Tekjuskattur

Til skattskyldra tekna teljast, með þeim undantekningum og takmörkunum sem í lögum greinir, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru.

Skyldu til að greiða tekjuskatt, sem rennur í ríkissjóðs, og útsvar, sem fer til sveitarfélaga, bera allir þeir sem afla tekna á Íslandi. Þeir sem búsettir eru hér á landi bera fulla skattskyldu af tekjum sínum, en þeir sem búsettir eru erlendis og hafa héðan tekjur bera takmarkaða skattskyldu sem nær eingöngu til tekna sem þeir afla hér á landi.

Af tekjum einstaklinga utan rekstrar, aðrar en fjármagnstekjur, reiknast m.a. tekjuskattur og útsvar. Hundraðshluti útsvars er ákvarðaður af sveitarfélögum. Á álagningarseðli kemur fram sveitarfélag og hundraðshluti útsvars. Frá reiknuðum tekjuskatti og útsvari dregst persónuafsláttur. Tekjuskattur einstaklinga og útsvar er að miklu leyti innheimt strax við útborgun launa, þ.e. í staðgreiðslu, og er launagreiðandi ábyrgur fyrir að standa skil á þeim sköttum sem hann hefur þannig dregið af launum. Tekjuskattur einstaklinga er gerður upp við álagningu sem fram fer í lok júlí ár hvert vegna tekna ársins á undan.

Hlutföll og fjárhæðir

Tekjuskattshlutfall á árinu 2017 er 22,5% af tekjuskattsstofni að 10.016.488 kr. og 31,8% af tekjuskattsstofni frá 10.016.489 kr. Meðalútsvar á árinu 2017 samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarstjórna er 14,44%.

Sé tekjuskattsstofn annars samskattaðs aðila hærri en 10.016.488 kr. skal það sem umfram er skattlagt með 22,5% skatthlutfalli allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tekjuskattsstofn þess tekjulægri er undir 10.016.488 kr., þó reiknast 22,5% skatthlutfall aldrei af hærri fjárhæð en 5.008.244 kr. við þessar aðstæður.

Skattleysismörk á árinu 2017 eru 1.790.304 kr.

Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu á árinu 2017 er:

  • 36,94% af tekjum 0 – 10.016.488 kr.
  • 46,24% af tekjum yfir 10.016.488 kr.

Skatthlutfall barna, þ.e. þeirra sem fædd eru 2002 eða síðar, er 6% (4% tekjuskattur, 2% útsvar) af tekjum umfram frítekjumark barna sem er 180.000 kr.

Persónuafsláttur á árinu 2017 er:

  • Persónuafsláttur er 634.880 kr. á ári, eða 52.907 kr. á mánuði.

Heimilt er að nýta allan (100%) ónýttan persónuafslátt maka á árinu 2017.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn