Hoppa yfir valmynd
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Ræða forsætisráðherra við afhendingu hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs á Rannsóknaþingi 31. maí 2006

Mér er það sönn ánægja að tilkynna niðurstöðu dómnefndar um val á handhafa hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2006. Í þetta sinn hlýtur verðlaunin dr. Agnar Helgason mannfræðingur. Megin starfsvettvangur Agnars er hjá því ágæta fyrirtæki Íslenskri erfðagreiningu, en hann er jafnframt aðjunkt við mannfræðiskor félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, þar sem hann kennir og leiðbeinir háskólastúdentum í framhaldsnámi.

Agnar er fæddur 1968 og ólst að mestu upp í Bretlandi, en lauk B.A. - prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands. Að B.A.-prófinu loknu hóf hann framhaldsnám í félagslegri mannfræði við Háskóla Íslands og varð fyrsti meistaraneminn við félagsvísindadeild. Meistaraverkefni hans fjallaði um kvótakerfið sem ég hafði nokkra reynslu af áður fyrr. Þannig að hann áttaði sig fljótt á því sem skiptir miklu máli. Sem betur fer beindist hugur hans að öðrum mikilvægum málum. Hann rannsakaði m.a. í samstarfi við Gísla Pálsson, prófessor í mannfræði, skipstjóra á Íslandi, hvort tengsl væru milli menntunar og aflasældar skipstjóra. Niðurstöður hans á báðum þessum sviðum birtust í viðurkenndum alþjóðlegum fræðiritum í félagslegri mannfræði. Agnar breytti síðan um stefnu og hóf nám í líffræðilegri mannfræði við Cambridge – háskólann í Bretlandi, þar sem hann lauk annarri meistaragráðu. Að því loknu hóf hann doktorsnám við háskólann í Oxford árið 1997.

Doktorsverkefni Agnars fjallaði um uppruna Íslendinga, þar sem erfðaefni hvatbera og Y-litninga var notað til að varpa ljósi á ólíkan uppruna kvenna og karla í landnámshópnum. Það skipti sköpum fyrir umfang og árangur þessa verkefnis að Íslensk erfðagreining bauð Agnari aðstöðu og samvinnu um rannsóknir á þessu sviði. Með þessum rannsóknum sínum, sem birst hafa í fjölmörgum virtustu fræðitímaritum á sviði mannerfðafræði, sýndi Agnar m.a. fram á að um 80% af landnámskörlum voru upprunnir frá Norðurlöndum, en um 62% af landnámskonum voru upprunnar frá Bretlandseyjum. Þetta bendir eindregið til þess að blandaðar fjölskyldur, þar sem feður voru norrænir en mæður breskar, og afkomendur slíkra fjölskyldna, voru ríkjandi í hópnum sem nam land á Íslandi fyrir um 1100 árum. Af þessum ástæðum hefur Agnar ályktað að flestir landnemarnir hafi lagt af stað til Íslands frá byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum. Nýlegar erfðarannsóknir Agnars og annarra á fleiri eyþjóðum Norður Atlantshafsins hafa rennt frekari stoðum undir þessa sögutúlkun.

Árið 2000 hóf Agnar störf hjá Íslenskri erfðagreiningu og stýrir þar nú lítilli mannfræðideild, þar sem hann sinnir rannsóknum á erfðasögu Íslendinga og þróunarsögu erfðabreytileika sem tengist þeim sjúkdómum sem fyrirtækið vinnur með. Á meðal nýlegra vísindagreina sem Agnar hefur birt eru t.d. rannsókn um landfræðilega lagskiptingu í erfðamengi Íslendinga. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að sterk tengsl hafa verið á milli átthaga og erfðabreytileika á Íslandi. Þar af leiðir að flutningur fólks á milli landsvæða hefur verið óverulegur fyrr á tímum. Agnar hefur nýlega birt greinar um erfðasögu Inúíta frá Grænlandi og Kanada. Enn fremur hefur hann lagt af mörkum til mikilvægra rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar á erfðaþáttum sjúkdóma á borð við hjartaáfall, sykursýki og blöðruhálskrabbamein sem birtar hafa verið í alþjóðlegum tímaritum á sviði mannerfðafræði. Þá bar Agnar ábyrgð á mikilvægum verkþáttum rannsóknar Íslenskrar erfðagreiningar á þróunarsögu mjög óvenjulegs svæðis á litningi 17, sem virðist hafa áhrif á frjósemi fólks og tíðni endurröðunar á litningum í erfðamengjum þeirra. Vísindagrein um þessa rannsókn hefur vakið töluverða alþjóðlega athygli. Agnar hefur byggt upp nýtt svið í mannfræði hér á landi og hefur í því skyni notið góðs af einstakri aðstöðu hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hann birtir mikið í virtustu tímaritum heims og nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar á sínu sviði. Hann er einnig ötull við að byggja upp kennslu og leiðbeina nemendum í framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Agnar uppfyllir því ákaflega vel viðmið valnefndarinnar og er verðugur handhafi hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2006. Ég vil nú biðja dr. Agnar Helgason um að koma hér og taka við hvatningarverðlaununum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira