Hoppa yfir valmynd

Alþjóðadómstólar

Alþjóðadómstólar gegna mikilvægu hlutverki í því að leysa úr ágreiningi milli ríkja. Í sumum tilfellum getur alþjóðadómstóll tekið fyrir málefni einkaaðila. Að neðan er yfirlit yfir helstu alþjóðadómstóla.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (International Criminal Court - ICC), sem byggir á svokallaðri Rómarsamþykkt, er fyrsti varanlegi alþjóðlegi sakamáladómstóllinn sem stofnaður hefur verið til þess að taka á alvarlegum brotum sem varða alþjóðasamfélagið.

ICC er sjálfstæð alþjóðastofnun sem er ekki hluti af Sameinuðu þjóðunum. Aðalstöðvar eru í Haag í Hollandi. Dómstóllinn er fjármagnaður bæði af aðildarríkjum stofnsamningsins og frjálsum framlögum frá ríkjum, alþjóðastofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum aðilum.

Alþjóðasamfélagið hefur lengi viljað skapa varanlegan sakamáladómstól. Það náði samkomulagi á 20. öld um skilgreiningar á þjóðarmorði, brotum gegn mannkyni og stríðsglæpum. Nürnberg- og Tókýó-dómstólarnir fjölluðu um slík brot. Á 10. áratug síðustu aldar, eftir lok Kalda stríðsins, voru stofnaðir Alþjóðlegir sakamáladómstólar fyrir fyrrum Júgóslavíu og fyrir Rúanda, en umboð þeirra var bundið við tiltekið tímabil og tiltekin stríð. Sú skoðun varð ofan á að stofna þyrfti varanlegan sakamáladómstól. 

Hinn 17. júlí 1998 náðist samkomulag 120 ríkja um Rómarsamþykktina, stofnskjal Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Hún tók gildi 1. júlí 2002 þegar 60 ríki höfðu fullgilt hana. Ísland varð tíunda ríkið til þess að fullgilda samþykktina. 

Aðildarríkjum Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn hefur fjölgað að undanförnu og voru þau 114 talsins 15. mars 2011. 

Endurskoðunarráðstefna Rómarsamþykktarinnar var haldin í Kampala, Úganda í júní 2010.  Um eitt hundrað aðildarríki sóttu ráðstefnuna, auk fjölda félagasamtaka, en fulltrúar á ráðstefnunni voru samtals um 4600. Markverðasta niðurstaða ráðstefnunnar var án efa sú að samkomulag varð um breytingu á samningnum, sem gerir dómstólnum kleift að lögsækja einstaklinga fyrir árásarglæpi eða glæpi gegn friði (e. crimes of aggression). Lögsaga dómstólsins að því er árásarglæpi varðar kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2017 og því aðeins að 30 aðildarríki hafi þá fullgilt breytinguna. Ríki sem ekki eru aðilar að Rómarsamþykktinni eru undanþegin lögsögu dómstólsins vegna þessara glæpa, en njóta heldur ekki verndar samningsins ef á þau er ráðist.

Samkvæmt niðurstöðu Kampala-ráðstefnunnar getur öryggisráð SÞ ákveðið, með vísan til VII. kafla stofnsáttmála SÞ, að vísa tilvikum þar sem einstaklingar eru taldir hafa gerst sekir um árásarglæp til Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Sé talið að glæpur af þessu tagi hafi átt sér stað, en öryggisráðið kýs að aðhafast ekki, getur saksóknari leitað heimildar dómstólsins til að hefja rannsókn. Óski öryggisráðið að koma í veg fyrir að rannsóknin nái fram að ganga getur það hins vegar stöðvað hana í krafti skuldbindandi ályktunar. Slík málamiðlun var nauðsynleg til þess að ríki með föst sæti í öryggisráðinu, þ.á m. ríki sem ekki hafa gerst aðilar að Rómarsamþykktinni, gætu fallist á niðurstöðuna.

Efst á baugi

Ísland hefur frá upphafi verið meðal dyggustu stuðningsríkja Alþjóðlega sakamáladómstólsins og þeirra gilda sem hann stendur fyrir. Slíkur stuðningur hefur trúlega aldrei verið mikilvægari en nú, því að undanförnu hafa blikur verið á lofti í tengslum við starf dómstólsins. Hópur Afríkuríkja hefur verið mjög gagnrýninn á dómstólinn og starf hans. Þrjú Afríkuríki drógu m.a. aðild sína að dómstólnum nýverið til baka (eitt þeirra sneri þeirri ákvörðun síðar við), og Afríkusambandið kallaði á ársfundi sínum í febrúar 2017 eftir hópúrsögnum aðildarríkja sinna frá dómstólnum. Rússland hefur einnig verið gagnrýnið á dómstólinn vegna afstöðu saksóknara hans til átakanna á Krímskaga. Á aðildarríkjaráðstefnu dómstólsins í desember 2018 var ákveðið að virkja viðbótarlögsögu dómstólsins vegna glæpa gegn friði (e. Crime of Aggression) á 20 ára afmæli dómstólsins hinn 17. júlí 2018. Ísland er eitt þeirra 30 ríkja sem hefur fullgilt svokallaðar Kampala-breytingar sem viðbótarlögsagan byggir á. Ísland, líkt og önnur vinaríki dómstólsins, mun áfram styðja dómstólinn á allan hátt sem kostur er og leitast við að auka þátttöku sína í starfsemi dómstólsins.

Ítarefni

Listi yfir helstu alþjóðadómstóla

Heiti  Valdsvið  Starfandi  Efni
Alþjóðadómstóllinn í Haag
International Court of Justice
Hnattrænt 1945– General disputes
Alþjóðagerðardómurinn í Haag
Permanent Court of Arbitration, The Hague
Hnattrænt 1899-
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn
International Criminal Court
Hnattrænt 2002– Criminal prosecutions
Alþjóðadómstóllinn
Permanent Court of International Justice
Hnattrænt 1922–1946 General disputes
Áfrýjunarnefnd
Appellate Body
Hnattrænt 1995– Trade disputes within the WTO
Alþjóðlegi hafréttardómurinn
International Tribunal for the Law of the Sea
Hnattrænt 1994– Maritime disputes
Mannréttindadómstóll Evrópu
European Court of Human Rights
Evrópa 1959– Human rights
Evrópudómstóllinn
European Court of Justice
Evrópa 1952– Interpretation of EU law
EFTA-dómstóllinn
European Free Trade Association Court
Evrópa 1994– Interpretation of EFTA law
EES-dómstóllinn á fyrsta dómstigi
EEA Court of of First Instance
Evrópa

Kjarnorkudómstóll Evrópu
European Nuclear Energy Tribunal
Evrópa 1960– Nuclear energy disputes
Starfsmannadómstóll Evrópusambandsins
European Union Civil Service Tribunal
Evrópa 2005– Civil disputes
Alþjóðaherdómstóllinn
International Military Tribunal
Evrópa 1945–1946 Criminal prosecutions
Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu
International Criminal Tribunal for the former Yugoslavia
Fyrrum Júgóslavía 1993− t Criminal prosecutions
Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn fyrir Rúanda
International Criminal Tribunal for Rwanda
Rwanda 1994− Criminal prosecutions
Kerfi alþjóðlegra sakamáladómstóla
Mechanism for International Criminal Tribunals
Hnattrænt 2012− Criminal prosecutions
Sérstakur dómstóll fyrir Síerra Leone
Special Court for Sierra Leone
Síerra Leone 2002− Criminal prosecutions
Sérstakur dómstóll fyrir Líbanon
Special Tribunal for Lebanon
Líbanon 2009− Criminal prosecutions
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira