Hoppa yfir valmynd
08. mars 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Þróunarsetur Háskólans á Hólum opnað og próteinverksmiðja flytur á Sauðárkrók

Ágætu ráðherrar, rektor og aðrir gestir.

 

Til hamingju með opnun Versins.

Mörg okkar voru stödd hér fyrir rétt rúmlega tveimur mánuðum, þegar efnt var til kynningarfundar á starfsemi þróunarsetursins. Tilefnið var að  sjávarútvegsráðuneytið og iðnaðarráðuneytið ákváðu að styrkja og efla vel heppnað samstarf Hólaskóla, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, FISK-Seafood og fleiri hér nyrðra. Það er gert með sérstöku sex milljóna króna fjárframlagi til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, sem verður notað til að skjóta enn styrkari stoðum undir starfsemi þróunarsetursins. Við iðnaðarráðherra skrifum undir samning hér á eftir um fjármögnunina. Jafnframt verður þetta allt saman innsiglað með undirskrift samstarfssamnings Hólaskóla, Rf, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og FISK Seafood.

 En það verður skrifað undir fleira. Það er ánægjulegt að greina frá því hér að próteinverksmiðja Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Iceprotein ehf, verður flutt hingað á Sauðárkrók og tekið upp samstarf um reksturinn við FISK-Seafood. Iceprotein hefur verið til húsa á Akranesi og í samstarfi við HB-Granda. Húsnæðið á Akranesi var ófullnægjandi og þegar HB-Grandi dró sig út úr samstarfinu var nauðsynlegt að flytja starfsemina og var afráðið að hún kæmi hingað á Sauðárkrók, enda afar góð reynsla af samstarfi við FISK-Seafood. Hjá Iceprotein verða þróuð, framleidd og seld blautprótein fyrir fiskiðnað á Íslandi og þurrkuð prótein fyrir heilsu og fæðubótarmarkaðinn. Einn starfsmaður verður hjá fyrirtækinu fyrsta árið, ásamt nemendum í framhaldsverkefnum og starfsmönnum frá FISK-Seafood. Miklir möguleikar eru fólgnir á þessu sviði og hafa afurðir fyrirtækisins fengið góðar viðtökur og jákvæða dóma. Þá má geta þess að ALFA-LAVAL þýskur tækjaframleiðandi leggur til hluta tækja, án eignaraðildar en gegn því að fá að fylgjast með þróunarverkefninu. Gangi allt upp  á aðlögunartímanum, sem er eitt ár, má ætla að 5-10 starfsmenn fá vinnu í verksmiðjunni. Sjávarútvegsráðuneytið og Iðnaðarráðuneytið leggja nú hvort um sig fram tæplega fimm milljónir króna til flutnings Iceprotein hingað norður og skrifum við iðnaðarráðherra einnig undir samning þar að lútandi.

 En aftur að samstarfi skóla, stofnana og fyrirtækja hér í þróunarsetrinu. Það hefur verið til fyrirmyndar og leiðir vonandi öðrum fyrir sjónir hve miklu fæst áorkað þegar allir leggjast á eitt. Á engan er hallað þótt framlag FISK-Seafood sé gert að sérstöku umtalsefni. Þróunarsetrið væri ekki það sem það er í dag án þess mikla stuðnings. Með tilkomu húsnæðisins hér sem fyrirtækið skaffar, hafa allar forsendur til kennslu og rannsóknarstarfa gjörbreyst. Fyrir utan að styrkja sína heimabyggð þá sjá forsvarsmenn fyrirtækisins tækifæri til að gera það að áhugaverðari starfsvettvangi en ella fyrir vel menntað fólk. Brýnt er að efla menntun, rannsóknir og þróunarstörf á landsbyggðinni. Í því felst jú lykillinn að raunverulegri og lífsnauðsynlegri uppbyggingu. Þetta vita  forráðamenn FISK og hafa því stutt þróunarsetrið af miklum myndarskap.

 Í erindunum sem flutt voru á kynningarfundinum í upphafi árs kom berlega fram hve árangursríkt starf hefur verið unnið í Verinu. Meðal annars talaði Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Rf um hvernig uppbyggingu stofnunarinnar á Norðurlandi og víðar á landsbyggðinni hefur verið háttað. Rf vinnur að rannsóknum um land allt. Þar sem áhugi, geta og aðbúnaður eru fyrir hendi þar er Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins reiðubúin til samstarfs. Starfsmenn Rf eru mjög áhugasamir um þróunarsetrið, enda aðbúnaður allur framúrskarandi til vísinda og rannsóknastarfa. Vísindin efla alla dáð og kannski þau verði stóriðja Skagfirðinga.  Enginn skyldi vanmeta þann ávinning sem Hólaskóli er.

 Nú stendur yfir vinna í sjávarútvegsráðuneytinu að svo kölluðu samstarfsneti um sjávarútvegsrannsóknir. Með því er ætlunin að efla nýsköpun og rannsóknir á sviði  sjávarútvegs. Það verður gert með markvissu samstarfi skóla, stofnana, hagsmunasamtaka og fyrirtækja, þ.e.a.s. vel flestra eða allra þeirra sem að greininni koma. Þróunarsetrið er skólabókardæmi um hvernig hægt er að haga samstarfi ólíkra aðila svo vel takist til. Það þarf að efla samvinnu þeirra sem sinna kennslu og rannsóknum í sjávarútvegi og tengdum greinum, með það í huga að nemendur telji eftirsóknarvert að stunda rannóknatengt framhaldsnám á þessu sviði hér á landi. Í vinnu við samstarfsnet um sjávarútvegsrannsóknir getur það sem hér er gert svo sannarlega orðið til eftirbreytni.

 Áhugi á námi í þessum geira virðist hafa dalað undanfarin ár. Það er þróun sem vitaskuld hugnast okkur ekki. Sjávarútvegur er enn sem fyrr undirstöðu atvinnuvegur þjóðarinnar og bráðnauðsynlegt að úr grasi vaxi kynslóð sem getur tryggt áframhaldandi sókn okkar á þessu sviði. Sóknarfærin eru til staðar og þau þarf að nýta.

 Það er skemmtilegt að þennan áfanga, sem við fögnum nú, skuli bera upp á sama ár og 900 ára afmæli Hólaskóla er fagnað. Upphaf þessa skólahalds markaði tímamót í menntasögu Íslendinga. Öflun, varðveisla og miðlun þekkingar er geysilega þýðingarmikil fyrir land og þjóð og hefur stuðlað að framförum bæði í atvinnulífi og menningu. Framboð á háskólanámi hérlendis hefur aldrei verið meira en nú og greinilegt er að fólk þyrstir í þekkingu, sama á hvaða aldri menn eru. Þá er mikilvægt að fróðleiksfúsir nemendur og vísindamenn eigi í hús sem þetta að venda til fá metnaði sínum svalað innanlands. Stefnan er jú að laða hingað sérfræðinga hvers konar og nemendur til starfs og náms. Við búum í sannkölluðu þekkingarsamfélagi þar sem sjávarútvegur og allt það þekkingarstarf sem í honum er unnið, er enginn eftirbátur annarra atvinnugreina. Brýnt er að vera sterkur á því svelli til að standast samkeppni bæði innanlands og utan.

 Vel mannað, veglegt og vel tækjum búið rannsókna og þróunarsetur getur skilað þjóðinni margskonar ávinningi. Megi starfið hér vaxa og dafna. Til hamingju með áfangann.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum