Hoppa yfir valmynd

Notendastýrð persónuleg aðstoð

Verkefnisstjórn sem skipuð er af velferðarráðherra leiðir samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks sem miðar að því að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) við fatlað fólk á markvissan og árangursríkan hátt. Verkefnisstjórnin er skipuð í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um málefni fatlaðs fólks sem tók gildi 1. janúar 2012, samhliða ýmsum öðrum breytingum á lögunum vegna ákvörðunar um flutning ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. 

Hlutverk verkefnisstjórnar er að móta ramma um fyrirkomulag NPA. Í því skyni munu sveitarfélög í samráði við verkefnisstjórnina leitast við að bjóða fötluðu fólki notendastýrða persónulega aðstoð til reynslu í tiltekinn tíma. Við mat á því hverjum eða hvaða hópi fatlaðs fólks skuli boðin slík þjónusta skal gæta jafnræðis.

Sveitarfélögum er heimilt að verðmeta einstaka þjónustuþætti í gjaldskrá. Sveitarfélög skulu síðan gera notendasamninga um NPA við hvern notanda eða aðila sem kemur fram fyrir hönd hans þar sem fram kemur hvaða þjónustu hlutaðeigandi þarf á að halda í daglegu lífi og verðmat þjónustunnar. Sveitarfélögum er heimilt að ráðstafa þeim fjármunum sem svara til kostnaðar vegna þjónustu hvers notanda sem veitt er á grundvelli notendasamnings um notendastýrða persónulega aðstoð til notandans með þeim hætti sem ákveðið er í notendasamningnum.

Verkefnisstjórnin hefur tekið saman handbók um NPA sem er ætlað að gagnast sveitarfélögum, notendum, ríkisstofnunum og öðrum þjónustuaðilum við framkvæmd þróunarverkefnisins sem nokkurs konar rammi um fyrirkomulag þess.

Sveitarfélögin setja reglur um NPA

Næsti liður þróunarverkefnisins er að sveitarfélög setji sér sjálf reglur um það hvernig veita skuli NPA á grundvelli handbókarinnar en slíkar reglur eru forsenda fyrir því að NPA-samningar verði gerðir. Sveitarfélög geta sameinast um setningu slíkra reglna innan þjónustusvæðis. Verkefnisstjórnin mun gefa út leiðbeiningar um form slíkra reglna sem vonir standa til að sveitarfélögin geti nýtt sér.

Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er gert ráð fyrir að NPA verði lögbundin þjónusta fyrr en í lok árs 2014. Engu sveitarfélagi er því lagalega skylt að veita NPA fyrr en þá. Rík áhersla er þó lögð á það af hálfu verkefnisstjórnarinnar að sem flest sveitarfélög taki þátt í þróun verkefnisins um innleiðingu þessa þjónustuforms.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira