Hoppa yfir valmynd
08. október 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ráðstefna um strandmennignu, á Radisson SAS hótel Sögu 5. október 2007



Ávarp

á Ráðstefnu um strandmenningu,

á Radisson SAS hótel Sögu 5. október 2007

 

Ráðstefnustjóri – ágætu ráðstefnugestir.

         

          Í mínum huga er menning þjóðar hvað sterkasti þráðurinn í þeim mikla vefnaði sem skapar hverja þjóð og þar af leiðandi er íslensk menning eitthvað sem við þurfum að standa vörð um og varðveita, eins konar fjöregg okkar. 

En menning hverrar þjóðar er líka breytileg og í áranna rás þróast hún og breytist í samræmi við aðstæður og tíðaranda viðkomandi þjóðar og það á einnig við um okkur Íslendinga.  Fyrr en varði gleymist eitthvað; gamlar  hefðir, - vinnubrögð, - aðstæður og þarfir sem áður sköpuðu þá menningu sem þá ríkti.

         

          Á þessari ráðstefnu er ætlunin að ræða einn þátt okkar íslensku menningar, - strandmenningu. Og hvað skyldi það nú vera?

          Í íslenskri orðabók er orðið menning m.a. skýrt svo:  þroski mannlegra eiginleika, þjálfun mannsins, þjálfun hugans, venjuleg kunnátta, andlegt líf, sameiginlegur arfur – venjulega skapaður af mörgum kynslóðum. 

          Skyldi þá ekki eitthvað vera sem vissulega gæti heitið strandmenning, - einhver kunnátta og sameiginlegur arfur þeirra sem lifað hafa og búið við Íslandsstrendur.  Vissulega, - og ég leyfi mér að tiltaka nokkur tilbúin sýnishorn af íslenskri menningu sem hér skapaðist við sjávarsíðuna.  Sumt af henni lifir enn en margt hefur líka breyst.  Spurningin stóra er hvort og þá hvernig megi viðhalda og kannski ekki síður varðveita þessa sérstöku menningu til að styrkja sögu okkar og allan menningararf. Rétt er því að varpa ljósi á nokkur atriði og aðstæður sem skapaði þá strandmenningu sem áður var en er nú víkjandi eða horfin.

                    Þessi mál eru mér hugleikin  enda uppalinn við sjávarsíðuna og kominn af fólki sem lifði á sjónum. Eftir nokkra umhugsun kaus ég að varpa upp nokkrum myndum af daglegu lífi fjölda fólks sem áður fyrr lifðu við ströndina, nýttu hana og sjóinn og ætlun mí að þær veki einhverja til umhugsunar um þá menningu sem víða ríkti en er mörg hver að hverfa í gleymskunnar djúp.  Okkar er að meta og taka ákvarðanir um hvað við viljum vernda og þá hvernig.

          Sannarlega lítur silfrið hver sínum augum og Nóbelsskáldið okkar lætur Sölku Völku, fiskistúlkuna sem fæddist og lifði í litlu sjávarþorpi taka svo til orða: 

“Öll menning og öll ánægja skapast á undirlendi.  Á stað þar sem aldrei er hægt að komast neitt burt og aldrei getur verið von á neinum ókunnugum, þar getur heldur aldrei verið neins að vænta.  Hvernig færi til dæmis ef prestssonurinn yrði leiður á að vera skotinn í dóttur kaupmannsins?  Já hvernig færi?  Ég spyr bara?

*        Í dæmigerðu sjávarþorpi á tímum Sölku Völku var lífið saltfiskur. Í hvíldarstundum  settist þreytt fólkið saman í skúrana eða undir fiskihlaða og drakk volgt svart kaffið úr flösku í ullarsokk og borðaði brauð úr bréfi sem það hafði tekið með sér að heiman ásamt köldum fiskbitanum.  Meðan það reykti Camel eða Chesterfield sígaretturnar var spjallað um fiskerí, saltfisk og síðast en ekki síst mannlífið í þorpinu; hver hafði það gott og hverjir slæmt og hverjir voru að stinga sér inn hjá hverjum. Sjóndeildarhringurinn var kannski ekki svo stór.  Heima beið barnmargt húsið, eldaður fiskur, sofnað og byrjað aftur næsta dag.  

          Þarna var sérstök menning.  Það er mér ánægja að sjá hve hið myndarlega saltfisksetur í Grindavík gefur okkur góða innsýn í þessa veröld.

 

*        Lítið sjávarþorp breytist á einu sumri í síldarsöltunarstöð. Bátarnir koma drekkhlaðnir með silfur hafsins og unnið er dag og nótt á mörgum síldarplönum.  Aðkomufólk ætlar að ná sér í miklar tekjur á skömmum tíma, - skyldur þess við þorpssamfélagið eru engar. Þorpsbúarnir í miklum minnihluta og hverfa í fjöldann.  Í landlegum er séniverinn sóttur á pósthúsið.  Ungt fólk skemmtir sér og í bröggunum er hópast saman á herbergjum og því fylgir, söngur og hávaði sem enda oft með pústrum en í öðrum eru tvö og tvö að leik og spjalli sem endar svo með farsælu hjónabandi.  Í sjoppunni er keypt kók og malt og prins póló.  Stungið er pening í djúpboxið og Prestley syngur fyrir fólkið sem tekur undir og á þröngu gólfinu er rokkað.  Ball í kvöld og spilað á eina  harmonikku.  Aðalgatan í þorpinu er forarsvað enda fara um hana opnir vörubílar með hausa og slor frá plönunum í verksmiðjuna sem spúir mjölreyknum yfir þorpið og mettar það og öll hýbýli peningalyktinni. Það var góð lykt og gaf fyrirheit um nýtt hús, bát, bíl eða skólagöngu.  Þetta var síldarævintýri.

          Í þessu þorpi og mörgum öðrum skapaðist viss menning sem enn lifir í hugum margra og bera sumir þessara staða merki þessa tíma.

          Það er fagnaðarefni að sjá hve vel hefur tekist til um uppbyggingu síldarminjasafnsins á Siglufirði sem gefur innsýn í það líf – þá menningu, sem ríkti á síldarárunum.

 

*        “Hér réri afi á árabát

          og undi sér best á sjó.

          En amma hafði á öldunni gát

          og aflann úr fjörunni dró.

 

          Svona var þetta víða í sjávarplássum við strandir landsins.  Róið var á miðin áður en sól heilsaði degi.  Dorgað og dregið – stundum góður afli og stundum ekkert að fá. Veiðarfærin léleg á nútíma vísu og aðbúnaður langt fyrir neðan það sem nú þekkist.  Heima beið amma með stóran hóp barna. Kannski voru þau gömlu hjónin fyrirvinnan.  Kannski var móðirin lasin og faðirinn horfin sjónum í hvílu hins kalda mars. 

          Sé horft enn lengra aftur stóðu þarna verbúðir og í þeim héldu til vermenn komnir gangandi langt að, sumir á eigin vegum, aðrir leiguliðar stórbónda sem sendu þá í verið. 

          Gaman er að vita að við höfum reynt að fanga þessar aðstæður og brot af þeirri menningu sem í þessu lífi fólst með Ósvörinni í Bolungarvík.

 

*        Árið er 1870 og vetrarhörkur.  Sjór er ísilagður og á landi sést hvergi á dökkan díl,.  Matarskortur er í héraðinu.  Stórhveli hefur lokast hefur inni milli ísrastanna springur við hamravegg.  Fréttin berst  um héraðið - nýtt og heilbrigt kjöt fyrir sveltandi fólk. Að drífur fjöldi manna, með hesta og sleða. Kveikt er undir stærstu pottinum. Menn vinna á hvalnum með öxum og fátæklegu hnífum. Hver arða úr hryggjarliðum eða hausbeini nýtt og beinin söguð og soðið úr þeim lýsið. 

          Hér má líta forna menningu sem m.a. fólst í samhjálp.  Hreppa á milli var svona sjávarbjörg flutt við erfiðar aðstæður um allt hérað.         Enn notum við orðið Hvalreki yfir mikinn og óvæntan hagnað, svo rækilega hefur slík björg verið í bú áður fyrr við strendur landsins að merking orðsins hefur yfirfærst á annan hagnað og notað – jafnvel í bönkunum nú í dag.

          Verðugt verkefni væri að gefa nútíma Íslendingum betri innsýn í þessa fornu menningu.

 

*        Við suðurströndina eru skútur Fransmanna sem þar eru að fiska. Skyndilega brestur á hið versta veður og í birtingu næsta dags má sjá hvar ein skútan hrekst stjórnlaus inn með sandfjörunni.  Heimamenn þekkja þetta og nú er hraðboði sendur milli bæja.  Hesta eru sóttir og öll þau tól tekin fram sem koma að gagni við að bjarga mönnum, - og varningi.  Mannbjörg tekst er að bjarga hinum dýrmæta útlenda varningi á land og sem meira er að ná skipinu á þurrt svo hægt sé að rífa það og nota efniviði þess.  Allt gengur eftir og sýslumaður heldur axjón á strandstað.  Boðið er í brauð og kex, koparkrana og káetuskápa, segl og snæri.  Og hver rauðvínstunnan er seld á fætur annarri og endað á koníakstunnunni sem þó virðist hafa verið á opnuð á óútskýrðan máta eftir að í land kom.  Innréttingar úr spegilfögru mahoníi eru settar upp í betristofur heldrimanna ásamt standklukku og koparslegnu stýrishjóli.  Úr öðrum viði eru smíðaðir munir af hagleiksmönnum.  Þetta var ekki fyrsta strandið og í öllu héraðinu má sjá muni, stóra sem litla komna úr fjarlægu landi, sem stinga óneitanlega í stúf við aðra gripi sem unnir hafa verið úr grófgerðum rekavið.  Hlúð er að skipsbrotsmönnum og þeim sinnt af ungum heimasætum sem sannarlega veita þessum dökkhærðu fallegu mönnum athygli.  Þeir bera með sér ferskan blæ til einangraðs byggðalags og vekja einkennilega kenndir.  Gott ef ekki fjölgaði í sveitinni við ströndina er líða tók verulega á árið. Í þessum sveitum myndaðist ákveðin menning tengd viðskiptum við frönsku sjómennina og þau viðskipti, - stór og smá, - bein og óbein,  settu sitt mark á viðkomandi byggðalag.

          Væri ekki ráð að sinna þessum þætti strandmenningarinnar betur en nú er gert?

*        Ég hef með vilja kosið að vekja athygli á einhverju sem við getum kallað lífsvenjum fyrri tíma við sjávarsíðuna og menningu þeim samfara. 

          Sumt af þeim verkum sem þar og þá voru unnin láta nú á sjá vegna breyttra þarfa, tækni og þróunar.  Ég nefni sem dæmi nýtingu rekaviðar.  Reki var talin til helstu hlunninda og ferðir voru farnar með hesta um langan veg, jafnvel yfir jökla eins og frá Ströndum til byggða við Ísafjarðardjúp.  Stórtré voru hengd upp og söguð langsum, önnur voru bútuð niður og rifin með fleyg og sleggju.  Morið var nýtt í smærri áhöld og í eldinn.  Þessi fornu handtök og sú þekking og menning sem nýting rekaviðar skapaði er á hröðu undanhaldi. 

          Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þessum þætti.

          Enn má nefna nýtingu fuglabjarga sem var undirstaða búsetu á mörgum stöðum en er nú hverfandi í samanburði við það sem var.  Selveiðar voru stundaðar um allt land og þeim fyldi ákveðin menning og fagna ég þar enn uppbyggingu eins safnsins í viðbót – Selasafninu á Hvammstanga.  Sömuleiðis þessi fræga rauðmaga- og grásleppuveiði sem stunduð var hringinn í kringum landið, m.a. út frá Reykjavík og nú er rætt um að byggja upp gömlu grásleppuskúrana að nýju.  Það er gott framtak.

          Fjörubeit þótti hlunnindi á tímum þegar heyforði var lítill eða enginn en treyst á útigöngu sauðfjár.  Henni samfara var flóðahætta og þurfti að vakta féð.    Hafís vakti ótta og lífseigar voru sögur af bjarndýrum.  Væri ekki ráð að kalla fram myndir þar að lútandi og gefa nútímafólki innsýn í þá veröld, - þá reynslu mannsins, - þá menningu. 

          Enn má nefna Eyjabúskap og þá sérstöku menningu sem þróaðist henni samfara.  Einfaldlega virðist úr nógu að velja.

 

          Góðir ráðstefnugestir.

Ég ítreka ánægju mína með að fá þetta tækifæri til að ávarpa ykkur.  Hafi ég með innleggi mínu vakið einhverjar spurningar meðal ykkar hef ég náð markmiði mínu.

          Ég vænti góðs árangurs af fundi ykkar.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum