Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um NPA

Spurt og svarað um notendastýrða persónulega aðstoð (Unnið er að endurskoðun - apríl 2019) 

Allir þeir sem búa við fötlun geta haft not af NPA og geta því sótt um slíka aðstoð til síns sveitarfélags.

Útlendingi sem dvelur hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna vistráðningar er óheimilt að starfa á almennum vinnumarkaði. Sjá heimasíðu Útlendingastofnunar.

Ekkert mælir gegn því að notandi fari til útlanda með aðstoðarmenn. Í 14. kafla samstarfssamnings umsýsluaðila og notenda er kveðið á um skyldur umsýsluaðila. Sjá nánar: http://vel.is/npa/sam/

Í handbók um NPA er ekki kveðið á um neinar takmarkanir varðandi hvar NPA er veitt. Þó ber að geta þess að reglur sveitarfélaga geta verið mismunandi hvað þetta varðar. Einnig er bent á það að greiðslur til aðstoðarmanna verða að vera í íslenskum krónum vegna gildandi gjaldeyrishafta. Því til viðbótar gætu komið upp þær aðstæður að dvöl erlendis gæti fylgt viðbótarkostnaður sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhæðum sem fylgja hverri vinnustund. Notandi ber ábyrgð á að leita leiða til þess að standa straum af slíkum viðbótarkostnaði.

Hver og einn sem fellur undir lög um málefni fatlaðs fólks getur lagt inn umsókn um NPA hjá sínu sveitarfélagi. Í reglum hvers sveitarfélags / þjónustusvæðis er mælt fyrir um gildissvið aðstoðar og fleiri atriði sem varða meðferð umsókna. Þessi skilyrði geta verið mismunandi á milli svæða og er umsækjanda bent á að kynna sér ítarlega þær reglur sem eru í gildi í því sveitarfélagi þar sem hann á lögheimili.

Ein grunnforsenda NPA byggir á því að notandinn sé verkstjórnandi í eigin lífi. Þetta þýðir að notandinn velur sjálfur hverjir veita aðstoð og hvað hann vill að aðstoðarmaður geri á degi hverjum og hvernig hann vill að aðstoðarfólk nýtist.

Ljúki samningaumleitunum með formlegri stjórnvaldsákvörðun af hálfu félagsmálanefndar eða annars aðila innan sveitarfélags, getur umsækjandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 63. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Hvort sem notandi er verkstjórnandi eða umsýsluaðili þá er eðlilegt að fylgt sé viðurkenndu verklagi varðandi starfsmannahald og mannauðsmál. Þetta þýðir til dæmis að verkstjórnandi og/eða umsýsluaðili stendur reglulega fyrir starfsmannasamtölum (tvisvar sinnum á ári) við þá sem veita aðstoðina. Sé starfsmannafjöldinn á bilinu tveir til fjórir eða fleiri er eðlilegt að samráðsfundir séu haldnir eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Vitaskuld ræðst fyrirkomulagið af aðstæðum hverju sinni. Séu mál komin í þann farveg að leiðir verði að skiljast þá taka við hefðbundin uppsagnarákvæði kjarasamninga. Notandinn getur leitað sér aðstoðar hjá sveitarfélagi og réttindagæslumanni ef hann er sjálfur umsýsluaðili en hjá umsýsluaðila ef hann sjálfur er með samning við umsýsluaðila.

Á þeim námskeiðum sem beint er að aðstoðarfólki verður áhersla á fjölmörg atriði, en þar má nefna hugmyndafræði sem liggur að baki NPA, siðfræði, lög og reglur um þjónustu við fatlað fólk, verkstjórahlutverkið, að vera atvinnurekandi, vinnulöggjöfina, að ráða starfsfólk, starfsmannaviðtöl og árekstralausn svo eitthvað sé talið.

Verkefnisstjórn um NPA stendur nú fyrir fyrirlestraröð víðsvegar um landið þar sem sérstaklega er farið yfir sjónarhorn notenda varðandi framkvæmd NPA. Gert er ráð fyrir því að fleiri námskeið fylgi í kjölfarið á næstu mánuðum. Frekari upplýsingar um fyrrgreinda fyrirlestraröð er að finna á heimasíðu NPA miðstöðvarinnar http://www.npa.is/ og heimasíðu velferðarráðuneytisins http://vel.is/npa

Notandi NPA getur í raun hvenær sem er óskað eftir endurskoðun á því mati sem síðast var gert. Þá leitar hann til þess þjónustuaðila/ráðgjafa sem hefur haft með mál hans að gera hjá sveitarfélaginu og óskar endurmats.
Það fer eftir aðstæðum hvort faglegt endurmat á aðstoð/þjónustu feli í sér formlega stjórnvaldsákvörðun af hálfu félagsmálanefndar eða annars aðila innan sveitarfélags. Ef slík ákvörðun er tekin getur notandi beint kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 1. mgr. 63 gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga og óskað eftir endurskoðun á atriðum sem hann er ósáttur við.

Umsýsluaðilar sem taka að sér að starfrækja NPA fyrir einn notanda eða fleiri gætu notað hluta þeirrar fjárhæðar sem ætlaður er til umsýslu aðstoðarinnar til þess að veita jafningjaráðgjöf. Ráðgjöf af þessu tagi er veigamikill þáttur í þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki NPA. Jafnframt getur notandi leitað til réttindagæslumanna og óskað eftir stuðningi til þess að tilnefna persónulegan talsmann skv. reglum þar að lútandi.

Vísað er til ákvæða í 14. kafla samstarfssamnings umsýsluaðila og notenda. Megi rekja skaðann til gáleysis getur notandi farið fram á bætur, sbr. ákvæði 16.4. Sveitarfélagið getur síðan krafist bóta fyrir fjárhagslegt tjón vegna vanefnda sem rekja má til gáleysis af hálfu umsýsluaðila.

Sveitarfélag skal leitast við að koma í veg fyrir og takmarka afleiðingar tjóns vegna umsýsluaðila.

Sé unnt að rekja hluta vanefnda til aðstæðna hjá sveitarfélagi eða ef það ber, vegna gáleysis, meðábyrgð á fjárhagslegu tjóni, skal dregið úr ábyrgð umsýsluaðila í samræmi við það.

Móttaka fjármagnsins getur verið með tvennum hætti:

  1. Þegar notandi hefur náð samkomulagi við umsýsluaðila sem getur verið fyrirtæki eða fyrirtæki í eigu notenda þá fær hann (umsýsluaðilinn) fjármagnið í hendur.
  2. Þegar notandi hefur náð samkomulagi við sveitarfélag eða þjónustusvæði um að hann sjálfur verði umsýsluaðili þá fær hann fjármagnið í hendur í samræmi við samning þar að lútandi.

Í raun skiptir ekki máli hvort notandi NPA stundi nám eða vinnu í öðru sveitarfélagi því réttur hans til aðstoðar er bundinn því hvar notandinn er skráður til lögheimilis. Engar skorður eru settar gagnvart því hvar notandi nýtir þá aðstoð sem hann hefur aðgang að. Ástæða er þó til að benda á að reglur sveitarfélaga geta verið eitthvað mismunandi og því brýnt að notandi leiti samráðs við fulltrúa þess sveitarfélags sem viðkomandi hefur verið í tengslum við varðandi úthlutun vinnustunda.

Greiðsluaðilar eru tveir. Annars vegar sveitarfélagið/þjónustusvæðið þar sem notandi er skráður með lögheimili sem getur greitt 80% af þeim kostnaði sem samið hefur verið um. Hins vegar ríkissjóður sem getur greitt 20% af þeim heildarkostnaði sem samið hefur verið um. Athygli er vakin á því að sveitarfélag getur tekið ákvörðun um að greiða NPA samning að fullu án þátttöku ríkisins. Þetta fyrirkomulag sem hér er lýst gildir á tilraunatímabili NPA verkefnisins en því lýkur í árslok 2013.

Kostnaðarviðmið fyrir hverja vinnustund er nú 2.800 kr. Samkvæmt Handbók um NPA þá skal 85% þeirrar fjárhæðar ganga til launa aðstoðarfólks. 5% fjárhæðarinnar eru notuð til að greiða fyrir þann kostnað sem fylgir því að aðstoðarmaður fylgir notanda hvar sem er í lífi og starfi (til dæmis greiðsla fyrir ferðakostnað aðstoðarmanna). 10% fjárhæðarinnar eru síðan ætluð í umsýslukostnað en þar er um að ræða kostnað sem fylgir þjálfun starfsmanna, auglýsingum eftir nýjum, skipulagsvinnu ýmiss konar o.s.frv.

Ein af grunnreglum NPA er að notandi sjálfur ráði því hver sé ráðinn til þess að aðstoða hann. Ef notandi er sjálfur umsýsluaðili þá auglýsir hann sjálfur eftir starfsfólki og ræður það. Ef notandi hefur gert samning við umsýsluaðila um að annast NPA aðstoðina fyrir sig þá auglýsir umsýsluaðilinn eftir aðstoðarmanni í samráði við notanda sem ræður starfsmann í samráði við notanda.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga gerði samning um fyrstu námskeiðin við NPA miðstöðina en gera má ráð fyrir því að fleiri aðilar geti eftir eðli og ástæðum komið að námskeiðshaldi.

Áður en sótt er um NPA þarf að liggja fyrir að NPA sé valkostur í því sveitarfélagi sem umsækjandi á lögheimili.

Sé valkosturinn fyrir hendi og standi vilji notanda til þess að leita eftir NPA-samningi eru skrefin í grundvallaratriðum þessi:

  1. Notandi leggur inn umsókn hjá sveitarfélagi. Umsóknareyðublað skal vera aðgengilegt á vef viðkomandi sveitarfélags og er auk þess á heimasíðu velferðarráðuneytisins.
  2. Sveitarfélag metur stuðningsþörf í samvinnu við umsækjanda.
  3. Sveitarfélag og umsækjandi ná samkomulagi um fjölda vinnustunda sem verða til ráðstöfunar fyrir umsækjanda. Hver vinnustund er metin á 2.800 kr.
  4. Á grundvelli þess fjölda vinnustunda gerir umsækjandi samstarfssamning og einstaklingssamning við sveitarfélagið ef hann kýs að sjá um umsýslu sjálfur, en við sjálfstæðan aðila sem gert hefur samstarfssamning við sveitarfélagið ef hann kýs að úthýsa umsýslunni til slíks aðila. Greiðslur geta þá hafist eftir að samkomulag hefur verið undirritað milli aðila. Leit að aðstoðarfólki hefst.
  5. Aðstoðarfólk er ráðið. NPA-þjónustan er hafin.

Meðalkostnaður fyrir hverja vinnustund í NPA er 2.800 kr. Af þessari fjárhæð er gert ráð fyrir því að verkstjórnandi eða umsýsluaðili noti 5% þessarar fjárhæðar til að mæta kostnaði vegna aðstoðarmanna sem hlýst af því að aðstoðarmaður fylgir notanda í lífi og starfi.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga gerði nýlega samning við NPA miðstöðina um námskeiðshald sem sérstaklega var ætlað notendum NPA. Þegar þetta er skrifað hafði miðstöðin haldið námskeið á þremur stöðum á landinu. Gert er ráð fyrir því að námskeið verði haldin á öllum þjónustusvæðum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu NPA hjá velferðarráðuneytinu http://vel.is/npa

Á áætlun verkefnisstjórnar er að bjóða upp á sérstök námskeið fyrir aðstoðarfólk sem starfar við NPA

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira