Hoppa yfir valmynd

Norræn samvinna

Mikilvæg samvinna um sameiginlega hagsmuni

Norrrænu ríkin fimm, Danmörk, Finnland, Noregur, Ísland og Svíþjóð og sjálfsstjórnarlöndin þrjú Grænland, Færeyjar og Álandseyjar vinna saman og standa vörð um sameiginlega hagsmuni. Samvinna þeirra byggir á sameiginlegu gildismati þjóðanna sem byggja þessi lönd.

Þátttaka Íslands í norrænu samstarfi er mjög umfangsmikil og kveður sáttmáli ríkisstjórnarinnar á um að norrænt samstarf verði áfram einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands. Mikilvægi þess að Norðurlönd séu samstíga í utanríkismálum kemur vel í ljós í samskiptum við önnur ríki, eins og Bandaríkin. Þá er samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna mikilvægt en sameiginlegir hagsmunir landanna átta eru margir, ekki hvað síst í öryggismálum.

Norræn samvinna styrkir og dregur fram sameiginleg hagsmunamál Norðurlanda, eykur aðdráttarafl þeirra og Norður-Evrópu og eflir áhrif landanna í Evrópusambandinu og á alþjóðlegum vettvangi.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda mjög reglulega og sambandi og samskiptum Norðurlandanna er jafnframt haldið við á öllum póstum utanríkisþjónustunnar, heima og heiman, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem og annarra alþjóðastofnana.

Ríkisstjórnir norrænu ríkjanna fimm og stjórnir sjálfstjórnarlandanna þriggja vinna saman formlega og óformlega. Norræna ráðherranefndin er hinn opinberi og formlegi vettvangur samstarfsins. Í utanríkisráðuneytinu er starfrækt sérstök Norðurlandaskrifstofa sem heldur utan um verkefni sem þessu tengjast og undirbýr mál sem lögð eru fyrir samstarfsráðherra Norðurlanda.

Það er gömul saga og ný að styrkur norræns samstarfs felst í sameiginlegum gildum Norðurlandanna og svipaðri samfélagsgerð. Væringar og óvissa á alþjóðavettvangi virðast einnig hafa beint sjónum Norðurlandabúa inn á við á nýjan leik. Í nýrri könnun Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs á því hvernig almenningur lítur norrænt samstarf kemur skýrt fram að Norðurlandabúar telja samstarfið vera mikilvægt. Rúmlega 90% aðspurðra telja samstarfið mikilvægt eða afar mikilvægt, þar af 59% afar mikilvægt. Rúmlega tveir þriðju vilja aukið norrænt samstarf sem er marktækt, fleiri en þegar síðast var spurt fyrir tíu árum. Tveir þriðju telja þróun alþjóðamála hafa aukið mikilvægi norrænnar samvinnu. Almenningur telur varnar- og öryggismál brýnustu samstarfssviðin sem er breyting frá fyrri tíð.

Inntak norrænnar samvinnu

  • Að standa vörð um sameiginlega hagsmuni
    Saga og menning Norðurlanda á sér djúpar og sameiginlegar rætur. Hinn samnorræni arfur gagnast samvinnu þjóðanna afar vel.
  • Gildismat
    Norræn samvinna byggir á sameiginlegum gildum, eins og opinskárri umræðuhefð og umburðarlyndi, og á sameiginlegum hagsmunum þjóðanna. Sameiginlegt gildismat tryggir samheldni þjóðanna í þeim mæli að slíks eru fá dæmi í heiminum.
  • Norræn samvinna
    Mikill fjöldi fólks tekur þátt í norrænu samstarfi, annað hvort sem einstaklingar eða í frjálsum félagasamtökum. Því fylgir mikill styrkur. Þessi breiða þátttaka helst í hendur við að samstarf þjóðanna hefur mikinn hljómgrunn meðal almennings.
  • Styrkur
    Margt tengir saman norrænu löndin og fólkið sem þar býr. Samvinnan styrkir þau bönd mikið. Það kemur meðal annars fram í norrænu samstarfi á sviði menningar, menntamála og rannsókna, umhverfismála, í norræna velferðarkerfinu og aðgerðunum gegn stjórnsýsluhindrunum.
  • Aðdráttarafl
    Samvinna Norðurlanda og landanna við Eystrasalt og Rússland er mikilvæg leið til að auka aðdráttarafl og getu þeirra til að draga að sér erlent fjármagn. Sú orka sem felst í fjölbreytilegri reynslu þjóða á öllu þessu svæði kemur þeim að miklu gagni á hnattvæddum markaði.

Nágrannar Norðurlanda

Samstarf norrænu utanríkisráðherranna við samstarfsfólk sitt í Eystrasaltsríkjunum, hið svokallaða NB8
samstarf, vegur æ þyngra og hefur fest sig vel í sessi. Samráðsfundir milli NB8 ríkjanna og Visegradlandanna (Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland) hafa einnig þótt mjög gagnlegir og er nú komin á hefð fyrir því að haldinn sé fundur í hópi utanríkisráðherranna einu sinni á ári.

Mikilvægi þess að Norðurlöndin séu samstíga í utanríkismálum kemur vel í ljós í samskiptum við önnur ríki, eins og Bandaríkin, en hvað þau varðar hafa sameiginlegir fundir á ýmsum stigum stjórnsýslunnar færst í vöxt á liðnum árum, eins og sl. vor þegar norrænu utanríkis-ráðherrarnir funduðu með þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Nánara samstarf þessara þjóða var þar í brennidepli og var fundurinn
haldinn samhliða fundi þáverandi forseta Bandaríkjanna með forsætisráðherrum Norðurlandanna. Á vettvangi utanríkisráðherranna er utanríkis-stefna ríkjanna samræmd og skipst er á upplýsingum um mikilvæg alþjóðamál. Þetta er einkum veigamikið þar eð löndin eru ekki öll aðilar að sömu alþjóðastofnunum, s.s. Evrópusambandinu (ESB) og Atlantshafsbandalaginu (NATO). Löng hefð er nú komin á samræmd framboð innan Sameinuðu þjóðanna. Öll Norðurlöndin studdu til að mynda vel framboð Svía til öryggisráðs SÞ en Svíþjóð tók sæti í ráðinu um síðustu áramót.

Á fundi utanríkisráðherranna í Borgå í Finnlandi vorið 2016 voru öryggismál í víðu samhengi, sem og önnur aðkallandi alþjóðleg pólitísk málefni, til umfjöllunar. Birtu þeir sameiginlega blaðagrein í heimalöndum sínum þar sem þeir lögðu áherslu á mikilvægi þess að stöðugleiki viðhaldist á Eystrasaltssvæðinu. Utanríkisráðherrarnir héldu einnig fund í sambandi við þing Norðurlandaráðs í Osló í nóvember þar sem
samskiptin við Bandaríkin voru rædd í aðdraganda forsetakosninga þar í landi. Einnig var fjallað um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu og hvernig bregðast skyldi við þeirri stöðu. Á fundinum var sömuleiðis lögð áhersla á nánara samstarf Norðurlandanna í utanríkismálum, sem og öryggismál Eystrasaltssvæðisins.

Fréttir um norræna samvinnu

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum