflokkur getur skapað atvinnu líkt og aðrar atvinnugreinar, haft bein og óbein áhrif í því sambandi. Kortlagning hagrænna áhrifa í skapandi greinum hefur opnað augu margra fyrir þessum þætti um leið og menningarleg rök fyrir markvissum stuðningi eru almennt viðurkennd. Fyrst og síðast byggist þó frumsköpun og fagmennska í menningarlífinu á þeim fjölmörgu sem leggja lóð á vogarskálarnar í þessu sambandi og fyrir það ber að þakka.

Einnig má nefna að úttekt á stöðu og tillögur um bætt starfsumhverfi skapandi greina og sýn til framtíðar kom út í september á síðasta ári og hefur í framhaldi af því verið skipaður starfshópur sem vinna á að samræmdri uppbyggingu skapandi greina og koma með tillögur um aðgerðir í þeim efnum.

Þrátt fyrir tilvist menningarsamninga sem hafa verið sem vítamínssprauta inn í samfélagið er brýnt að minna á að menningarmál eru einnig hluti af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga og mikilvægt er að frumkvæði í stefnumótun menningarlífs komi frá sveitarstjórnunum sjálfum og kjörnum fulltrúum þeirra. Markmið með skýrri stefnu sveitarfélaga er að koma á skipulegum vinnubrögðum, efla samstarf og samnýta krafta. Með þessu móti er hægt að skapa forsendur fyrir meira framboði menningar og auknum gæðum. Þá þarf að auka atvinnuþátttöku í menningarmálum og menningartengdri ferðaþjónustu, auka gæði hennar og framboð. Eitt að því sem rætt verður um hér á þessari ráðstefnu er einmitt hvernig bæta megi tengslin milli fræðasamfélagsins og ferðaþjónustunar þannig að skjóta megi styrkari stoðum undir faglegt starf á því sviði.

Það er mikilvægt að menningarstarf sé framsækið og metnaðarfullt, m.a. með það að leiðarljósi að fleiri geti haft af því atvinnu og hefur það frá upphafi verið leiðarstefið í áherslum ráðuneytisins í þessu samstarfi. En ekki má gleyma mikilvægi áhugastarfs í menningu og listum og samfélagslegum markmiðum starfsins, við að bæta félagstengslin og almenna velsæld.

Fyrir íslenskt samfélag er menntun það sem mun áfram skila íslenskri þjóð meðal hinna fremstu meðal þjóða. Tryggja þarf enn frekar undirstöður menningar í landinu með listmenntun og listkynningum á öllum skólastigum, því slíkt leggur undirstöður fyrir metnaðarfullt menningarlíf framtíðarinnar.

Þriggja ára samningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis við landshlutasamtökin sjö rennur út um næstu áramót. Gerður hefur verið samningur við Capacent ráðgjöf um úttekt á þeirri vinnu og er miðað við að úttektinni verði lokið í ágústmánuði. Þar fá samningsaðilar vonandi góða mynd af styrkleikum og veikleikum samninganna sem nýtast munu við endurskoðun þeirra nú í haust, m.a. um hvort skynsamlegt sé að halda áfram á þeirri braut að fela Menningarráðum úthlutun á rekstrar- og stofnstyrkjum til að efla starfsemi á sviði lista, safna og menningararfs eins og var gert með viðauka við menningarsamningana á sl. ári til tveggja ára. Arnar Jónsson, starfsmaður Capacent, mun gera úttektina.

En fyrirkomulag í samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaga á landsbyggðinni er í nokkuru deiglu þessi misserin, eins og kannski á alltaf við. Þann 22. mars s.l. voru undirritaðir samningar við átta landshlutasamtök um sóknaráætlanir landshluta árið 2013. Með samningunum er staðfest nýtt verklag sem einfaldar samskipti tveggja stjórnsýslustiga, gerir þau skilvirkari og stuðlar að bættri nýtingu fjármuna ef vel tekst til um framkvæmd. Með samningunum eru færð aukin völd og aukin ábyrgð til landshlutanna við forgangsröðun og skiptingu opinbers fjár sem rennur til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Sóknaráætlanir landshluta eru þróunarverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga sem byggja á samvinnu aðila. Ef hið nýja verklag sem nú hefur verið tekið upp reynist vel skapar það grundvöll fyrir því að enn stærri hluti fjárframlaga ríkisins til landshluta verði færður í þennan nýja farveg.

Verkefnið um sóknaráætlanir landshluta er nýsköpunarverkefni í stjórnsýslunni. Nýsköpunin endurspeglar m.a. áherslur um aukið samstarf þvert á ráðuneytin. Áeggjan um slíkt kemur m.a. fram í skýrslunni Samhent stjórnsýsla (2010) og áherslum OECD síðustu misseri þar sem aukin áhersla er lögð á að vinna með málaflokka eins og byggðamál þvert á skipulagsheildir. Samskipti ráðuneyta hafa stóraukist og aðkoma að málaflokknum verið samstillt í gegnum Stýrinet stjórnarráðsins.

Áhersla sóknaráætlana landshluta árið 2013 er á atvinnumál og nýsköpun, markaðsmál, menntamál og menningarmál. Alls voru samþykkt 73 ný verkefni og til þeirra ráðstafað 400 m.kr úr ríkissjóði og eru mótframlög til þeirra 220 m.kr. til viðbótar.

Verkefni á sviði menntamála og menningarmála eru fjölmörg í sóknaráætlun landshluta 2013. Ljóst er að landshlutarnir hafa tekið mikið mark á nýjum upplýsingum um menntunarstig í landshlutum og lagt til fjölmörg verkefni til að bæta þar úr m.a. með bættu aðgengi að menntun á öllum skólastigum, aukinni samþættingu og samstarfi.

Á höfuðborgarsvæði er m.a. verkefni um kortlagningu menningarverkefna, á Suðurnesjum markaðssetning á tónlist og tónlistarhefð, nám í skapandi greinum á Austurlandi, Vestfirðir leggja aukið fjármagn til menningarsamnings, Norðurland vestra leggur í tveimur verkefnum áherslu á markaðsmál og kynningu þar sem menning landshlutans er í forgrunni, Vesturland er með verkefni á sviði matarmenningar og ferðaþjónustu, Norðurland eystra með verkefnið Aftur heim sem er hvatningarverkefni fyrir listafólk til starfa í heimabyggð og svo mætti áfram telja.

Verkefni á sviði menntunar og menningar eru því fjölmörg enda byggja verkefnin á stefnumótum, áherslum og tillögugerð heimaðila. Áhyggjur manna af því að menntamál og menningarmál myndu verða útundan við ráðstöfum fjár til verkefna sóknaráætlana landshluta virðist því hafa verið ástæðulausar, þó vitanlega séu áherslur einstakra landshluta misjafnar.

Nú renna gildandi menningarsamningar út í árslok 2013. Nú er það til skoðunar í ráðuneytinu hvort ekki væri skynsamlegt að nýjir menningarsamningar verði gerðir sem viðaukar við nýja samninga um sóknaráætlanir landshluta frá og með 2014.

Í það minnsta má ljóst vera að mennta- og menningarmálaráðuneyti lítur svo á að grundvöllur sé fyrir enn öflugra menningarlífi um landið og að menningarsamningarnir séu einn af burðarásum sóknaráætlunar.

Þegar kemur að breytingum og meta þarf áframhaldandi samstarf er rétt að gera það. Flestir hér vita að skipan menningarráðanna á landsbyggðinni hefur verið nokkuð til umræðu. Skoða þarf hvort að skipan menningarráða þurfti að vera sú að þar sitji fagaðilar sem hafi með höndum úthlutun styrkja og séu auk þess umsagnaraðilar um önnur þau verkefni sem stjórn sóknaráætlunar eða landshlutasamtaka fá inn á sitt borð. Stjórnsýslan yrði því meira á herðum stjórnar en menningarráð yrði fagaðilinn. Rétt er að sveitarstjórnar stigið velti því fyrir sér hvernig rétt sé að manna menningarráðin og hvort þar sé e.t.v. heilladrjúgast að þar sitji aðrir en kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi.

Góðir gestir

Megintilgangur ráðstefnunnar nú er að ræða um framkvæmd og framtíð menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga sem og samstarf ríkis og sveitarfélaga við menningarráðin, en vitanlega mun margt bera á góma.

Ég vil við þetta tækifæri þó nefna nokkur atriði sem við koma menningarmálum á landsvísu og horfir til batnaðar. Nýlega lagasetningu má nefna: lög um Ríkisútvarpið þar sem menningarhlutverk þess er undirstrikað, bókasafnalög, lög um heiðurslaun listamanna, lög um menningarminjar, myndlistarlög, safnalög sem tekið hafa gildi og hafa áhrif á safnastarf um allt land, breytingar á lögum um bókmenntir, og lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Einnig má nefna tilkomu nýrra sjóða: til dæmis hönnunarsjóð, myndlistarsjóð og starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna.

Eitt af því sem heyrir til nýmæla og sprettur upp úr vinnu á fyrri ráðstefnu um menningarlandið er menningarstefna sem ráðuneytið kemur með glóðvolga úr prentsmiðjunni í farteskinu hingað í Menningarlandið.

Stefnan sem snýr að aðkomu ríkisins að málefnum lista og menningararfs var samþykkt sem þingsályktun á Alþingi 6. mars síðastliðin. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt plagg er sett fram en þar er að finna leiðarljós stjórnvalda í þessum málaflokkum og áherslur og markmið í sex undirköflum sem snúa að menningarþáttöku, menningarstofnunum, samvinnu ólíkra aðila í menningarmálum, alþjóðasamhenginu, starfsumhverfi aðila í menningarmálum og loks er þar kafli um stafræna menningu.

Mælt er fyrir um stefnuna í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, í framhaldi af því var þörfin metin og að grunni til á stefnan rætur að rekja til ráðstefnunar Menningarlandsins árið 2010. Mikilvægt var að mínu mati að beina stefnuskrifunum inn á vettvang Alþingis því það er nauðsynlegt að þar á bæ hugi menn líka að hinum breiðu dráttum í þessari aðkomu, rammanum sem við setjum utan um menningarmálin á landsvísu.

Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur efni stefnunar, ef þið eruð ekki enn búin að því, enda er henni ætlað að nýtast til stjórnvöldum og Alþingi við frekari vinnu og verða hvatning þeim fjölmörgu aðilum, sem vinna á sviði íslenskrar menningar, til að vanda til verka og horfa til framtíðar. Nú er vinna að hefjast við framgang stefnunar í ráðuneytinu.

Mig langar að nefna einn mikilvægan þátt í menningarstefnunni en hann er áherslan á samvinnu. Menningarsamningarnir sem hér um ræðir byggjast á virku samtali sem nauðsynlegt er að hafa opið og óhindrað. Einnig má nefna mikilvægi þess að sveitarstjórnir, landshlutasamtök eða einstök sveitarfélög séu opin fyrir samstarfi sín á milli, eða t.d. við hin félagasamtök þegar kemur að menningarmálum, auk þess sem rétt er að hvetja til þess að í framtíðinni leitist sveitarfélög eftir samvinnu við menningarstofnanir á landsvísu um einstök verkefni, en slíkt á ekki síst við í safnageiranum.

En Menningarlandið er handan við sjónarrönd nú í upphafi ráðstefnunnar, ágætu gestir. Vonandi höfum við bæði gagn og gaman af þessum sólarhring sem við verjum hér saman.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum