Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslu án útgerðar

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra á aðalfundi

Samtaka fiskvinnslu án útgerðar 11. nóvember 2006

Góðir fundarmenn.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrstu fiskmarkaðirnir tóku til starfa hér á landi árið 1987. Þá var ekkert lagaumhverfi til um starfsemi þeirra en úr því var bætt tveimur árum síðar og eins og ykkur er kunnugt voru svo ný lög samþykkt vorið 2005. Þessi lög voru til framfara og ég vænti þess að þau geti verið góður rammi utan um þessa þýðingarmiklu atvinnustarfsemi til nokkurrar framtíðar. Fiskmarkaðirnir varða miklu, ekki síst fyrir einstaklingsútgerðir og fiskvinnslufyrirtæki. Þeir hafa stuðlað að aukinni fjölbreytni í sjávarútvegi og fjölgað vöruflokkum sem í boði hafa verið á vettvangi sjávarútvegsins.

Í sjávarútvegsráðuneytinu hefur um nokkurt skeið verið unnið að setningu reglugerðar um fiskmarkaði. Ýmislegt hefur þó valdið því að töf hefur orðið á útgáfu hennar, en vonandi tekst okkur að ljúka því verki fyrr en seinna. Það er rétt sem sagt hefur verið að mikilvægt er að allt starfsumhverfi markaðanna sé sem skýrast og reglugerð sem byggir á hinum nýju lögum um fiskmarkaðina þarf því að líta dagsins ljós.

Ég vil leggja áherslu á gott samstarf við þá sem að málinu koma og munu vinna innan þess ramma sem reglugerðin setur. Í því sambandi vil ég taka fram að Samtök fiskvinnslu án útgerðar verða vitaskuld höfð með í ráðum og því verður leitað umsagnar þeirra áður en reglugerðin verður gefin út. Megináherslur í henni munu snúa að gagnsæi viðskipta, þannig að upplýsingar um verð og selt magn verði aðgengilegar viðskiptavinum fiskmarkaðanna þegar að loknu uppboði. Lögð verður áhersla á að í uppboðsskilmálum, sem liggja fyrir áður en uppboð hefst, komi fram allar þær upplýsingar sem kunna að hafa áhrif á verðmyndun. Ráðuneytið leggur áherslu á að kostnaður sem til fellur verði greiddur af eiganda aflans, það er að áfallinn kostnað fyrir sölu beri seljandi og kostnað sem til fellur eftir sölu beri kaupanda að greiða.

Fiskmarkaðir eru þarfaþing og gerðu að margra mati nýliðun mögulega í fiskvinnslunni á sínum tíma. Þá hafa þeir bæði leitt til betri og hagkvæmari nýtingar aukaafla sem lítið fékkst fyrir áður og var jafnvel hent. Til marks um þá fjölbreyttu fánu sem um markaðina fer, þá komu hátt í fimmtíu mismunandi tegundir til uppboðs í fyrra, sumar vitaskuld í mjög litlu magni.

Undanfarin fimm ár hefur verið höndlað með 4,2 – 5,9% heildaraflans af Íslandsmiðum á fiskmörkuðum. Það er magn sem nemur á milli 90 og 100 þúsund tonnum á ári. Á sama tímabili hefur um fimmtungur heildarbotnfiskafla landsmanna farið í gegnum fiskmarkaðina ár hvert og hlutfall heildarflatfiskaflans hefur verið frá tæpum 12 prósentum og upp í tæp 18%. Verðmæti aflans sem um fiskmarkaðina fer nemur á annan tug milljarða króna á ári. Mest voru verðmætin 2001 og 2002 enda var meðalkílóverð þá miklu hærra en önnur ár. Samkvæmt fréttum í gær á heimasíðu Íslandsmarkaðar stefnir í að þetta ár verði fiskmörkuðunum mjög hagfellt. Fyrstu tíu mánuði ársins hafi liðlega 93 þúsund tonn af fiski verið seld fyrir rúmlega tólf og hálfan milljarð króna. Þarna er um mikinn afla og háar fjárhæðir að ræða, sem sýna glögglega hversu þýðingarmiklu hlutverki markaðirnir gegna.

Í fyrra voru tæplega 18% þorskaflans af Íslandsmiðum seld á fiskmörkuðum, 28% ýsuaflans og tæplega helmingur steinbíts svo veigamestu tegundirnar í magni og verðmæti séu nefndar til sögunnar. Magn þessara þriggja tegunda nam 77 þúsund tonnum af tæplega hundrað þúsund tonnum sjávarfangs sem boðin voru upp mörkuðunum. Þar af var þorskur um 40 af hundraði, ýsa 30 og steinbítur 8%. Megnið er keypt til vinnslu innanlands en ávallt fer ákveðið hlutfall beint í gáma til útflutnings. Hefur það farið vaxandi undanfarin tvö ár og það sem af er þessu ári. Fiskmarkaðir eru löngu komnir til að vera og hafa skapað sér sess sem uppspretta gæðahráefnis. Gott skráningarkerfi gerir það að verkum að auðvelt er að fylgjast með og rekja feril aflans. Þetta er þáttur sem gegnir lykilhlutverki nú orðið við hvers kyns skráningu og vinnslu afurða.

Rekjanleiki er grunnur áreiðanlegrar vöru enda aukast jafnt og þétt kröfur um öryggi matvæla, hvort heldur sjávarfang eða önnur matvara á í hlut. Rekjanleikinn skiptir miklu máli og er í sjálfu sér styrkur fyrir okkur Íslendinga og sjávarútveg okkar. Auk alls annars má nefna að þetta er lykill að því til dæmis að afstýra skaðlegum áhrifum illa fengins afla. Í nútímafiskvinnslu á Íslandi er rekjanleikinn í sjálfu sér snar og eðlilegur þáttur í rekstrinum. Sú staðreynd er styrkur okkar umfram ýmsa aðra.

Eitt af því sem brennur einmitt heitt á greininni um þessar mundir er hvert beri að stefna í sambandi við umhverfismerkingar íslenskra sjávarafurða. Hér er á ferðinni brýnt úrlausnarefni. Afurðir okkar eru í hávegum hafðar erlendis og á þeim stalli eiga þær að vera bæði innanlands og utan. En að okkur er sótt og gerist sú spurning sífellt áleitnari hjá erlendum kaupendum hvernig Íslendingar ætli að haga þessum málum.

Undanfarin misseri hefur MSC-merkinu vaxið fiskur um hrygg. Erlendis hvetja jafnvel sumir til þess að neytendur sniðgangi annað sjávarfang en það sem þeirri vottun hampar. Við þessu þarf að bregðast. Okkur hugnast ekki MSC-merkið. Það er óboðlegt fyrir íslenskar afurðir. Íslensk framleiðsla sem slík er gæðamerki í augum margra fiskkaupenda á alþjóðlegum markaði. Þetta getum við nýtt okkur og skerpt á okkar sérstöðu. Af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins hefur sú stefna verið mörkuð að atvinnugreinin sjálf eigi að hafa frumkvæðið að þessu og móta stefnuna. Það er farsælast og einfaldast. Hér á landi er þegar háþróað kerfi vörurekjanleika og framleiðslan góð og áreiðanleg. Því ætti Íslendingum ekki að verða skotaskuld úr því að tefla fram sínu eigin umhverfismerki.

Þetta mál er á alvörudagskrá meðal kaupenda íslenskra sjávarafurða á alþjóðlegum mörkuðum. Fram hjá því verður ekki horft og engin ástæða til. Stefnuna eigum við þó að móta sjálf og á okkar eigin forsendum. Fiskifélag Íslands hófst handa fyrir allnokkru og bind ég miklar vonir við afrakstur þeirrar vinnu. Það er mikilvægt að láta hendur standa fram úr ermum og að öll greinin leggist á eitt þannig að úr verði valkostur sem stendur MSC-merkinu framar. Því fyrr því betra.

Ég vonast til þess að þessi mál skýrist á næstunni. Okkur er þó öllum ljóst að þetta úrlausnarefni er ekki einfalt og mörgum spurningum þarf að svara áður en við komumst að niðurstöðu. En innan skamms ber okkur hins vegar að taka afstöðu til hugmyndarinnar og marka okkur svo stefnu í samræmi við það. Ef niðurstaðan er íslenskt umhverfismerki þá vinnum við samkvæmt því ellegar höldum við áfram okkar striki eins og það er nú. Þarna höfum við val og við sjálf getum varðað veginn til framtíðar.

Ágætu fiskverkendur.

Fyrir ári síðan stóð íslenskur sjávarútvegur frammi fyrir skelfilega háu gengi krónunnar, svo háu að í óefni stefndi. Reyndar hafði gengið þá þegar valdið útflutningsgreinunum miklum búsifjum og ef ekki hefðu komið til miklar verðhækkanir á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum er hætt við að farið hefði á verri veg. Lægst stóð gengisvísitala krónunnar 2. nóvember í fyrra þegar hún fór niður í 100,61 stig. Það endurspeglaði auðvitað allt allt of sterka krónu –sannkallaða ofurkrónu – og ástand sem augljóslega gat ekki staðið til lengdar. Sem betur fer brast gengislækkunin hraðar á á þessu ári en spár greiningardeilda bankanna gerðu ráð fyrir.

Gengi krónunnar lækkaði skarpt á útmánuðum og var vísitalan í sumar mestmegnis á milli 125 og 130 stig, rétt eins og æskilegt er fyrir útflutningsgreinarnar. Krónan styrktist svo aftur í haust og hefur undanfarnar vikur verið innan við 120 stig. Eins og ég sagði á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva fyrir rúmum mánuði þá endurspeglar gengisvísitala sem er innan við 120 stig of sterka króna og er umfram það jafnvægisgengi sem hagfræðingar almennt eru sammála um.

Í síðustu viku var vaxtaákvörðunardagur hjá Seðlabankanum. Í fyrsta skipti frá því í maí 2004 var ákveðið að hækka ekki stýrivexti. Þá voru þeir hækkaðir úr 5,3% í 5,5% en standa nú í 14%. Þetta er ótrúleg hækkun, 164%, á tveimur og hálfu ári og fyllilega kominn tími til að staldra við eins og Seðlabankinn hefur komist að niðurstöðu um. Stöðugar hækkanir stýrivaxta hafa sitt að segja um þróun gengisins – til hins verra fyrir útflutningsgreinarnar. Vonandi lætur bankinn hér staðar numið og vindur á næstunni ofan af þessum miklu stýrivaxtahækkunum.

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri hefur reyndar sagt að ekki sé víst að raunveruleg kaflaskil hafi orðið þarsíðasta fimmtudag. Niðurstaðan hafi verið kynnt þannig að fremur hafi verið um að ræða frestun á hækkun vaxta en ákvörðun um að vaxtahækkunarferlinu væri lokið. Ef til vill er því ekki mikið tilefni til bjartsýni og væntinga um lækkun, en það er aldrei að vita. Vextir hljóta að lækka fyrr en síðar.

Ef við víkjum að öðru hitamáli, þá hefur það ekki farið fram hjá neinum að hvalveiðar í atvinnuskyni hófust að nýju hér á landi um miðjan síðasta mánuð. Eins og við var að búast eru skoðanir skiptar um ágæti þessa. Ég er þó ekki frekar en fyrri daginn í nokkrum vafa um að þetta er rétt ákvörðun og eins og ég hef margoft bent á undanfarnar vikur; þá er þetta í samræmi við stefnumörkun Alþingis frá því í mars 1999. Ef veiðar hefðu ekki verið leyfðar nú, eða hreinlega bannaðar með lögum eins og sumir virðast helst vilja, þá hefði verið um stefnubreytingu stjórnvalda að ræða. Reyndar ekki bara stefnubreytingu heldur algjöra kúvendingu í hróplegri andstöðu við markmið um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins.

Segja má að viðbrögðin við hvalveiðum nú séu meira og minna hin sömu og þegar vísindaveiðar hófust árið 2003. Sami hópur og þá hefur einnig núna farið mikinn í andstöðu sinni við veiðarnar. Þá eins og nú voru uppi hrakspár um afleiðingar hvalveiðanna. Nú getum við hins vegar litið til baka og dregið lærdóm af reynslunni. Og hvað kom á daginn fyrir þremur árum? Ferðamönnum hélt áfram að fjölga þveröfugt við það sem dómsdagsspár sumra kváðu á um. Árið eftir að vísindaveiðar hófust fjölgaði ferðamönnum um liðlega 40 þúsund eða um 12,6%. Það er engin ástæða til að ætla að ferðamönnum haldi ekki áfram að fjölga hér eftir sem hingað til. Ísland er eftirsóknarvert land og ferðaþjónustunni hefur fleygt gríðarlega mikið og vel fram. Í þessari atvinnugrein liggja því mikil tækifæri.

Sem betur fer ber ekki á meintum neikvæðum langtímaáhrifum hvalveiða í vísindaskyni. Ég ítreka þó sem fyrr; að skammtímaáhrifin geta verið einhver og sannarlega geri ég ekki lítið úr því. Þannig er það með svo margt sem tvímælis orkar í atferli okkar og ákvörðunum. Við getum vitaskuld komið í veg fyrir hugsanlega áhættu með því að aðhafast ekkert. En við vitum líka að slíkt er bein ávísun á kyrrstöðu. Þegar á heildina er litið tala tölurnar líka sínu máli. Þær benda sem betur fer ekki til þess að ákvörðunin frá árinu 2003 hafi skaðað okkur til lengri tíma. Og þótt hvalveiðar séu sjálfsagt umdeildar víða þá sýnist það líka blasa við að afstaðan til þeirra er ekki mjög ofarlega á dagskrá í hugarheimi fólks og þegar kemur að afstöðu þess til ímyndar þjóða.

Góðir fundarmenn.

Í lokin vil ég þakka gott samstarf við ykkar ágætu samtök undanfarið ár. Farsælt samstarf og hreinskilin skoðanaskipti við alla forsvarsmenn greinarinnar er af hinu góða. Ég vona svo sannarlega að þannig verði samskiptum okkar háttað hér eftir sem hingað til og að við vinnum sameiginlega að hagsmunum íslensks sjávarútvegs.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum