Hoppa yfir valmynd
03. mars 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við setningu Búnaðarþings 2. mars 2008

Forseti Íslands, formaður Bændasamtakanna, þingfulltrúar, góðir gestir.

 Litla kveðju sem mér barst frá góðum vini mínum úr bændastétt þegar ég tók við starfi landbúnaðarráðherra nú í vor langar mig að gera að upphafsorðum þessa ávarps: Gott að fá þig til okkar í landbúnaðinn. Mér þótti vænt um þetta rétt eins og þær góðu viðtökur sem ég hef hvarvetna notið í ranni íslenskra bænda og forystumanna þeirra frá því að ég axlaði ábyrgð á nýju embætti á vormánuðum í fyrra. Fyrir það vil ég þakka og veit að samstarf okkar allra verður gott, hér eftir sem hingað til.

Um áramótin tóku gildi talsverðar breytingar í stjórnsýslunni, sem lúta að landbúnaðinum.  Markmið þessara breytinga eru margs konar. Má þar nefna fyrst og fremst vilja til þess að auka skilvirkni og er ætlunin að stuðla að öflugra stuðningsumhverfi landbúnaðar og sjávarútvegs. Í samfélagi okkar hafa átt sér stað margvíslegar skipulagsbreytingar sem tekið hafa til sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana á vegum ríkisins, en segja má að tiltölulega litlar breytingar hafi orðið á skipan Stjórnarráðsins sjálfs. Sjálfur er ég ekki í vafa um að þessar breytingar geta orðið til góðs og eiga að leiða til eflingar landbúnaðarins og stjórnsýslunnar í heild.  Með þeim skapast ný sóknarfæri sem við eigum að nýta okkur enda fer vel á því að þessir tveir grundvallaratvinnuvegir íslensku þjóðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður, fylki nú liði í sama ráðuneyti og vinni að hagsbótum sínum og þjóðarinnar í heild. Með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis hefur tekið til starfa nýtt öflugt og kraftmikið ráðuneyti byggt á góðum grunni. Verkefni okkar eru af margvíslegum toga og sum mjög umfangsmikil. Um leið og kraftarnir sameinast leggjum við þyngra lóð á vogarskálarnar í uppbyggingu þessara tveggja atvinnugreina.

Vissulega get ég sagt að það er eftirsjá af ýmsum þeim verkefnum, sem flutt hafa verið frá landbúnaðarráðuneytinu til annarra ráðuneyta.  En það er þó ekki kjarni málsins.  Við hljótum að horfa til þess hvort unnt sé að sinna þeim verkefnum að minnsta kosti jafn vel og áður. Ég hygg að samningar sem gerðir hafa verið í tengslum við flutning verkefnanna tryggi að svo verði. Aðgangur landbúnaðarins verður hinn sami að þeim stofnunum sem fyrrum heyrðu undir landbúnaðarráðuneytið, en verða nú vistaðar undir öðrum ráðuneytum.

Það er auðvitað eðlilegt að allt nám, hvort sem það er á framhalds- eða háskólastigi, heyri undir menntamálaráðuneytið og það er enginn vafi á því að það getur orðið landbúnaðarmenntun til framdráttar að svo sé.  Gríðarleg uppbygging hefur orðið á háskólamenntun, vísinda og þróunarstarfi í landinu og engin ástæða til að ætla annað en að svo verði áfram á sviði landbúnaðarfræðslu.  Sérstaða landbúnaðarháskólanna felst auðvitað í þeim verkefnum sem þeir hafa kosið sér og ekki er ástæða til að ætla annað en að þeir sinni þeim vel hér eftir sem hingað til. Þar verða vaxtarmöguleikar þeirra. Auk þess er gert ráð fyrir og frá því raunar gengið, að gerður sé samningur milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins um tiltekin verkefni sem þessum skólum er ætlað sérstaklega að sinna í þágu íslensks landbúnaðar. Í þessum samningi er gert ráð fyrir því að um fjárlög míns ráðuneytis fari um 160 milljónir króna í þessum tilgangi. Því fer þess vegna víðs fjarri að Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið hafi sleppt hendinni af þessari starfsemi, þessum óskabörnum sínum.

 Sama er að segja um skógrækt og landgræðslu - aðgangur okkar að þeirri þekkingu sem til staðar er í þessum mikilvægu stofnunum verður eftir sem áður til staðar, jafnframt því sem gerður er sérstakur samningur til að tryggja þetta enn frekar. Við skulum heldur ekki gleyma því að helstu framkvæmdaþættir skógræktar í landinu hafa á undanförnum árum farið fram í gegnum hin landshlutabundnu skógræktarverkefni, sem heyra áfram undir landbúnaðarráðuneytið. Þá mun hluti af fjármagni til rannsókna í skógrækt  fara um okkar ráðuneyti. Um mótun sameiginlegra áherslna í skógræktarrannsóknum ríkir og gott samkomulag á milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Sama á við um verkefnið Bændur græða landið. Það er enda eðlilegt. Þessi verkefni eru unnin af bændum og því eðlilegt og sjálfsagt að þessum málaflokki sé skipað undir gunnfána landbúnaðarráðuneytisins okkar.  Bæði þessi verkefni hafa á liðnum árum fengið aukið vægi vegna þýðingar þeirra í að sporna við gróðurhúsaáhrifum. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að skógur verði ræktaður á um 5% lands undir 400 m. hæð yfir sjó  og var ætlunin að það næðist um árið 2040. Ljóst er að sett markmið hafa ekki náðst, en í ljósi þess hve skógrækt er mikilvæg til þess að ná markmiðum í loftslagsmálum mun ég beita mér fyrir endurskoðun á þessari framkvæmd. Þá vil ég geta þess að það varð að samkomulagi okkar umhverfisráðherra að tvöfalda það fé sem Landgræðsla ríkisins ver til verkefnisins Bændur græða landið. Með þessu undirstrikum við áherslur okkar og að formbreytingin dragi síst úr vægi þessa verkefnis.

Jafnframt þessu færist nú allt matvælaeftirlit á vegum ríkisins undir nýja stofnun, Matvælastofnun.  Áður var þessu eftirliti sinnt á vettvangi þriggja stofnana sem heyrðu undir jafnmörg ráðuneyti.  Enginn vafi er á því að þessi samþætting er mjög til góðs og styrkir matvælaeftirlitið allt og gerir það líka skilvirkara og vonandi ódýrara þegar fram í sækir.  Geri ég heldur ekki ráð fyrir því að um þá skipan mála sé mikill ágreiningur, enda þjónar þessi nýskipan jafnt hagsmunum neytenda og framleiðenda.  Nú er því orðin  til öflug stofnun, Matvælastofnun – MAST, þar sem við sameinum allt sem lýtur að reglum og eftirliti með dýraheilbrigði og matvælaframleiðslu í landinu.  Ennþá verður hluti eftirlitsins áfram hjá sveitarfélögum og eru ekki sérstök áform uppi um að gera á því breytingar.  Hér mun því áfram reyna á gott samstarf þess fólks sem starfar annars vegar á vettvangi sveitarfélaga og hins vegar ríkisins og treysti ég því að svo geti orðið.

Ef litið er að öðru leyti til stofnana sem heyra undir hið nýja ráðuneyti, vil ég vekja athygli á því að hið tiltölulega nýlega stofnaða fyrirtæki, Matís ohf., annast matvælarannsóknir í landinu af hálfu hins opinbera og eru þar sameinuð verkefni sem áður heyrðu líka undir margar stofnanir og ráðuneyti.  Hér eru líka mikil sóknarfæri á ferðinni sem ég hvet bændur til að nýta sér.  Sameinað fyrirtæki á þessu sviði, MATÍS,  skapar nýja möguleika, sem ég verð var við að íslenskur landbúnaður nýtir sér þegar.

Þá er þess að geta að tvær stofnanir sem sinna veiðiráðgjöf hvor á sínu sviði, Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnun, heyra undir hið nýja ráðuneyti og má því ætla að það sé enn hægt að efla rannsóknir sem miklu máli skipta fyrir þessar atvinnugreinar.  Af þessu sjáum við að styrkur hins nýja ráðuneytis, í sókn og vörn, verður meiri með sameiningu þess og uppstokkun stofnanakerfisins.

Landbúnaður stendur nú á miklum tímamótum og umhverfi okkar breytist hratt. Þetta segi ég í jákvæðum skilningi. Landbúnaðurinn verður sem fyrr kjölfesta en hann þarf líka að vera þátttakandi í þessum breytingum til gagns fyrir sveitir landsins, starfsfólk landbúnaðarins og þjóðfélagið í heild.  Það er sama hvernig allt velkist í þjóðfélaginu; sjávarútvegur og landbúnaður  munu um ókomna tíð gegna grundvallarhlutverki í samfélagsgerðinni. Þær miklu sviptingar sem hafa orðið í starfsumhverfi bæði fyrirtækja og í reynd þjóðarinnar allrar hafa ekki farið fram hjá neinum. Þær undirstrika enn á ný þýðingu þess að eiga öflugan landbúnað, líkt og öflugan sjávarútveg í landinu.

Enginn vafi er á því að framundan eru margs konar áframhaldandi breytingar í íslenskum landbúnaði.  Stundum er því haldið fram að fátt hafi breyst á þeim vettvangi, en það er rangt. Landbúnaðurinn hefur tekið miklum breytingum og stórstígum framförum á undanförnum árum.  Ekki þarf lengi að skyggnast um gáttir til að átta sig á því.

Ég hef raunar haldið því fram að það sé úrelt á margan hátt að tala um  hefðbundinn og óhefðbundinn landbúnað. Þessi skil eru í besta falli óljós og sennilega ekki til nema að litlu leyti. Landbúnaðurinn einkennist nefnilega af mikilli fjölbreytni. Í hugum þeirra sem standa utan við landbúnaðinn koma sjálfsagt oftast nær fyrst upp í hugann mjólkurframleiðsla og sauðfjárrækt, þegar orðið landbúnaður er nefnt. Það er hins vegar ekki rétt mynd af íslenskum landbúnaði, þó að bændur geti sannarlega verið stoltir af þeim atvinnugreinum sínum. Landbúnaðurinn stendur undir fjölbreyttri atvinnustarfsemi í sveitum landsins sem ekki er hægt að gera allri skil í stuttu máli hér.

Við vitum að það hefur orðið gríðarlegur vöxtur í skógrækt vítt og breitt um landið og fjöldi bænda og fjölskyldur þeirra hafa afkomu sína af slíkri iðju.  Í vaxandi mæli sækja þéttbýlisbúar út í sveitirnar, eignast þar húsnæði og jarðnæði og setjast þar að og deila kjörum sínum með íbúum sveitanna. Hvers kyns hlunnindanýting fer vaxandi og skiptir æ meira máli í tekjuöflun landbúnaðarins. Í ýmsum héruðum eru slík hlunnindi, t.d. á borð við veiðihlunnindi, orðin helsta tekjuöflunin á mörgum jörðum. Starfsemi garðyrkjunnar vex jafnt og þétt og hafa stjórnvöld átt þátt í þeirri þróun, meðal annars með niðurgreiðslu á  raforku. Það ásamt fleiru hefur átt sinn þátt í að stórauka framleiðsluna sem íslenskum neytendum fellur vel í geð.  Ferðaþjónusta í sveitum er fyrir löngu orðin stór atvinnugrein sem skapar störf um land allt.  Sama má segja um rekstur frístundabyggða, stórra og smárra. Atvinnugreinar á borð við loðdýrarækt sem áttu lengi undir högg að sækja, sjá nú nýja og vaxandi möguleika með hækkandi verði og aukinni eftirspurn. Tvöföld búseta og atvinnusókn úr dreifbýli í þéttbýli í krafti bættra samgangna og nýjustu fjarskiptatækni eykur enn fjölbreytnina í flóru íslensks landbúnaðar.

Og síðast en ekki síst vil ég nefna hestamennsku og hrossarækt sem fyrir margt löngu er orðin veigamikill þáttur í landbúnaði. Þar hef ég hugsað mér að stuðla að enn frekari eflingu og sókn á erlendum sem innlendum vettvangi, meðal annars með endurskoðun á markaðsstuðningi sem þegar er hafin og mótun stefnu um frekari kynningu á íslenska hestinum sem ég hef falið sérstakri nefnd að vinna að.

Þessi fjölbreytni í íslenskum landbúnaði hefur  breytt mjög mörgu.  Landbúnaðurinn þarf eins og annað atvinnulíf að tileinka sér nýjustu tækni og fjárfestingu sem henni fylgir.  Það er hins vegar ekki auðvelt, sérstaklega ekki nú eftir að fjármagn varð dýrt að nýju og kallar því á mikla hagræðingu, fækkun búa og stækkun þeirra.  Ný tækni hefur þessi áhrif hér eins og víðar.  Við eigum ekki að líta á þetta sem ógn heldur tækifæri og svar við sífelldri kröfu um lægra matarverð og svar við þeirri samkeppni sem landbúnaðurinn heyr.  Því það er ekki svo, eins og stundum er haldið fram, að bændur starfi í vernduðu umhverfi og þurfi ekki að taka tillit til samkeppni eða aðstæðna að öðru leyti.  Þvert á móti er landbúnaðurinn í margs konar samkeppni um fólk og fjármagn og í samkeppni við innfluttar matvörur ýmis konar og þarf þess vegna að beita öllum úrræðum til að hagræða og lækka kostnað, jafnframt því að hafa vakandi auga með möguleikum á auknum tekjum og nýjum og betri sóknarfærum.  Hvað sem hver segir er landbúnaðurinn í deiglu íslensks samfélags og verður mótandi um framtíð þess.

Ný tækifæri verða líka sífellt til. Við verðum þess áskynja að áhugi bænda á heimavinnslu fer vaxandi og þar leynast örugglega margvíslegir möguleikar. Hef ég meðal annars sett á laggirnar nefnd til þess að halda utan um þessi mál  af hálfu ráðuneytisins. Því vil ég við endurskoðun búnaðarlagasamningsins legga áherslu á þann þátt, jafnframt breyttum áherslum á stuðningskerfið, auk aðgerða til þess að styrkja rekstrarvitund og samkeppnishæfni bænda.

Þegar EES samningurinn var gerður á sínum tíma, en hann tók gildi í ársbyrjun 1994, hafði Ísland undanþágu frá nokkrum veigamiklum málum á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Síðan hefur margt breyst. Þessar undanþágur eru fyrir löngu úr gildi fallnar gagnvart sjávarútveginum og hefur það verið mjög í þágu hagsmuna hans. Og með tilkomu nýrrar matvælalöggjafar ESB lá ljóst fyrir að endurskoða þyrfti afstöðu okkar varðandi landbúnaðinn. Í húfi voru bókstaflega allir útflutningshagsmunir okkar á sviði matvæla, þannig að þarna þurfti ekkert um að binda, eða í vafa velkjast. Nú hefur verið unnið að því um tveggja ára skeið að ná  samkomulagi um yfirtöku á viðauka 1 við EES samninginn. Felur það í sér að samræmdar reglur gildi í aðalatriðum hér á landi og í löndum ESB að því er varðar eftirlit með framleiðslu matvæla. Innan tíðar mun ég leggja fram viðeigandi frumvörp til þess að unnt sé að innleiða nauðsynlegar breytingar samfara yfirtökunni. Við undirbúning hefur af minni hálfu verið lögð áhersla á gott samráð við hlutaðeigandi, enda er það nauðsynlegt. Þessi innleiðing matvælalöggjafarinnar felur í sér umtalsverðar breytingar, sem ég hvet bændur og aðra þá er málið varða til þess að kynna sér sem best.

Umræður um matvælaverð hafa á tíðum verið háværar.  Ekki er langt síðan sú umræða varð býsna hörð og kallað var eftir viðbrögðum landbúnaðarins í því sambandi. Það er ekki neinum blöðum um það að fletta að bændur og afurðastöðvar þeirra hafa tekið fullan þátt í því að stuðla að lækkun matvælaverðs í landinu.  Sú verðstöðvun sem í raun ríkti á síðasta ári er glöggt merki um það.  Þróunin er hröð á alþjóðlegum vettvangi og mun hafa áhrif á þessa umræðu sem og matvælaverð hér á landi rétt eins og í heiminum öllum.  Vakin hefur verið athygli á því að svo lengi sem elstu menn muna hefur raunverð á matvörum farið lækkandi í heiminum og framleiðendum fækkað.  Á árunum 1974-2005 lækkaði verð á matvælum á heimsmarkaði um ¾ að raungildi.  Nú er augljóst að þessi þróun er að breytast. Hvarvetna berast fréttir utan úr heimi af hækkun matvælaverðs. Hið heimsþekkta og virta tímarit The Economist birti ítarlega úttekt á þróun matvælaverðs og lýsti því yfir á forsíðu sinni að tímar ódýrs matar væru að baki. Var þar meðal annars vitnað til matarverðsvísitölu sem blaðið hefur skráð frá árinu 1845 sem nú sýnir að verðlag á matvælum sé hærra en nokkru sinni á þessu tímabili.

Þetta er er athyglisvert og hefur gerst skyndilega. Á allra síðustu misserum hefur eftirspurn eftir búvörum stóraukist og verðlag hefur hækkað af þeim sökum, einkum á korni og mjólkurvörum. Ástæður fyrir þessu eru auðvitað margar.  Þær má meðal annars rekja til vaxandi kaupgetu í Austur-Evrópu og Asíu, eldsneytisframleiðslu úr korni, einkum í Bandaríkjunum og S-Ameríku, óhagstæðs veðurfars víða um heim, ekki síst vegna mikilla þurrka í Ástralíu. Þá ber þess að geta að inn hafa komið ný markaðssvæði, sem eru fær um að greiða hærra markaðsverð en áður og hef ég orðað það svo; að segja megi að í Asíu hafi spurn eftir hlutfallslega dýrari matvælum en áður aukist svo nemur neyslu heillrar Evrópu. Auðvitað hefur þetta áhrif á verðlagningu um heim allan. Þetta hefur líka leitt til þess að menn gera sér nú betur grein fyrir mikilvægi landbúnaðarframleiðslunnar og landbúnaðarins sjálfs.

 Í stað þeirrar umræðu sem við erum býsna kunnug um offramleiðslu og skylda hluti, hefur tekið við umræða sem snýr að því hvernig við munum uppfylla fæðuþörf mannkyns á komandi árum.  Sannast nú kannski orðin sem önfirski skáldbóndinn Guðmundur Ingi Kristjánsson orti á sinni tíð:

Heimurinn metur matföng sín
og menn fá þau boð að heyra
sem biðjandi hljóma þá til þín:
Þú átt að framleiða meira !

Öryggi matvæla verður nú sem sagt æ þýðingarmeira og það er af sem áður var þegar menn reyndu að hlæja út af borðinu alla umræðu sem fram fór hér á landi um matvælaöryggi þjóðarinnar. Menn sáu fyrir sér stórar frystigeymslur fullar af fiski og kjöti og spurðu í forundran, hvort við Íslendingar þyrftum að velta fyrir okkur hugtakinu matvælaöryggi að þessu leytinu. Víðast hvar um heiminn eru menn hættir að sproksetja slíkar umræður. Þær eru dauðans alvara. Spurningin er ekki lengur sú hvernig eigi að koma í lóg öllum þeim matvælum sem framleidd eru í heiminum. Heldur er spurningin þessi: Hvernig ætlar landbúnaðurinn og aðrir matvælaframleiðendur að anna þeirri miklu eftirspurn sem nú er um allan heim eftir matvöru. Þessi umræða hefur auðvitað líka áhrif hér á landi. Það er ekki ólíklegt að þróun matvælaverðs í heiminum hafi margvísleg áhrif á matvælaframleiðslu hér. Líklegt má telja að hlutfallslegar breytingar á verði á matvælum leiði til þess að samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar almennt verði betri. Þegar sjást ýmis teikn um þetta, þrátt fyrir hækkandi verð á aðföngum. Til viðbótar eykst stöðugt skilningur á mörkuðum á nauðsyn þess að framleiða hreina og heilnæma vöru. Oftar en ekki er spurt um uppruna vörunnar og gæði og þar höfum við Íslendingar ekkert að fela, öðru nær, í því felst okkar styrkur.

Langt hagvaxtarskeið með stöðugri kaupmáttaraukningu hefur fært íslenskum bændum stærri markað en áður.  Í þessu felast heilmikil tækifæri sem tvímælalaust á að reyna að nýta. Samtímis hefur verið unnið með markvissari hætti en áður að útflutningi bæði á kjöti og mjólkurvörum þar sem hollusta, gæði og heilbrigðir framleiðsluhættir eru lagðir til grundvallar. Því miður hefur gengisþróunin á margan hátt tafið þetta mikilvæga starf, en þó felast þarna ýmis tækifæri. Við Íslendingar getum því litið svo á, að aukin fríverslun færi landbúnaðinum tækifæri eins og við höfum séð á undanförnum árum. Gagnkvæmir tollkvótar Íslands og Evrópusambandsins eru gott dæmi um það. Þeir hafa fært okkur möguleika á nýjum sviðum, sem vonandi getur orðið frekara framhald á.

Það er einnig ánægjulegt fyrir einn sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra að skynja hvar hagsmunirnir liggja sameiginlega hjá þessum atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði. Báðar byggja atvinnugreinarnar á matvælaframleiðslu. Báðar framleiða þær úrvalsvöru. Báðar geta vísað með stolti til hreins uppruna vörunnar. Báðar nýta náttúruauðlindir með sjálfbærum hætti.

En góðir Búnaðarþingsfulltrúar.

Við vitum að þótt mörgu hafi miðað í rétta átt í íslenskum landbúnaði hafa óveðursský hrannast upp við sjóndeildarhringinn. Aukinn kostnaður við aðföng, veldur okkur miklum áhyggjum og mun hafa neikvæð áhrif á landbúnaðinn og raunar þjóðarbúið í heild. Hækkandi eldsneytisverð eykur útgjöld í landbúnaði. Aukinn fjármagnskostnaður í kjölfar versnandi skilyrða á fjármagnsmarkaði leggst með vaxandi þunga á atvinnugrein eins og landbúnaðinn sem hefur fjárfest mikið í framfarasókn sinni undanfarin ár.  Því miður eru engar fyrirsjáanlegar breytingar til batnaðar á þessum þungu kostnaðarliðum.

En einkanlega valda áhyggjum þær miklu hækkanir á áburði og fóðri sem nú eru að skella með ofurþunga yfir landbúnaðinn. Áburður hefur hækkað um helming frá árinu 2006 og er ekki fjarri lagi að ætla að hækkun á milli áranna 2007 og 2008 verði um 70%. Án þess að ég ætli að hafa uppi neina heimsendaspádóma, þá þarf ekki mikinn snilling til þess að sjá að þetta mun með einhverjum hætti bitna á bændum, afurðastöðvum og neytendum. Hækkun á verði aðfanga mun semsagt hafa neikvæð áhrif á lífskjör allra þeirra sem við þurfa að búa. Í þessu tilviki er víst enginn undanskilinn, svo mjög sem búvöruframleiðslan skiptir allan almenning máli, svo ekki sé talað um bændur og fyrirtæki þeirra. Þetta er þess vegna grafalvarlegt mál.

Það er ljóst að það verður verkefni næstu mánaða og missera að bregðast við þessum breytingum og leita leiða til þess að vinna sig út úr þessum vanda. Verðlagsnefnd búvara hefur að undanförnu skoðað þessi mál og mun gera það áfram frá öllum hliðum. Ætla má að hækkun kostnaðarliða í landbúnaði muni enn auka hagræðingu í greininni og hvetja menn til þess að leita allra leiða til þess að draga úr kostnaði.

Góðir Búnaðarþingsfulltrúar.

Ég nefndi í upphafi að við stöndum á breytingatímum. Slíkar aðstæður fela í sér ný tækifæri, en líka að við göngum fram af gætni. Það er til dæmis ljóst að margt er að breytast í alþjóðlegu umhverfi og fjarri fer það því að við getum verið ónæm fyrir slíkum breytingum. Árum saman hafa staðið yfir á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO, umræður sem meðal annars snúa að alþjóðlegum viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Að sönnu hafa menn ekki komist að niðurstöðu og alls óvíst hvort og hvenær það tekst. Engu að síður er athyglisvert að sú stefna sem þessar viðræður hafa tekið er þegar farin að hafa áhrif á mótun landbúnaðarstefnu ýmissa ríkja og ríkjasambanda. Kom þetta til dæmis fram í viðræðum mínum við Marianne Fischer Boel, framkvæmdastjóra landbúnaðarmála Evrópusambandsins nú skömmu eftir áramótin. Þetta þarf að hafa í huga þegar við hyggjum að framtíðinni varðandi búvörusamningana. Við höfum sem betur fer góðan tíma fyrir okkur, en fimm ár eru samt fljót að líða. Því tel ég nauðsynlegt að við hyggjum að þessum málum í tæka tíð og gerum okkur fordómalausa grein fyrir þróuninni í kring um okkur. Við munum nefnilega ekki komast hjá því að taka tillit til hennar á tímum vaxandi alþjóðavæðingar.

Íslenskur landbúnaður nýtur góðs stuðnings hér innanlands. Það hefur ítrekað komið fram í pólitískum umræðum, í viðhorfskönnunum og neytendur segja skoðun sína með afdráttarlausum hætti, með spurn eftir íslenskum framleiðsluvörum, íslenskum landbúnaðarvörum. Í þessu felst styrkur okkar. Landbúnaður okkar á þess vegna margvísleg tækifæri, sem hann getur gripið greitt. Og þótt á móti blási vegna hækkandi kostnaðar, blasa tækifærin við.  Og þar – í þessum tækifærum - og í framtaki íslenskra bænda er björt framtíð íslensks landbúnaðar falin.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum