Hoppa yfir valmynd
07. maí 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Árleg stórsýning Hestamannafélagsins Fáks haldin í reiðhöllinni í Reykjavík laugardagskvöldið 3. maí 2008.

Kæru sýningargestir,

Það er mér mikil ánægja að eiga kost á því að vera með ykkur hér í kvöld á árlegri stórsýningu Hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík. En Fákur er eins og við vitum öll fjölmennasta hestamannafélag landsins og hið elsta, stofnað 24. apríl 1922.

Saga Fáks er stórmerk og hafa Fáksfélagar verið í fararbroddi allt frá fyrstu tíð í öllu því er lýtur að því starfi að vinna að viðgangi íslenska hestsins. Ég hygg að sú saga, þ.e. hvernig tilvist íslenska hestsins var tryggð þrátt fyrir að margir og jafnvel langflestir álitu hann úreltan við tilkomu bíla og dráttarvéla, sé eitthvert besta dæmi um þann árangur sem samstaða fólks í sveitum og þéttbýli gefur.

Fyrir margt löngu eða rétt um 6 áratugum síðan skrifaði vís maður sem lengi starfaði innan félagskerfis landbúnaðarins og hét Arnór Sigurjónsson tímaritsgrein sem hann kallaði Draum um íslenzka hestinn. Hann hafði miklar áhyggjur af stöðu mála og þeirri hnignun sem hvarvetna blasti við í hestamennskunni og sagði á einum stað í greininni „Helzt verður nú eitthvað úr góðhestaefnum, ef  þau komast í einhvern hinna stærri kaupstaða.“

Jafnframt velti Arnór fyrir sér eðli góðrar hestamennsku og rökstuddi að rétt með farinn ætti reiðhesturinn auðugra og betra líf en jafnvel sá hestur sem alla tíð nýtur frelsins í haga. Þá fjallaði hann  um möguleikana sem fælust í að íslenska hestinum yrði fundinn fótfesta erlendis og sagði að ef rétt væri að málum staðið væri auðvelt „að kenna annarra þjóða mönnum að meta góðhestana íslenzku, eins og þeir geta beztir verið.“

Ágætu tilheyrendur mér finnst vel við hæfi að rifja hér stuttlega upp draum eins landbúnaðarmanns um framtíð og möguleika íslenska hestsins sem reiðhests, góðhests og gæðings þegar hæst ber. Þessi draumur hefur svo sannarlega ræst. Því munum við m.a. sjá stað hér í kvöld.

Hins vegar er enginn endir í starfi eins og því að bæta íslenska hestinn. Þið sem vinnið að kynbótum eða takið þátt í keppnum vitið að kyrrstaða er sama og tap. Síðan stöndum við öll sem unnum íslenska gæðingum í samkeppni við ræktendur og unnendur annarra hrossakynja. Í þeirri baráttu er meiri og betri hestamannska á sífellt betri íslenskum góðhesti eina vopnið sem bítur. Að því vil ég hlúa með störfum mínum sem ráðherra landbúnaðarmála.

Segi ég hér með stórsýningu Fáks vorið 2008 setta.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum