Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

26. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ársfundur Kennarasambands Íslands

Ágætu ársfundarfulltrúar.

Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir að fá tækifæri til að ávarpa fundinn, sem einkum mun fjalla um mat á skólastarfi og eins og ykkur er kunnungt gegnir ráðuneytið menntamála ríku hlutverki í því efni.

Stjórnvöld og stefnumótunaraðilar í menntamálum víða um heim hafa í auknum mæli beint sjónum að gæðamálum skóla og mati á skólastarfi. Gæðastarf sem fer fram í skólum er fyrst og fremst tæki til að skilja betur hversu vel nemendum gengur að læra, til að upplýsa foreldra og samfélag um frammistöðu skólakerfisins og til að bæta skólastarf, hæfni skólastjórnenda og kennslu í skólastofunni.

Samfélagið og atvinnulífið gerir miklar kröfur til skólakerfisins okkar um árangur í námi, um að jafnræðis sé gætt og markið sett hátt. Við viljum alltaf betri skóla. Og þess vegna er svo mikilvægt að vinna að því markmiði með markvissu starfi innan skólanna og hjá menntayfirvöldum á öllum stigum stjórnsýslunnar. Bæði hjá okkur og í öðrum löndum í kringum okkur hefur þróunin í skólakerfinu verið í átt til meiri dreifstýringar og auknu sjálfræði skóla. Það eru því skólarnir sjálfir sem bera hitann og þungann af því að vinna að umbótum á skólastarfi. Menntayfirvöld þurfa að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskráa, ekki síst til að stuðla að því að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Allir þurfa að vera vakandi fyrir því hvernig hægt er að gera skólastarf betra og setja markið hærra.

Með lögunum frá 2008 var sjálfstæði sveitarfélaga og skóla aukið og þeim skapað meira svigrúm til að móta skólahald. Samhliða því var mat og eftirlit almennt aukið til að leitast við að tryggja gæði menntunar. Sveitarfélög fengu aukið hlutverk í eftirliti með menntun og skólastarfi og mats- og eftirlitshlutverk ráðuneytisins var þróað í þá átt að taka til fleiri þátta en það hafði gert áður, svo sem velferðar og líðan nemenda, forvarna og starfshátta skóla.

Skólarnir bera sjálfir ábyrgð á innra mati sínu en ráðuneytið og eftir atvikum sveitarfélög annast ytra mat á skólum. Ytra mat felst m.a. í úttektum á skólastarfi í heild eða einstökum þáttum þess, stofnanaúttektum, úttektum á námsgreinum og námsþáttum og eftirliti með innra mati skóla. Ráðuneytið ber jafnframt ábyrgð á því að fylgjast með því að sveitarfélög uppfylli lögbundnar skyldur sínar gagnvart skólum þar sem við á. Stofnanaúttektir sem gerðar hafa verið á leik- og grunnskólum hafa mælst vel fyrir og reynst gagnlegar fyrir skóla, sveitarfélög og ráðuneyti.

Ráðuneytið fylgist einnig með stöðu og þróun menntakerfisins. Í þeim tilgangi safnar ráðuneytið margvíslegum upplýsingum um skólahald, m.a. með þátttöku í alþjóðlegum könnunum á námsárangri, eins og PISA, og öðrum þáttum skólastarfs eins og TALIS könnuninni um kennarastarfið.

Ráðuneytið gerir áætlun um úttektir á öllum skólastigum og birtir þær á heimasíðu sinni. Einnig gefur ráðuneytið út ítarlegar leiðbeiningar um innra mat sem skólar geta nýtt sér, kjósi þeir það.

Með því að ráðuneytið aflar kerfisbundið samanburðarhæfra upplýsinga frá skólum og sveitarfélögum og birtir þær opinberlega ásamt greiningu á stöðu skóla og sveitarfélaga er stuðlað að virku aðhaldi og eftirliti með gæðum skólastarfs.

Ein lykilspurning sem við verðum að spyrja okkur og sem kennarar og skólastjórnendur velta mikið fyrir sér er þessi: Hvað eru gæði í skólastarfi? Við hvað á að miða þegar reynt er að meta gæði skólastarfs? Í því sambandi gegna aðalnámskrárnar veigamiklu hlutverki. Aðalnámskrár skólastiganna, sem nú er verið að innleiða, mynda grunn viðmiða sem mat á skólastarfi hvílir á en í skólanámskrá útfærir hver skóli nánar þau markmið og viðmið sem sett eru fram í aðalnámskrá og eftir atvikum í skólanámskrám. Mikilvægt er að innra og ytra mat á skólum nái til allra lögbundinna markmiða skólastarfisins, þ.m.t. hlutverks skóla að styrkja nemendur til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi, efla frumkvæði og sjálfstæða hugsun nemenda, samskiptahæfni og fleiri atriði sem m.a. tengjast grunnþáttum menntunar.

Aðalnámskrárnar eru ekki einu viðmiðin sem við höfum til að styðjast við. Samræmd könnunarpróf gegna mikilvægu hlutverki til að átta sig á frammistöðu skóla og árangrinemenda. Og á síðasta áratug hefur í auknum mæli verið tekið mið af alþjóðlegum könnunum, einkum og sér í lagi PISA, til að meta árangur grunnskólakerfisins í heild sinni. Það er af sem áður var, að Íslendingar gætu barið sér á brjóst í þeirri fullvissu að þeir væru með bestu skóla í víðri veröld. Nú hafa alþjóðlega viðurkenndar samanburðarrannsóknir gefið okkur tækifæri til að meta árangur skólakerfisins á hlutlægan hátt í samanburði við löndin í kringum okkur. Mennta- og menningarmálaráðuneytið stefnir að því að taka reglulega þátt í alþjóðlegum rannsóknum á vegum OECD í samstarfi við önnur lönd. Enda veita slíkar rannsóknir ekki aðeins mikilvægar upplýsingar um stöðu íslenskra nemenda í samanburði við nemendur í öðrum löndum heldur gefur okkur mikilvægar vísbendingar um hvort að þær stefnumótandi aðgerðir sem stjórnvöld grípa til skila tilætluðum árangri.

Eins og ráðuneytið hefur greint frá og kynnt þá hefur Námsmatsstofnun nú tekið við nokkrum verkefnum sem áður var sinnt af ráðuneytinu. Meðal verkefna er mat og eftirlit með leik- og grunnskólum og stefnt er að því að eftirlit með framhaldsskólum flytjist einnig til stofnunarinnar.

Þrátt fyrir þessa tilfærslu þá hefur ráðuneytið eftir sem áður heimildir til að ráðast í svokallaðar frumkvæðisathuganir, t.d. í kjölfar ábendinga úr skólasamfélaginu og aðrar úttektir eftir því sem þurfa þykir. Eftirfylgnin með niðurstöðum fer áfram fram innan ráðuneytisins.

Um mat og eftirlit með skólastarfi er nánar fjallað í reglugerðum sem settar hafa verið við lögin. Til að stuðla að enn betri innleiðingu laga og reglugerða, með gæði skólastarfs í víðum skilningi að leiðarljósi, var stofnað til samstarfs ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga ásamt Jöfnunarsjóði um þróun á samstarfi um ytra mat á skólum. Niðurstaðan úr því samstarfi er ykkur sjálfsagt flestum kunn en nú er farið af stað þróunarverkefni um mat á grunnskólum til næstu tveggja ára. Skólastjórafélagið er einnig komið í það samstarf og langar mig á þessum vettvangi að lýsa yfir mikilli ánægju með hversu vel hefur tekist til með þetta verkefni. Verkefnið verður sérstaklega kynnt hér á eftir en það bíður okkar að vinna sambærilegt módel fyrir leikskólastigið.

Ráðuneytið hefur með ýmsum öðrum hætti lagt mat á skólastarf. Það ákvað að fylgjast með innleiðingu nýrra laga með því að gera kannanir meðal sveitarfélaga og skólastjóra leik- og grunnskóla. Með því var ætlunin að fá breiða mynd af stöðu mála og varpa ljósi á áherslur og sýn sveitarstjórna og stjórnenda grunnskóla. Kannaðir voru þættir eins og t.d. skólastefna og eftirlit sveitarfélaga, sérfræðiþjónusta, skólaráð, foreldrafélög og samrekstur skólastiga.

Almennt er óhætt að segja að sveitarfélög og skólar hafi innleitt lögin að mestu,þó vissulega séu enn dæmi þess að innleiðing á einstaka ákvæði laga og reglugerða sé ábótavant.

Þá vil ég að endingu nefna að undanfarin misseri hefur ráðuneytinu í auknum mæli borist kærur eða ábendingar vegna starfsemi skóla. Áður voru slík erindi oft afgreidd í símtali eða í óformlegri athugun og eftir atvikum fyrir milligöngu gagnvart hlutaðeigandi stjórnvöldum. Í kjölfar þeirrar gagnrýni sem sett var fram í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis um bankahrunið og orsakir þess um formleysi við afgreiðslu mála í stjórnsýslunni hefur í ríkara mæli verið tekin upp formlegri afgreiðsla slíkra mála í ráðuneytinu. Ráðuneytið hefur ritað sveitarfélögum bréf og óskað upplýsinga með formlegum hætti þegar því berast ábendingar og kvartanir. Oft hefur þurft ítrekuð bréf ráðuneytisins vegna ófullkominna svara sveitarfélaga eða að ráðuneytið hefur beitt sér fyrir sérstökum frumkvæðisathugunum á afmörkuðum þáttum skólastarfs. Hafi úttektir leitt í ljós brotalamir er úttektinni fylgt eftir með tillögum um úrbætur, krafist umbótaáætlana og þeim síðan fylgt eftir. Með þessu nýja verklagi er leitast við að standa betur vörð um réttindi barna.

Að lokum skulum við hafa hugfast í hvaða tilgangi allt þetta starf er unnið. Markmiðið er skýrt: Að auka gæði menntunar í þágu allra og efla námsmat á breiðum grunni sem fyrst og fremst styður okkur í að gera góðan skóla enn betri !

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum