Hoppa yfir valmynd
23. október 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda 23. október 2008

Ávarp Einars Kristins Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda

23. október 2008

 

Formaður og framkvæmdastjóri LS, fundarstjóri, aðalfundarfulltrúar og aðrir fundarmenn.

 

Fyrir skemmstu var efnt til hinnar glæsilegu alþjóðlegu sjávarútvegssýningar sem haldin er hér á landi þriðja hvert ár. Þessi sýning færði okkur heim sannin um það sem endranær, að sjávarútvegurinn er í mikilli sókn. Þar er mjög margt að gerast sem vekur athygli og veitir vísbendingar um hvert stefnir. Þarna gat að líta nýjustu tækni sem völ er á í greininni og var sýningin vel sótt líkt og jafnan. Bæði af fólki í atvinnugreininni og ekki síður öðrum sem vegna áhuga síns og stöðu sjávarútvegsins hér á landi, flyktust til að kynnast því sem fyrir augu bar. Útlendingar sóttu sýninguna einnig í miklum mæli enda er hún einn af hápunktunum á þessum vettvangi í okkar heimshluta.

 

Það var þó því miður ekki þetta sem bar hæst á sýningunni sjálfri. Umræðuefni þeirra sem maður hitti snerist að mestu leyti um eitt og hið sama; þann gríðarlega efnahagsvanda sem nú steðjar að okkur Íslendingum. Í raun og veru má segja að þau vandamál sem þjóðin stendur nú frammi fyrir yfirskyggi allt annað. Það var á vissan hátt undarleg og dapurleg upplifun að sama við hvern rætt var þá barst umræðan stöðugt að þeim vanda sem nú er við að etja. Og því miður er staðan ennþá sú, að við sjáum ekki út úr þeim vanda.

 

Þær fjárhagslegu hremmingar sem nú ríða yfir eru algjörlega einstæðar. Því miður eru þær ekki eingöngu bundnar við Ísland.  Við erum sem lítill leiksoppur í þeim óskaplega darraðadansi sem gengur yfir alla heimsbyggðina og hefur lagt að velli öflugustu fjármálastofnanir og fjármálafyrirtæki heimsins. Að sönnu má segja að þessir erfiðleikar hafi hitt okkur fyrir með harðneskjulegri hætti en margar aðrar þjóðir. Einfaldlega vegna þess að hér er lítið, opið hagkerfi þar sem fjármálageirinn hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum, raunar svo mjög að hann lagði orðið meira til þjóðarframleiðslunnar en sjálfur sjávarútvegurinn. Þess vegna hefur það haft meiri áhrif á stöðu okkar heldur en orð fá lýst að fjármálageirinn hafi verið lagður að velli. Að undanförnu hefur verið reynt að byggja fjármálakerfið upp að nýju en öllum er þó ljóst að það verður mikið breytt og minna að umfangi en áður. Þetta hefur haft veruleg áhrif á stöðu fyrirtækja og viðskiptavina bankanna. Það á við um sjávarútveginn eins og alla aðra.

 

Almennt talað höfum við sagt að lágt gengi komi sjávarútveginum eins og öðrum útflutningsatvinnuvegum vel. En sú gengisstaða sem verið hefur undanfarnar vikur og mánuði hefur hins vegar einnig hitt sjávarútveginn mjög illa fyrir. Til skemmri tíma litið má segja sem svo að lágt gengi færi íslenskum útflutningsfyrirtækjum betri samkeppnisstöðu og hærri tekjur. Það breytir því hins vegar ekki að á þessu er önnur hlið. Þegar gengið lækkar svo skarpt og mikið sem núna þá fer ekkert á milli mála að hinar neikvæðu afleiðingar eru mjög miklar. Það þarf ekki að orðlengja þetta. Við vitum mætavel að lækkun gengisins að undanförnu hefur sett efnahagsreikninga sjávarútvegsfyrirtækja, eins og annarra fyrirtækja, í algjört uppnám. Skuldirnar hafa aukist og étið upp eigið fé fyrirtækjanna og gert mönnum þannig mjög erfitt fyrir.

 

Hinu má þó ekki gleyma að sjávarútvegurinn verður á næstunni stærri hluti af okkar þjóðarbúskap en áður og við eigum allt undir því að hann geti starfað með eðlilegum hætti og knúið þannig áfram þá efnahagslegu vél sem hagkerfið okkar er. Þess vegna ríður á að finna leiðir til þess að tryggja eðlileg gjaldeyrisviðskipti og koma á stöðugleika í genginu svo fyrirtækin geti unnið snurðulaust og sjávarútvegurinn verið sá burðarás sem við blasir á Íslandi á komandi vikum og mánuðum. Mín skilaboð til ykkar og annarra í sjávarútvegi eru þess vegna mjög skýr. Menn eiga ekki að leggja árar í bát við þessar aðstæður.

 

Þótt staðan á efnahagsreikningum sé slæm um þessar mundir vegna hins lága gengis, er það aðeins um stundarsakir. Gengi krónunnar er langt undir jafnvægisgengi og mun styrkjast þegar frá líður. Við það lækka erlendar skuldir sjávarútvegsins eins og annarra atvinnugreina, mælt í innlendri mynt.  Það er því  rangt að leggja mat á stöðu einstakra fyrirtækja út frá skammvinnum stundarveruleika, einfaldlega vegna þess að við getum ekki vænst annars en þess að krónan eigi eftir að styrkjast þannig að hún leiti jafnvægis á allt öðrum og sterkari stað en nú er. Við eigum því sameiginlega að reyna að róa út úr þessum brimskafli og komast á sléttari sjó. Sjávarútvegurinn hefur allar forsendur til þess. Afurðaverð hefur almennt verið gott og samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs er góð, ekki síst vegna þess orðspors sem hann hefur notið. Þetta síðasta atriði er mjög þýðingarmikið.

 

Orðspor Íslands á erlendum vettvangi hefur almennt beðið hnekki í þessum fjármálalegu erfiðleikum. Á móti kemur hitt að við höfum orðið þess áskynja að kaupendur íslensks fisks á erlendum mörkuðum skilja þessar aðstæður. Þeir gera sér grein fyrir því að eftir sem áður selja Íslendingar góða vöru og eru áreiðanlegir þegar kemur að því að afhenda afurðirnar. Þetta góða orðspor á mörkuðunum er enn til staðar. Í þessu felst okkar styrkur en auk þess nýtur íslenskur sjávarútvegur virðingar fyrir þá auðlindanýtingu sem við stöndum fyrir.  Þann orðstír þurfum við að varðveita og það getum við vel gert.

 

Góðir fundarmenn.

Síðasta fiskveiðiár var ennfremur erfitt af öðrum ástæðum. Hinn mikli samdráttur í veiðiheimildum í þorski hefur auðvitað komið illa niður á útgerð minni báta eins og annars sjávarútvegs í landinu. Kannski má segja sem svo að hlutfallslega hafi áfallið verið þyngra vegna þess hve háðir menn eru þorskaflanum í krókaaflamarkinu.  Lægra gengi krónunnar og hærra afurðaverð í þorski hefur þó gert það að verkum að þau áföll sem við óttuðumst komu ekki fram með þeim ofurþunga sem ég og margir aðrir töldu að blöstu við um það leyti sem ákvörðun um 130 þúsunda tonna þorskafla var tekin. Þær tölur sem nú liggja fyrir, sýna að útflutningsverðmæti þorskafurða jókst á milli fiskveiðiára. Það hefur að sjálfsögðu átt sinn þátt í því að hin neikvæðu áhrif af þorskaflaniðurskurði urðu ekki jafn miklar og við höfðum ástæðu til að óttast.

 

Að minnsta kosti er það svo þegar við horfum núna í baksýnisspeglinum á þróunina á síðasta fiskveiðiári, þá blasir við að ýmislegt af því sem spáð var rættist sem betur fer ekki. Mikil uppstokkun í sjávarútvegi, samþjöppun aflaheimilda og fjölda gjaldþrot urðu ekki raunin. Menn sigldu í gegnum þessar hremmingar af meira öryggi en kannski mátti vænta. Ástæðurnar eru margvíslegar og að þeim hef ég að hluta til vikið.  Margir töldu líka að við myndum eiga erfiðari tíma framundan, ekki vegna þeirrar efnahagskreppu sem nú hefur riðið yfir, heldur vegna þess að við myndum hafa úr ennþá minna að moða á því fiskveiðiári sem hófst núna 1. september. Þær tölur sem við höfum um geymslu á aflaheimildum benda hins vegar ekki til þess að það verði ráðandi þáttur. Hremmingarnar í efnahagsmálunum munu verða miklu stærri áhrifavaldur en nokkrar ákvarðanir um heildarafla eða tengda hluti.  Krókaaflamarksbátar fluttu með sér hér um bil jafnmikið magn af ýsu á milli síðustu fiskveiðiáramóta og árið á undan, sem er veruleg viðbót við það sem gerðist almennt á fiskveiðiárunum þar á undan. Sömu sögu er að segja um steinbítinn. Þar voru umtalsvert meiri aflaheimildir fluttar á milli síðustu fiskveiðiáramóta en áramótin þar á undan.

 

Í kjölfar þeirra erfiðleika sem við stöndum núna í hefur þess m.a verið farið á leit við mig að endurskoða ákvörðunina um heildarafla á þorski. Með skírskotun til fortíðarinnar taldi ég ekki sérstaka ástæðu til að bregðast við þessu. Ég tel hins vegar að það hljóti að vera skylda mín sem ábyrgs sjávarútvegsráðherra að fara yfir þessi mál efnislega núna og komast að niðurstöðu. Hinir erfiðu tímar upp á síðkastið hafa hins vegar gert það að verkum að ekki hefur verið nægjanlegt tóm til þess að gera það með viðunandi hætti. Ég hef því ekki komist að niðurstöðu um þessi mál. Eitt vil ég þó segja, þannig að það liggi strax fyrir hér, og það er eftirfarandi: Við erum ábyrg auðlindanýtingarþjóð. Við njótum góðs orðspors af þeim ástæðum á veigamestu mörkuðum okkar og megum ekki undir neinum kringumstæðum fórna þeim ávinningi. Og gleymum því ekki að þrátt fyrir að ímynd okkar sem þjóðar hafi beðið hnekki, njótum við verðskuldaðs álits sem fiskveiðiþjóð. Það hefur ekki breyst og mun gagnast okkur.  Ákvarðanir okkar verða því - án nokkurs afsláttar - að vera í samræmi við það sem við segjum hér á landi og erlendis; við byggjum á sjálfbærri nýtingu auðlinda þar sem ekki er gengið á fiskistofnana, en þeim haldið við og þeir efldir.

 

Á undanförnum misserum hefur verið unnið hörðum höndum af sjávarútveginum í heild, og undanskil ég þá engan, að koma á laggirnar nýju íslensku merki til vitnis um ábyrgar veiðar. Sú vinna er langt komin. Í þessu felast markaðsleg tækifæri og ég veit að ekki síst innan vébanda Landssambands smábátaeigenda hefur verið mikill áhugi á þessu starfi. Við finnum að á erlendum mörkuðum eru gerðar kröfur í þessa veru. Kröfur sem við höfum ekki getað staðið fyllilega undir, en nú styttist í það. Þess finnast jafnvel dæmi um að við höfum goldið fyrir það að hafa ekki slíkt viðurkennt merki. Það er ljóst að brýnna verður fyrir okkur á komandi árum að státa af slíku. Ákvörðun um heildarafla hlýtur því að taka mið af þessu. Við megum ekki, sakir stundarerfiðleika, fórna áratuga starfi sem byggt hefur upp okkar góða orðstír og fært okkur hærra fiskverð en mörgum þeim þjóðum sem við keppum við. 

 

Góðir fundarmenn.

Á fundum Landssambands smábátaeigenda hef ég áður farið almennt yfir viðhorf mín um fiskveiðistjórnunina. Ég er þeirrar skoðunar að grundvallarreglan við stjórn fiskveiða hljóti að byggjast á einstaklingsbundnum, framseljanlegum fiskveiðiréttindum. Engum er betur treystandi en útgerðarmönnum sjálfum, stórum sem smáum, til að nýta á eigin forsendum og í þágu þjóðarbúsins þær aflaheimildir sem þeir hafa. Framseljanlegur fiskveiðiréttur, hvort sem menn mæla það í tímaeiningum eða tonnum, er hér algjört grundvallaratriði.  Ávinningur þessa kerfis hefur m.a. verið sá að draga úr kostnaði við útgerðina og skipuleggja markaðssókn fyrir íslenskan fisk. En um leið eru óneitanlega neikvæðir fylgifiskar þessa fyrirkomulags. Þar á ég sérstaklega við áhrifin á ýmsar byggðir sem hafa misst frá sér fiskveiðiréttindin. Því tel ég - að rétt eins og við höfum gert - sé skynsamlegt og réttlætanlegt að taka til hliðar hluta af fiskveiðiréttinum með hagsmuni veikari sjávarútvegsbyggðanna að leiðarljósi. Það hefur m.a. verið gert með byggðakvótum sem hafa komið mjög mörgum minni fiskveiðisamfélögum til góða. Því miður hefur þó ekki tekist nægilega vel að nýta þessar aflaheimildir að öllu leyti í byggðalegum tilgangi. Á undanförnum árum hefur því verið unnið að töluverðum endurbótum á þessu fyrirkomulagi, sem hefur kallað á ýmsa erfiðleika í framkvæmdinni, en við erum smám saman að sigrast á þeim. Það fyrirkomulag sem nú er verið að festa í sessi er líklegra til þess að ná þeim yfirlýsta byggðalega tilgangi sem að baki býr.  Gleymum því ekki að markmiðið með þessum aflaheimildum er að þær komi að gagni fyrir hin minni byggðarlög. Þess vegna er réttlætanlegt af hálfu löggjafans og framkvæmdavaldsins að gera annars konar kröfur um ráðstöfun þeirra heldur en almennt er gert um fiskveiðiréttindin. Kröfur eins og þær sem nú hafa verið settar fram eru líklegar til að stuðla að því að byggðakvóti nýtist til þeirrar nauðsynlegu uppbyggingar sem til er ætlast.

 

Á undanförnum árum hafa margir talað illa um byggðakvótann enda er hann sannarlega umdeilanlegur. Að mínu mati er hann réttlætanlegur en ber um leið að halda innan hæfilegra marka. Þetta úrræði hefur nýst í einstökum byggðarlögum en ég leyni því þó ekki að ég tel að í ýmsum tilvikum hafi sveitarfélög lagt fram full flóknar útfærslur á fyrirkomulaginu, án þess að það hafi skilað því sem til er ætlast. Það er rétt sem sagt hefur verið. Þetta er millifærslukerfi og þegar grannt er skoðað er hlutdeild krókaaflamarksbáta í byggðakvótanum meiri heldur en endurspeglast í hlutdeild krókaaflamarksbáta í heildarkvóta þeirra tegunda sem úthlutað er í byggðakvótum. Aflamarksskip hafa undanfarin fiskveiðiár fengið um 60% af byggðakvótanum, sem er lægra hlutfall en svarar til hlutdeildar þeirra í úthlutuðum kvóta í þeim tegundum sem fara til ráðstöfunar vegna byggðakvótans. Þetta felur því í sér tilfærslur frá aflamarki til krókaaflamarks, en þó minna en ætla mætti af umræðunni. Í raun má segja að þessar tölur þýði að um eitt þúsund þorskígildistonn vanti upp á að hlutdeild aflamarksbátanna sé í samræmi við skiptingu heildarkvótans. Þetta er því óneitanlega millifærslukerfi frá stærri bátum til hinna minni, en kannski afkastaminna millifærslukerfi en reikna hefði mátt með. Þessi millifærsla markast auðvitað af þeirri einföldu og augljósu staðreynd að í minnstu byggðarlögunum, sem eiga rétt á byggðakvótum, er hlutur krókaaflamarksbáta einfaldlega stærri en annars staðar í heildarútgerðinni. Þetta endurspeglar því vel þýðinguna sem krókaaflamarksútgerðirnar hafa í minnstu byggðarlögunum. 

 

Svipað á við um línuívilnun. Ég stóð að henni á sínum tíma og þótt þetta hafi verið mjög umdeild pólitísk ákvörðun iðrast ég einskis í þeim efnum. Reynslan af línuívilnuninni hefur almennt verið góð og hún orðið til þess að styðja við útgerð í ýmsum byggðarlögum landsins. Á síðasta fiskveiðiári varð merkjanleg breyting á nýtingu línuívilnunarinnar. Þeim byggðarlögum sem fengu í sinn hlut yfir 100 tonn af línuívilnun fækkaði nokkuð, en annars staðar styrktist hún að sama skapi. Þetta á sér margar skýringar sem þið þekkið ekki síður en ég. Rétt er það að hluti af þeim þorskkvóta sem ætlaður var til línuívilnunar hefur ekki nýst, einfaldlega vegna þess að þegar hann var ákveðinn með lögum, þá gerðu menn á þeim tíma sér væntanlega ekki grein fyrir því að til þess gæti komið að við veiddum einungis 130 þúsund tonn. 

 

Hitt er ljóst að það munar verulega um línuívilnunina í mörgum byggðarlögum. Misjafnlega mikið að sjálfsögðu eftir því hvernig útgerðarhátturinn er. Þær tölur sem við sjáum hér eru heildartölur og segja út af fyrir sig ekki alla söguna um hlutfall þessa fyrirkomulags í löndunum í einstaka byggðarlögum. Þær endurspegla kannski fremur kvótastöðuna í byggðarlögunum í heild sinni og þar sem menn eru stærstir í krókaaflamarkinu, þá er líklegast að línuívilnunin verði meiri. 

 

Hvað sem þessu líður þá blasir við að hlutur krókaaflamarksbáta í heildarlöndunum í einstaka byggðarlögum er ómetanlegur og án þeirra er ljóst að daufara yrði um að litast í mörgum verstöðvum.  Hlutur þessara báta á síðustu fimm árum hefur almennt talað farið vaxandi, hlutur krókabáta á síðastliðnum fimm fiskveiðiárum t.d. í þorski hefur almennt verið upp á við.  Á árinu 2006-2007 lækkaði þetta hlutfall aðeins en náði sama styrkleika á síðasta fiskveiðiári. Hvað ýsuna áhrærir þá dró nokkuð úr hlutdeild krókaaflamarksbáta og sömu sögu er að segja um steinbítinn. Hér er þó um að ræða sveiflur milli ára sem ég tel ekki ástæðu til að gera mikið úr.

 

Ágætu smábátaeigendur.

Oft hefur verið tekist hressilega á um fiskveiðistjórnarmál á undanförnum árum, bæði á Alþingi og í annarri opinberri umræðu. Og ég geri mér ekki í hugarlund að umræðum um þau mál ljúki nokkru sinni.  Hér er fjallað um kviku efnahagslífs okkar og spurningarnar eru eðlilega áleitnar.  Það er líka sjálfsagður hlutur að ræða þessi mál, en þá verður líka að hafa ýmislegt í huga. 

 

Þeir sem standa fyrir útgerð, hvort sem um er að ræða stærri eða minni báta, hljóta að eiga rétt á því að um málefni þeirra sé talað af yfirvegun og virðingu. Menn geta ekki talað með þeim hætti að það geti verið eðlilegt hlutverk stjórnmálamanna að svipta til fiskveiðiréttindum eins og taflmönnum á skákborði.  Þetta er jú sú atvinnugrein sem við vitum nú betur en nokkru sinni fyrr, að muni skipta hvað mestu um það hvernig okkur gengur að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem nú er við að etja. Á næstunni verður, á grundvelli stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og með hliðsjón af áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem öllum er kunnugt, farið yfir ýmis þau álitaefni sem uppi eru varðandi fiskveiðistjórnunina. Í því samhengi verða menn að muna að verið er að fást við megin auðlind þjóðarinnar og hvernig hana má nýta sem best öllum til hagsbóta. Þeir sem búa við stöðuga óvissu vegna pólitískra afskipta geta aldrei tekið skynsamlegustu ákvarðanirnar; einfaldlega vegna þess að óvissa skapar erfiðleika. Óvissa gerir það að verkum að menn geta ekki séð fram í tímann nema að mjög takmörkuðu leyti. Nægir eru nú óvissuþættirnir samt í sjávarútveginum þótt pólitískri óvissu sé ekki bætt ofan í kaupið.

 

Þegar erlendir greiningaraðilar hafa komið hingað til lands til þess að meta stöðu þjóðarbúsins, hafa þeir talið okkur til tekna að hér ríki pólitískur stöðugleiki og samhljómur um grundvallaratriði. Þetta hefur með réttu verið bent á að muni hjálpa þjóðfélaginu út úr þeim erfiðleikum sem við er að etja. Á þá ekki það sama við um sjávarútveginn? Menn hljóta að geta gert kröfur um einhvern fyrirsjáanleika svo unnt sé að taka stórar ákvarðanir með upplýstum hætti. Menn leggja hugsanlega allar sínar eigur undir og stundum rúmlega það og verða því að vita við hvaða aðstæður þeir búa til framtíðar. Þetta á ekki bara við stærstu útgerðarfyrirtækin í landinu. Þetta á ekki síður við um einyrkjann, manninn sem vinnur hörðum höndum að sjómennsku sinni og útgerð og hættir miklu fjárhagslega til að láta hlutina ganga upp. Mér finnst það ekki óbilgjörn krafa til okkar stjórnmálamannanna, af ykkar hálfu eða annarra þeirra sem um  véla, að við högum orðum okkar og gjörðum með þeim hætti að þið rennið ekki blint í sjóinn. Mér finnst hafa skort mikið á það að við stjórnmálamenn höfum fullnægt þessari eðlilegu kröfu af ykkar hálfu.  Nú þegar við hefjum bráðlega þá vinnu að fara yfir ýmsa þætti fiskveiðistjórnunarinnar er eðlilegt að árétta að þetta sé sjónarmið sem eigi að virða í hvívetna. 

 

Góðir fundarmenn.

Ég hóf þessa ræðu á fremur dimmum nótum og það því miður mjög af gefnu tilefni. Staðan er alvarleg og afleiðingarnar verða það einnig. Við þessar aðstæður eigum við þó einungis einn kost. Hann er sá að sækja á. Þeir sem hafa stundað útgerð og haft atvinnu sína af sjómennsku vita betur en flestir aðrir að öll él birtir upp um síðir og þannig verður það auðvitað. Erfiðleikar sjávarútvegsins í fortíðinni sem á tíðum virtust óyfirstíganlegir, eru stundum þegar horft er til baka eins og lítið sandkorn á ströndinni og auðvitað komumst við líka út úr núverandi erfiðleikum, þessum dýrkeyptu erfiðleikum. Nú ríður á að menn standi þétt saman, geri sér grein fyrir heildarhagsmunum og geri sér grein fyrir því að sjávarútvegurinn mun á næstunni gegna ennþá þýðingarmeira hlutverki heldur en hann gerði allra síðustu árin. Ábyrgðin sem þar með er lögð á herðar okkar stjórnmálamanna sem fást um þessa hluti og ykkar sem standið fyrir rekstrinum er því gríðarlega mikil. Við munum sýna það að við öxlum þessa ábyrgð!

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum