Hoppa yfir valmynd

Leiðandi í sjálfbærri þróun – Íslensk ferðaþjónusta til 2030

Ferðaþjónustan er ein af stærstu atvinnugreinum okkar á Íslandi. Í henni felast margvísleg tækifæri en á sama tíma verður að huga að jafnvægi og sjálfbærni og gæta að náttúrunni okkar og menningarverðmætum.

Í janúar 2019 skipaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stýrihóp með aðkomu Samtaka ferðaþjónustunnar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem hafði það hlutverk að setja fram drög að Framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Niðurstaða þeirrar vinnu liggur nú fyrir.

Í Framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 kemur m.a. fram að ferðaþjónustan eigi að vera arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð og að Ísland eigi að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Leiðin að því marki er að setja arðsemi framar fjölda ferðamanna, vinna að ávinningi heimamanna af ferðaþjónustu um allt land, gæta jafnvægis milli verndar og hagnýtingar og miða að einstakri upplifun, gæðum og fagmennsku. 

Markmið okkar eru að útgjöld ferðamanna á Íslandi verði 700 milljarðar króna árið 2030, að 90% heimamanna hafi jákvætt viðhorf til ferðaþjónustu, að meðmælastig gesta eða NPS verði 75 stig eða hærra og að álagsstýring verði virk.   

Þar sem ferðaþjónustan er þverfagleg atvinnugrein verður lögð áhersla á samhæfingu og skilvirkni þvert á stjórnsýslu í samvinnu við hagaðila. Einnig verður unnið að góðum samgöngum en þær eru forsenda ferðaþjónustu um allt land.

Við þróun ferðaþjónustu á Íslandi er mikilvægt að byggt sé á rannsóknum, gögnum og reynslu og að  niðurstöður álagsmats séu nýttar við alla ákvarðanatöku, stefnumótun og uppbyggingu. Með nýja framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu að grundvelli verður áhersla á að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, góða atvinnu og hagvöxt, og aðgerðir í loftslagsmálum verði náð hér á landi. Þannig verður Ísland leiðandi þjóð í sjálfbærri ferðaþjónustu til framtíðar. 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum