Hoppa yfir valmynd

EES-verkefni um sagnfræðirannsóknir

 

Með aðstoð frá Háskóla Íslands hefur hin munnlega saga Rómafólks í Rúmeníu loksins verið skrásett

Rannsakandi ræðir við RómanfólkRómafólk í Rúmeníu á sér mjög ríka sögu sem hefur borist munnlega manna á milli í áratugi. Hins vegar hefur lítið verið gert til þess að skrásetja hana á kerfisbundinn hátt. Almenningur hefur því litlar upplýsingar til þess að fræðast um fortíðina og þá sögu sem að Rómafólk deila með öðrum hópum samfélagsins. Þessi skortur á upplýsingum getur ýtt undir ranghugmyndir og leitt til fordóma gagnvart Rómafólki.

Babes-Bolyai Háskólinn í Cluj-Napoca í Rúmeníu og Háskóli Íslands tóku höndum saman og hófu að skrásetja sögu Rómafólks í Rúmeníu í gegnum verkefni styrkt af Uppbyggingarsjóði EES. Markmið verkefnisins var að auka þekkingu á sögu Rómafólks og draga þar með úr fordómum gagnvart þeim Rúmenska teymið sá um gagnasöfnunina og Háskóli Íslands aðstoðaði með sérþekkingu í aðferðafræði og sagnfræði, en sú vinna var leidd af sagnfræðingnum Guðmundi Hálfdánarsyni.

Teymið sendi út fréttatilkynningu í byrjun verkefnisins til þess að vekja athygli á starfinu. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og einkenndust mörg hver af fordómum: „Margar af athugasemdunum sem að við fengum á netinu mætti hreinlega telja sem hatursorðaræðu. Þessi viðbrögð gerðu okkur ljóst að það væri mikil þörf fyrir verkefni sem þessu,“ segir Dr Lavinia Snejana Stan sem var í forsvari verkefnisins hjá Babes-Bolyai Háskólanum.

Varpa ljósi á fortíðina

Teymið ferðaðist um Rúmeníu með upptökutæki og myndavél og tók viðtöl við yfir 620 einstaklinga í þorpum vítt og breitt um landið. Viðtölin fjölluðu bæði um hversdagslífið og sögulega atburði, til að mynda þegar Rómafólk var vísað til Transnistriu auk hlutverks Rómafólks í rúmenska hernum í seinni heimsstyrjöldinni.  Frásagnirnar vörpuðu einnig ljósi á líf Rómafólks á tímum kommúnisma í Rúmeníu. Þar nefnir Dr. Stan t.d. tilskipun 153 sem gefin var út árið 1970 og hafði mikil áhrif á daglegt líf Rómafólks. „Samkvæmt tilskipuninni þurftu allir einstaklingar í Rúmeníu að stunda formlegt starf. Þetta þýddi að þeir einstaklingar sem stunduðu óformlega vinnu, t.d. með sölu hefðbundins handverks þurftu að fá leyfi frá stjórnvöldum til þess að selja vörurnar sínar“  segir Dr Stan. Hún bætir hins vegar við að samþykki stjórnvalda var mjög handahófskennt, sem gerði fólki erfitt að sjá fyrir sér:

„Einn viðmælendanna okkar fór til Búkarest með leyfi yfirvalda til þess að selja handverk sitt. Þegar þar var komið dró lögreglan leyfið til baka og vistaði hann í fangelsi fyrir brot á tilskipuninni.“

Horft til framtíðar

Rómanfólk á gangiVerkefnið hefur skilað af sér aukinni þekkingu á sögu Rómafólks, bæði í formi fjölda fræðigreina sem og gagnabanka af upptökum sem að fræðimenn, stjórnvöld og almenningur geta nýtt sér að vild. Teymið ítrekar að þekkingin er ekki eingöngu nytsamleg til þess að auka skilning á fortíðinni heldur gefur hún einnig innsýn í samfélög þeirra í dag, og getur sérstaklega nýst við opinbera stefnumótun í málefnum Rómafólks. Dr. Stan leggur áherslu á mikilvægi þess að taka tillits til sögu og menningu í stefnumótun, og þá sérstaklega gera sér grein fyrir því hvaða atriði samfélögin sjálf telja mikilvæg, „hér má til dæmis nefna tónlist og tónlistarkennslu sem spilar stórt hlutverk í sögu og menningu Rómafólks.“ segir Dr. Stan.

Mikil þátttaka í rannsóknarverkefnum

Verkefnið er eitt af rúmlega 300 verkefnum á sviði rannsókna og menntamála sem að íslenskir aðilar hafa tekið þátt í innan Evrópu á vegum Uppbygginarsjóðs EES.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum