Hoppa yfir valmynd

Skattaívilnanir

Lækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns

Við tilteknar aðstæður er heimilt að lækka tekjuskatts- og útsvarsstofn einstaklinga. Óska þarf eftir lækkun (ívilnun) í skattframtali og fylla út þar til gert umsóknareyðublað ríkisskattstjóra. Gera þarf grein fyrir aðstæðum og sýna fram á útlagðan kostnað. Sé umsókn ófullnægjandi eða nauðsynleg gögn fylgja ekki er umsókninni hafnað.

Heimild til lækkunar á einkum við vegna sérstakra áfalla, svo sem slysa eða veikinda, sérstakra útgjalda vegna þungrar framfærslu, en einnig ef maður verður fyrir verulegu óbættu eignatjóni eða tapar kröfum sem ekki stafa af atvinnurekstri.

Framfærandi sem hefur á sínu framfæri ungmenni 16-21 árs sem er í námi getur átt rétt á lækkun. Með námi í þessu sambandi er átt við nám sem ekki veitir rétt til námslána. Hámark ívilnunar er ákvarðað árlega og birt í framtalsleiðbeiningum einstaklinga. Við útreikninga á lækkun er jafnframt tekið mið af tekjum ungmennisins og ívilnun skert sem nemur þriðjungi af tekjum þess.

Frádráttur erlendra sérfræðinga frá tekjum

Erlendir sérfræðingar sem ráðnir eru til starfa hér á landi geta átt rétt á 25% frádrætti frá tekjum sínum fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf. Sækja skal skriflega um frádrátt til sérstakrar nefndar á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem meta skal hvort erlendir sérfræðingar uppfylli nánari skilyrði tekjuskattslaga til frádráttar frá tekjum

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Í gildi eru lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og er markmið þeirra laga að efla bæði rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni, að vissum skilyrðum uppfylltum. Frádrátturinn miðast við 20% af útlögðum kostnaði vegna nýsköpunarverkefnis sem hefur fengið staðfestingu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís), þó að hámarki 600 m.kr. á ári eða 900 m.kr. ef um aðkeypta rannsóknar eða þróunarvinnu er að ræða. Ef álagður tekjuskattur er lægri en ákvarðaður frádráttur, eða ef ekki er ákvarðaður tekjuskattur, er frádrátturinn greiddur út til viðkomandi fyrirtækis.

Skattívilnanir (skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa)

Samkvæmt lögum um tekjuskatt geta einstaklingar sem bera takmarkaða og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og sem fjárfesta í félögum sem uppfylla ákveðin skilyrði, dregið frá tekjuskattstofni sínum að viðbættum fjármagnstekjum 50% af fjárfestingunni á hverju ári. Frádráttarheimildin gildir um fjárfestingu á almanaksárunum 2016 – 2021 og er frádrátturinn ákvarðaður við álagningu opinberra gjalda á árunum 2017 – 2022. Markmiðið með þessum skattfrádrætti er að stuðla að nýsköpun og fjölgun starfa með því að hvetja fjárfesta, sem stunda fjárfestingar í nokkrum mæli, að leggja fyrirtækjum í vexti til nýtt hlutafé.

Síðast uppfært: 8.9.2021 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum