Hoppa yfir valmynd

Fyrirlesarar, þátttakendur í pallborðum og fundarstjóri

Silja Bára Ómarsdóttir   Dr. Silja Bára Ómarsdóttir er dósent í alþjóðasamskiptum við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún stundar rannsóknir á utanríkis- og öryggismálum Íslands, femínískum alþjóðasamskiptum, og kyn- og frjósemisréttindum í alþjóðlegum samanburði. Silja Bára var skipuð formaður Jafnréttisráðs 2019. Hún situr einnig í stjórn Rauða kross Íslands og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.  
Hildur Knútsdóttir   Hildur Knútsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1984. Hún skrifar fyrir bæði börn og fullorðna. Verk hennar hafa hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar, þeirra á meðal Fjöruverðlaunin – Bókmenntaverðlaun kvenna, Íslensku bókmenntaverðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar. Hildur er femínisti og virk í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Þórir Guðmundsson   Þórir Guðmundsson er ritstjóri frétta á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni. Hann er með BA gráðu í fjölmiðlafræði frá Kansas háskóla og MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Boston háskóla, var upplýsingafulltrúi Alþjóða Rauða krossins í Mið-Asíu og Asíu- og Kyrrahafslöndum auk þess að búa og starfa sem fréttamaður í Bandaríkjunum, Brussel og Austur-Evrópu. Þá stýrði hann um árabil hjálpar- og mannúðarsviði Rauða krossins á Íslandi og síðar Reykjavíkurdeild Rauða krossins.  
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir   Ásdís Hlökk er forstjóri Skipulagsstofnunar. Hún er M.Phil. í skipulagsfræði frá Háskólanum í Reading í Bretlandi og hefur starfað að skipulagsmálum og umhverfismati á ólíkum vettvangi – innan stjórnsýslunnar, sem ráðgjafi og við kennslu og rannsóknir, m.a. með áherslu á þátttöku almennings, sjálfbærni og loftslagsmál.
Eggert Benedikt Guðmundsson   Eggert Benedikt Guðmundsson er forstöðumaður Grænvangs, sem er samstarfsvettvangur um loftslagsmál og grænar lausnir.  Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, sem og að vinna með íslenskum fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði.
 Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir   Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir er aktívisti og nýstúdent sem hefur látið sig varða umhverfis- og jafnréttismál á Íslandi. Hún var formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema og stofnaði loftslagsverkföllin til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda. Hún hefur talað fyrir nýjum hugmyndum og framtíðarhugsun í loftslagsmálum, t.d. á borgarafundi Kastljóss og með greinarskrifum. 
Achola Otieno   Achola Otieno er fædd og uppalin í Nairobi, Kenía. Hún starfaði m.a. við flóttamannahjálp hjá UNHCR í Kakuma og þar kviknaði áhugi hennar á jafnrétti, mannréttindum og mannúðarmálum.  Hún hefur búið á Íslandi siðan 2010 og hefur nýlokið MA námi í alþjóðasamskiptum og er í sjórn W.O.M.E.N., samtökum kvenna af erlendum uppruna. Achola er feministi með sérstarkri áherslu á intersectionality (margþætt mismunun).
Sigríður Víðis Jónsdóttir   Sigríður Víðis Jónsdóttir starfar sem sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Áður hefur hún meðal annars verið aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra, gegnt stöðu upplýsingafulltrúa og kynningarstjóra hjá UNICEF á Íslandi og unnið sem blaðamaður. Árið 2011 skrifaði hún verðlaunabókina „Ríkisfang: Ekkert“ um hóp palestínskra kvenna og barna sem flúðu Írak og enduðu á Akranesi.
Lilja Dögg Jónsdóttir   Lilja Dögg Jónsdóttir er einn höfunda skýrslunnar Ísland og fjórða iðnbyltingin og hefur hún undanfarið starfað með ríkisstjórninni við mótun aðgerðaráætlunar fyrir Ísland í fjórðu iðnbyltingunni. Hún er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og MBA frá Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Lilja Dögg er búsett í Boston þar sem hún hefur á síðustu árum meðal annars starfað við sprotafjárfestingar hjá viðskiptahraðli og sem aðstoðarframkvæmdarstjóri hugbúnaðarfyrirtækis sem fer með vinnumarkaðsgögn.
Drífa Snædal   Drífa Snædal var kjörin forseti ASÍ haustið 2018 en áður var hún framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Hún er menntuð í vinnumarkaðsfræði með áherslu á vinnurétt og hefur áður starfað sem framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs auk þess að stýra Samtökum um kvennaathvarf.
Bjarni Herrera Þórisson   Bjarni Herrera Þórisson er framkvæmdastjóri CIRCULAR Solutions, sjálfbærniráðgjafar sem hefur verið leiðandi á Íslandi og m.a. hjálpað að tengja fjármálamarkaði og loftslagsbreytingar. Hann er með grunnpróf í lögfræði og MBA gráðu frá Austur Asíu. Hann hefur starfað í fjármálageiranum á Íslandi til sjö ára og bjó í fjögur ár í Asíu (m.a. í S-Kóreu og Singapore) við nám og stjórnunarstörf fyrir alþjóðlegt fyrirtæki. 
Einar Freyr Elínarson   Einar Freyr Elínarson er búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Hann rekur ásamt fjölskyldu sinni gistiheimili og sauðfjárbú í Sólheimahjáleigu. Einar Freyr er oddviti Mýrdalshrepps, fyrrv. varaþingmaður og fyrrverandi formaður ungra bænda. Einar á einnig sæti í stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins
Smári McCarthy   Smári McCarthy er Alþingismaður Suðurkjördæmis síðan 2016 (Píratar). Stúdentspróf FÍV 2004. Stundaði nám í stærðfræði við HÍ 2005–2007. Í stjórn IMMI 2013–2016. Formaður Evrópskra Pírata 2015–2017. Í samráðsnefnd um veiðigjöld síðan 2018. Formaður Pírata síðan 2019.
Halla Gunnarsdóttir   Halla Gunnarsdóttir er ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Hún starfaði áður sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra og þingfréttaritari Morgunblaðsins. Halla er jafnframt einn af stofnendum Women‘sEquality Party, bresks kvennalista og starfaði fyrir hreyfinguna í London.
Finnur Dellsén   Dr. Finnur Dellsén er dósent í heimspeki við Háskóla Íslands og prófessor II við Inland Norway University of Applied Sciences. Rannsóknir Finns eru á sviði vísindaheimspeki, þekkingarfræði og rökfræði en nýlega hefur hann meðal annars fengist við spurningar sem lúta að hlutdrægni og fordómum í vísindum og trausti almennings á vísindum, þar á meðal loftslagsvísindum. Finnur hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir rannsóknir sínar, nú síðast Nils Klim-verðlaun Holberg-stofnunarinnar og Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs.
Jón Gunnar Ólafsson   Dr. Jón Gunnar Ólafsson er aðjúnkt í fjölmiðlafræði við Lundúnarháskóla og starfandi forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Rannsóknir hans einblína á hvernig fjölmiðlar fjalla um stjórnmál og hvernig tilkoma samfélagsmiðlamiðla hefur haft áhrif á stjórnmálin sjálf og umfjöllun um þau. Þessu tengt hefur Jón Gunnar nýverið beint sjónum að falsfréttum og stafrænu fjölmiðlalæsi í rannsóknum sínum. Hann hefur hlotið fjölda styrkja og var doktorsrannsókn hans fjármögnuð af Economic and Social Research Council í Bretlandi.
Auður H. Ingólfsdóttir   Dr. Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi og framkvæmdastjóri Transformia, sjálfefling og samfélagsábyrgð. Hún hefur starfað sem blaðamaður, við rannsóknir og ráðgjöf, auk þess að kenna á háskólastigi í rúma tvo áratugi. Alþjóðamál, feminismi, umhverfismál, sjálfbærni og samfélagsábyrgð eru hennar hjartans mál og skrifaði hún m.a. doktorsritgerð um loftslagsbreytingar þar sem hún beitti femíniskum kenningum við að greina stefnumörkun í loftslagsmálum.
Freyja Haraldsdóttir,   Freyja Haraldsdóttir er með BA gráðu í þroskaþjálfafræði og MA gráðu í kynjafræði frá Háskóla Íslands. Hún er aðjúnkt við þroskaþjálfafræðideild Háskóla Íslands og hefur komið að kennslu í fötlunarfræði, þroskaþjálfafræði, kynjafræði, leikskólakennarafræði, hjúkrunarfræði og sérkennslufræði við skólann síðasta áratuginn. Freyja er doktorsnemi í menntunarfræðum þar sem hún rannsakar fötlun og móðurhlutverkið og hefur komið að rannsóknum sem snúa einkum að fötlun, kyngervi, ofbeldi og notendastýrðri persónulegri aðstoð. Freyja er einnig talskona Tabú sem er feminísk fötlunarhreyfing.
Jóna Þórey Pétursdóttir   Jóna Þórey Pétursdóttir er forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hún útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá HÍ vorið 2018 og er nú í námshléi frá meistaranámi í lögfræði til að sinna starfi forseta SHÍ. Meðfram námi sinnti Jóna aðstoðarkennslu við lagadeild og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hönd stúdenta við HÍ. Stúdentaráð hefur meðal annarra félaga staðið að skipulagningu loftslagsverkfallanna á Íslandi en verkfallið hlaut viðurkenningu samviskusendiherra Amnesty 2019 og nafnbótina Maður ársins hjá Stöð 2, Vísi og Bylgjunni.
Karen Björg Þorsteinsdóttir   Karen Björg Þorsteinsdóttir er fædd og uppalin á Grenivík. Hún er með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og er tískuspekingur Rúv Núll og hefur þar fjallað mikið um umhverfisvæna tískustrauma. Hún er uppistandari og treður upp í Þjóðleikhúskjallaranum með uppistandshópnum Bara Góðar um þessar mundir. 
Eydís Blöndal   Eydís Blöndal fæddist árið 1994 í Reykjavík. Hún hefur verið virk í feminískri umræðu í nokkur ár og í seinni tíð hefur hún sömuleiðis látið í sér heyra á vettvangi umhverfis- og veganaktívisma. Eydís útskrifaðist með BA gráðu í heimspeki úr Háskóla Íslands seinasta vor, hefur gefið út tvær ljóðabækur og starfar nú hjá „veganasta“ fyrirtæki landsins; Jömm.
Aðalbjörg Egilsdóttir   Aðalbjörg Egilsdóttir er nýútskrifaður líffræðingur og situr í Stúdentaráði Háskóla Íslands. Hún hefur verið virk í baráttunni fyrir auknum aðgerðum í loftslagsmálum en situr sem forseti umhverfis- og samgöngunefndar SHÍ auk þess sem hún er ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála. Aðalbjörg starfar við Náttúrustofu Vesturlands þar sem hún vinnur að umhverfisfræðslu fyrir skóla og var fulltrúi ungs fólks á loftslagsráðstefnu SÞ í Madríd í desember 2019.

Jafnréttisþing 2020

Síðast uppfært: 23.1.2020
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum