Hoppa yfir valmynd

Alþjóðasamningar, þjóðréttarmál

Utanríkisráðuneytið fer með mál er varða samninga við önnur ríki og gerð þeirra og framkvæmd tiltekinna samninga, sbr. m.a. lög nr. 90/1994, 57/2000, 93/2008 og 58/2010. Þeir eru birtir í C-deild Stjórnartíðinda.

Efst á baugi

Líkt og undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á gerð upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga við erlend ríki til að koma í veg fyrir tvísköttun og skattaundanskot. Núlega var  gerður samningur á milli Íslands og Furstadæmisins Liechtenstein til að afnema tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir og til að koma í veg fyrir skattsvik og skattundanskot. Samningurinn öðlaðist gildi 14. desember 2016. Þá var staðfestur samningur milli Íslands og Lýðveldisins Austurríkis til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir, og öðlaðist samningurinn gildi 1. mars 2017. Þá var nokkrum fríverslunarsamningum, sem Ísland á aðild að, breytt á síðastliðnu misseri.

Fríverslunarsamningar milli EFTA-ríkjanna og Georgíu annars vegar og Filippseyja hins vegar voru undirritaðir á árinu 2016. Alþingi samþykkti þá þingsályktun um heimild til fullgildingar samningsins við Georgíu og tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samningsins við Filippseyjar hefur var lögð fram í apríl 2016 . Hinn 19. október 2016 var staðfestur samningur um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, og tók breytingin gildi 18. nóvember 2016. Þá var staðfestur samningur um breytingu á samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls með því að bæta nýrri 25. gr. a og nýrri bókun 6 við samninginn sem öðlaðist gildi 25. nóvember 2016. 

Þá fullgilti Ísland samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks 21. september 2016 og öðlaðist samningurinn gildi 23. október 2016. Ísland fullgilti Parísarsamning SÞ 20. september 2016 og öðlaðist samningurinn gildi 4. nóvember 2016. Parísarsamningurinn myndar ramma utan um skuldbindingar sem ríkin hafa sjálfviljug sett fram í því skyni að halda hitastigi jarðar vel undir 2°C. Samningurinn tók gildi eftir að 55 aðilar, sem eru ábyrgir fyrir 55% af útblæstri heimsins, höfðu fullgilt hann. Ísland afhenti fullgildingarskjal sitt 21. september 2016 í New York. Ísland fullgilti breytingar á Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn viðvíkjandi glæpum gegn friði 2. júní 2016 sem öðluðust gildi 17. júní 2016. Ísland staðfesti einnig viðbótarsamning við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Montenegro að Atlantshafsbandalaginu 8. júní 2016.

Ísland staðfesti bókun um breytingu á Marakesh-samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (e. World Trade Organization, WTO) þess efnis að fella viðauka við bókunina, sem er samningur um viðskiptaliprun (e. Trade Facilitation Agreement), inn í Marakesh-samninginn. Bókunin hefur ekki öðlast gildi þar sem tiltekinn lágmarksfjöldi ríkja hefur ekki staðfest hana. Þá var einnig staðfest samkomulag um breytingu á samningi milli Norðurlandanna um aðgang að æðri menntun, og öðlaðist hún gildi 10. desember 2016. Hinn 8. maí 2016 var samþykkt þingsályktunartillaga um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2016. Þá var staðfestur samningur milli Íslands og Kína um undanþágu fyrir handhafa diplómatískra vegabréfa frá vegabréfsáritun til stuttrar dvalar þann 4. apríl 2017.

Verið er að ljúka við fullgildingu á breytingum á samningi milli Norðurlandanna um stofnun norræns þróunarsjóðs fyrir vestnorrænu löndin. Samningurinn hefur þegar verið fullgiltur af öðrum Norðurlöndum og undirritaður af Íslands hálfu. Einnig er verið að ljúka við fullgildingu á viðbótarbókun við Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga, um rétt til þátttöku í málefnum sveitarstjórna. Þá stendur til að undirrita og fullgilda viðauka nr. IV og VI við alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum (MARPOL-samningurinn). Einnig hefur verið undirritaður tvíhliða samningur við Bandaríkin um almannatryggingar sem ráðgert er að staðfesta á næstunni. Enn fremur liggur fyrir að ljúka við fullgildingu samningsviðauka 15 við mannréttinda­sáttmála Evrópu og evrópsku handtökuskipunarinnar. 

Þá vinna utanríkisráðuneytið og önnur ráðuneyti að ýmsum samningum við erlend ríki sem geta komið til staðfestingar eða fullgildingar á árinu. Til dæmis má nefna upplýsingaskiptasamning við Sameinuðu arabísku furstadæmin, loftferðasamninga, tvísköttunarsamninga, fríverslunarsamninga og upplýsingaskiptasamninga. Þá má einnig gera fastlega ráð fyrir að staðfestur verði samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu vegna ársins 2017 á árinu.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira