Hoppa yfir valmynd

Upplýsingar um Covid-19

Stjórnvöld hafa frá því í mars 2020 sett fram mótvægisaðgerðir í nokkrum áföngum. Markmið þeirra er að verja grunnstoðir samfélagsins, t.d. í gegnum hlutastarfaleið og viðbótarlán, vernda þá hópa sem á þurfa að halda, m.a. með barnabótaauka og úttekt séreignarsparnaðar og veita viðspyrnu sem miðar að að því að styrkja ferðaþjónustu, greiða fyrir innflutningi, leggja í sérstakt fjárfestingaátak og fleira. Meðfylgjandi er yfirlit yfir helstu úrræði stjórnvalda.

FYRIRTÆKI

Lokunarstyrkir eru ætlaðir fyrirtækjum sem skylt var að loka eða stöðva starfsemi vegna samkomubanns á tímabilinu 24. mars til 3.maí 2020. Þetta á til dæmis við um hárgreiðslustofur, krár, líkamsræktarstöðvar, nuddstofur, sjúkraþjálfun, skemmtistaði, snyrtistofur, húðflúrstofur, söfn, spilasali, sundlaugar og tannlækna. Stjórnvöld veita þessum aðilum styrki til að bæta upp hluta tekjufalls og hjálpa þeim að standa undir föstum kostnaði sem fallið hefur til í rekstri þeirra.

Viðbótarlokunarstyrkir eru ætlaðir þeim sem var gert að hafa lokað lengur eða á tímabilinu 4. maí til 25. maí 2020.

Í október 2020 samþykkti ríkisstjórnin að leggja fyrir Alþingi breytingar á lögum sem tryggja framhald á lokunarstyrkjum til rekstraraðila sem gert er að sæta lokun á starfsemi eða stöðva hana frá 18. september 2020.

Sótt er um lokunarstyrk á vef Skattsins

Nánar:

Ríkisstjórnin samþykkti um miðjan október 2020 að leggja fram frumvarp á Alþingi um tekjufallsstyrki, sem ætlað að aðstoða einyrkja og litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi. Tekjufallsstyrkjum er m.a. ætlað að styðja minni rekstraraðila sem starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri.

Gert er ráð fyrir að frumvarp um tekjufallsstyrki verði lagt fram á Alþingi í október.  Verði það óbreytt að lögum mun Skatturinn sjá um afgreiðslu tekjufallsstyrkja.

Markmiðið er að styðja við fyrirtæki sem verða fyrir tímabundnu tekjufalli og lausafjárvanda vegna útbreiðslu kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda vegna faraldursins. Ábyrgðirnar eru liður í því að viðhalda sem hæstu atvinnustigi og halda fjölbreytni í atvinnulífi. Lán til einstaks fyrirtækis geta að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði árið 2019. Launakostnaður fyrirtækis verður að lágmarki hafa verið 25% af heildarrekstrarkostnaði þess árið 2019. Lán sem nýtur ábyrgðar getur hæst numið 1,2 milljörðum króna.

Sótt er um lánin hjá lánastofnunum

Nánar:

 

Markmið stuðningslána er að vinna gegn lausafjárvanda sem leitt gæti til uppsagna og enn frekari efnahagssamdráttar. Lánin nýtast minni aðilum sem orðið hafa fyrir miklum samdrætti, ekki síst í ferðaþjónustu. 

Sótt er um stuðningslán á Ísland.is 

Nánar:

Heimilt er að ráða atvinnuleitendur með styrk frá Vinnumálastofnun sem nemur 100% grunnatvinnuleysisbótum þegar atvinnuleitandi hefur verið á atvinnuleysisskrá í að minnsta kosti sex mánuði. Áður var það tímabil 12 mánuðir. Vinnuveitandi greiðir síðan mismun á launum og atvinnuleysisbótum úr eigin vasa.
Einnig er heimilt að ráða atvinnuleitendur sem hafa verið skemur en 6 mánuði á atvinnuleysisskrá og Vinnumálastofnun greiðir þá 50% af grunnatvinnuleysisbótum til vinnuveitenda, sem aftur greiðir mismun á launum og atvinnuleysisbótum úr eigin vasa. Áfram er skilyrði um þriggja mánaða skráningu án atvinnu hjá Vinnumálastofnun og er stofnuninni heimilt að greiða styrk með hverjum einstakling í sex mánuði.

Frekari upplýsingar um úrræðið er að finna á vef Vinnumálastofnunar 


Markmið aðgerðarinnar er að gera launagreiðendum kleift að fresta skilum á staðgreiðslu skatts og tryggingagjaldi á árinu 2020.

Aðgerðin var lögfest með lögum nr. 17/2020 og 25/2020, er breyttu lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald. Fyrrnefndu lögin heimiluðu frestun á skilum helmings fjárhæðar sem var á gjalddaga 1. mars um mánuð. Síðarnefndu lögin heimiluðu frestun á allt að þremur gjalddögum á tímabilinu 1. apríl-1. desember 2020 fram til 15. janúar 2021.

Sótt er um úrræðið hjá Skattinum.

Umsókn launagreiðanda um frestun skal hafa borist í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils skv. 1. mgr. 20. gr. á því formi sem Skatturinn ákveður.

 

 

Markmiðið er að gera fyrirtækjum sem sjá fram á tap árið 2020 en skiluðu hagnaði árið 2019 kleift að jafna saman hagnaði og tapi þessara tveggja ára, sem eykur laust fé fyrirtækja. Hámark þess skatts sem heimilt verður að fresta greiðslu á er 20 m.kr. en það samsvarar 100 m.kr. skattskyldum hagnaði lögaðila (skattstofni).

Tilkynna skal Skattinum um þá fjárhæð sem fyrirtæki kýs að fresta þegar álagning árið 2020 liggur fyrir og í síðasta lagi 15. nóvember nk. á því formi sem Skatturinn ákveður en gera má ráð fyrir að á þeim tíma ætti að vera ljóst hvort tap verði á yfirstandandi rekstrarári eða ekki.

Nánar:

Aðgerðin var lögfest með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efna­hagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru   sem samþykkt voru 11.05.2020 

Spurt og svarað um frestun skattgreiðslna 

Úrræðið felur í sér fjárstuðning úr ríkissjóði til að standa undir greiðslu á hluta launakostnaðar atvinnurekenda á uppsagnarfresti launþega. Markmiðið er að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og styrkja réttindi launamanna sem sagt er upp störfum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstri og orsakir þeirra eru raktar beint eða óbeint til ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem að öðru leyti hafa skapast vegna faraldurs kórónuveiru.Úrræðið tekur til þeirra atvinnurekenda sem hófu starfsemi fyrir 1. desember 2019 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á Íslandi. Það gildir ekki um stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að umsókn skuli skila mánaðarlega fyrir næstliðið launatímabil og eigi síðar en 20. hvers mánaðar.

Skatturinn sér um framkvæmd úrræðisins. Á vefnum Ísland.is verða nánari upplýsingar um umsóknarferlið.

Nánar:

Spurt og svarað um stuðning við greiðslu hluta launakostnðar á uppsagnarfresti launþega


Til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu hefur verið settur á fót Matvælasjóður.
Matvælasjóður hefur það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu um land allt. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum.
Markmið sjóðsins er að ná til verkefna á öllum stigum, allt frá hugmyndum til markaðssetningar og hagnýtra rannsókna.
Til stofnunar sjóðsins er varið 500 m.kr. sem verður úthlutað á þessu ári. Við úthlutun þeirra fjármuna en einnig við frekari stefnumótun fyrir hinn nýja sjóð verður þess gætt að skipting fjármagns til landbúnaðar og sjávarútvegs verði með sambærilegum hætti og verið hefur.

Nánar:
Umsóknarfrestur er til og með 21. september 2020. Nánar um sjóðinn á matvælasjóður.is


Lagt er til nýtt úrræði um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja. Auk þess eru lagðar til varanlegar breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. þess efnis að nauðasamningur geti einnig náð til samningsveðkrafna. Verði frumvarpið að lögum munu atvinnufyrirtæki geta nýtt sér úrræðið og komist í greiðsluskjól í allt að eitt ár. Á þeim tíma verður ekki komið fram vanefndaúrræðum auk þess sem greiðslur munu ekki fara fram á gjalddögum krafna.

Stafræn gjafabréf að fjárhæð 5.000 kr. til Íslendinga til að verja í ferðaþjónustu innanlands, eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að veita efnahagslífinu, og einkum ferðaþjónustunni, viðspyrnu.

Ferðamálastofa og Stafrænt Ísland eru framkvæmdaaðilar og er hægt að sækja Ferðagjöfina á Ísland.is 

Allt að 1.500 milljónum kr. verður varið í átakið. Fyrirtæki í ferðaþjónustutengdum rekstri geta skráð sig til þátttöku, þ.m.t. hótel og gistiheimili, afþreyingarfyrirtæki, bílaleigur og veitingastaðir. Söfn og fyrirtæki sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru geta einnig skráð sig til þátttöku. Afmörkun fyrirtækja byggir að meginstefnu til á útgáfu nánar tilgreindra opinberra leyfa og að þau séu með starfsstöð á Íslandi.

 

Alþjóðlegt markaðsverkefni í þágu íslenskrar ferðaþjónustu er hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins. Verkefnið er starfrækt á völdum erlendum mörkuðum. Markmið þess er að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina. Verkefnið er unnið í samræmi við framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 sem ber yfirskriftina „Leiðandi í sjálfbærri þróun“ og langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning. Verkefnið var boðið út í samræmi við ákvæði laga og reglna þar að lútandi. Alþjóðlega auglýsingastofan M&C Saatchi og íslenska auglýsingastofan Peel urðu hlutskörpust og stýra stefnumörkun, hugmyndavinnu, almannatengslum, hönnun og framleiðslu markaðsefnis fyrir verkefnið en Íslandsstofa sér um framkvæmd þess.


Gistináttaskattur hefur verið afnuminn út næsta ár, til ársloka 2021, en frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi í lok mars. Auk þess var gjalddagi gistináttaskatts sem búið var að innheimta í janúar til apríl 2020 færður til 5. febrúar 2022.
Þær breytingar voru gerðar á tollögum að gjalddagi aðflutningsgjalda hjá þeim fyrirtækjum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember, á árinu 2020 var lengdur um 20 daga og er því nú fimmti dagur annars mánaðar eftir lok hvers tveggja mánaða uppgjörstímabils í stað 15. dag næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

Á sama tíma var gerð breyting á lögum um virðisaukaskatt þannig að heimilt er að færa virðisaukaskatt viðkomandi uppgjörstímabila vegna tollafgreiðslu til innskatts eftir almennum reglum virðisaukaskattslaga þrátt fyrir að gjaldföllnum virðisaukaskatti sem legst á við tollafgreiðslu hafi á þeim tíma ekki verið skilað. Af breytingunni leiðir að gjalddagi virðisaukaskatts í tolli vegna innflutnings og gjalddagi virðisaukaskatts af viðskiptum innan lands vegna sama uppgjörstímabils mætast.

Sé innskattur hærri en útskattur þannig að gjaldandi eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts verður unnt að skuldajafna henni á móti gjaldföllnum virðisaukaskatti í tolli vegna innflutnings. Þó skal áréttað að breytingunni er ekki ætlað að breyta forgangsröðun skatta og gjalda, sbr. reglur nr. 797/2016, um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda.


Sprota og nýsköpunarsjóðurinn Kría verður settur á laggirnar og framlögum í sjóðinn flýtt. Sjóðurinn hefur það hlutverk að fjárfesta í öðrum sérhæfðum sjóðum sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, svokölluðum vísisjóðum eða venture capital sjóðum. Markmið með Kríu er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

Framlag til Kríu sprota og nýsköpunarsjóðs verður allt að 650 milljónum króna á þessu ári, að því gefnu að fjárfestingasjóðir sæki um mótframlag til stjórnvalda. 

Nánar:

Skipuð verður sérstök stjórn um Kríu sprota- og nýsköpunarsjóð.

Unnið er að reglugerð um sjóðinn sem og starfsreglur stjórnar.

Frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum var samþykkt á Alþingi sumarið 2020. 

 


Mótframlag til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum undir nafninu Stuðnings-Kría. Um er að ræða fjárfestingu í formi láns með vöxtum og breytirétti í samvinnu við fjárfesta.

Þessari aðgerð er ætlað að vera tímabundinn stuðningur við bæði sprotafyrirtæki og fjárfesta í því ótrygga ástandi sem nú ríkir á árinu 2020 og að sama skapi nýtast sem upptaktur að þeirri auknu samvinnu stjórnvalda og fjárfesta sem stefnt er að með Kríu sprota- og nýsköpunarsjóði. 

Nánar:

Frumvarp til laga um stuðnings- Kríu var samþykkt á Alþingi sumarið 2020. 

Skipuð var sérstök nefnd um Stuðnings-Kríu. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun hafa umsýslu með sjóðnum. 

Af 31 umsókn sem barst um lán úr Stuðnings-Kríu voru 26 samþykktar, en alls verður 755 m.kr. varið í fjárfestingar í gegnum úrræðið.

Tækniþróunarsjóður hefur verið efldur um 700 m.kr og ferli umsókna flýtt. Fjárhæðin nemur 700 milljónum og verður nýtt til fjármögnunar nýrra verkefna á þessu ári. Þessi auknu framlög munu skila sér í fleiri styrkúthlutunum og þannig skila sér í fleiri atvinnutækifærum á sviði tækniþróunar og nýsköpunar.  

Framkvæmdaraðili er Rannís

 

150 milljón króna framlag til átaksverkefnis sem komið er í framkvæmd.

Framkvæmdaraðili er Stafrænt Ísland

 

Heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum hækkuð úr 20% í 35% en búið er að samþykkja á Alþingi frumvarp þess efnis. 

Til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu verður settur á fót Matvælasjóður. Matvælasjóður mun hafa það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Sjóðurinn mun styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla og verður við úthlutun sérstök áhersla lögð á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og almennar aðgerðir til að bæta samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.

Til stofnunar sjóðsins verður varið 500 m.kr. sem verður úthlutað á þessu ári. Við úthlutun þeirra fjármuna en einnig við frekari stefnumótun fyrir hinn nýja sjóð verður þess gætt að skipting fjármagns til landbúnaðar og sjávarútvegs verði með sambærilegum hætti og verið hefur.

Nánar:

Lög um Matvælasjóð voru sett í apríl og er nú unnið að stofnun sjóðsins.


HEIMILI

Atvinnuleitendum er gert mögulegt að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eftir fyrstu önnina tekur Menntasjóður námsmanna við. Frítekjumark vegna skattskyldra tekna einstaklinga sem koma af vinnumarkaði hefur verið hækkað úr 4,1 m.kr. í 6,8 m.kr. til að tryggja þessum hópi rýmri rétt til námslána.
Fjármögnun er tryggð fyrir allt að 3.000 atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og vilja skrá sig í nám í dagskóla á vorönn 2021, haustönn 2021 eða vorönn 2022. Kjósi atvinnuleitendur að hefja nám mun það ekki hafa áhrif á bótarétt og nýtingu hans.
Átakið afmarkast við starfs- og tækninám í framhaldsskóla eða háskóla en fyrirsjáanlegur skortur er í þeim geirum. Atvinnuleitendum verður einnig greidd leið í brúarnám. Þá verður háskólamenntuðum boðið upp á flýtileiðir til annarrar prófgráðu þar sem skortur er, til dæmis í og heilbrigðis- og kennslugreinum.

Frekari upplýsingar vef Vinnumálastofnunar


Vegna þeirra þrenginga sem blasa við hafa stjórnvöld komið til móts við fyrirtæki og launþega með hlutabótum. Fyrirtækjum í rekstrarvanda er þannig gert kleift að lækka starfshlutfall hjá launafólki tímabundið og viðhalda þar með ráðningarsambandi á meðan erfiðustu mánuðirnir ganga yfir. Réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfali vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda hefur verið lengdur til 31. desember 2020 með tilteknum breytingum og að undangengnum ákveðnum skilyrðum.

Þeir vinnuveitendur sem hyggjast nýta sér hlutabótaleiðina þurfa að staðfesta að á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 hafi þeir ekki í hyggju að meðal annars greiða út arð til hluthafa, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka eða kaupa eigin hlutabréf. Þá verður Vinnumálastofnun heimilt að birta opinberlega lista yfir vinnuveitendur launa¬fólks sem fær greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
Launafólki er heimilt að óska eftir því að miðað verði við mánaðarleg meðallaun ársins 2019 í stað þess að miðað verði við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missir starf sitt. Heimilt er að taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði miðuðust við hafi launamaður fengið greiðslur úr sjóðnum á því tímabili sem horft er til þegar atvinnuleysisbætur eru reiknaðar.
Vinnumálastofnun hefur fengið auknar heimildir til gagnaöflunar og eftirlits og verður stofnuninni heimilt að krefja vinnuveitendur um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta auk 15% álags, auk þess að beita fjársektum.

Frekari upplýsingar um hlutabótaleiðina og hvernig sótt er um er að finna á vef Vinnumálastofnunar 


Tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að vera sýktir, samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, heimilaðar áfram á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.

Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi greiði launþega laun en geti svo gert kröfu á ríkissjóð til endurgreiðslu upp að vissri hámarksfjárhæð. Það sama gildir um sjálfstætt starfandi einstaklinga hafi þeir þurft að leggja niður störf vegna sóttkvíar á framangreindu tímabili. Greiðslur taka mið af heildarlaunum í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem einstaklingur er í sóttkví. Greiðslurnar verða aldrei hærri en 633.000 kr. á mánuði, eða 21.100 kr. á dag.

Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi greiði launþega laun en geti svo gert kröfu á ríkissjóð til endurgreiðslu upp að vissri hámarksfjárhæð. Það sama gildir um sjálfstætt starfandi einstaklinga sem þurftu að leggja niður störf vegna sóttkvíar á framangreindu tímabili.

Vinnumálastofnun annast framkvæmd laga um tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví og á vef stofnunarinnar er hægt að sækja um. 

Nánar:

Spurt og svarað um laun í sóttkví

Göngudeildarþjónusta SÁÁ efld

Ákveðið hefur verið að efla göngudeildarþjónustu fyrir einstaklinga með áfengis- og vímuefnavanda og hefur Sjúkratryggingum Íslands verið falið að ganga til samninga við SÁÁ í þessu skyni. Aukin framlög vegna þjónustunnar nema 30 milljónum króna.

Geðheilbrigðisþjónusta á vegum heilsugæslunnar

Markmiðið er að hvar sem er á landinu geti fólk fengið meðferð og stuðning sálfræðinga innan heilsugæslu vegna algengustu geðraskana, svo sem vegna þunglyndis og kvíða. Heilsugæslan fær einnig fá sérstakt framlag til að þróa og efla getu sína til að veita fjarheilbrigðisþjónustu á þessu sviði. 

Geðheilsuteymi um land allt

Teymin eru ætluð þeim sem greindir eru með geðsjúkdóm og eru eldri en 18 ára. Eitt af markmiðunum með því að efla geðheilsuteymin er að auka getu þeirra til að sinna jaðarhópum eins og fólki með tvígreindan neyslu- og fíknivanda samhliða öðrum geðröskunum og einnig fólki sem er með þroskaröskun og glímir jafnframt við geðröskun.

Fræðsla og forvarnir á sviði geðheilbrigðisþjónustu 

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu verður falið að útbúa fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um neyslu- og fíknivanda, innleiða skimun á því sviði og þróa meðferðarúrræði innan heilsugæslu og hjá geðheilsuteymunum. Þróunarmiðstöðinni verður einnig falið að útbúa fræðsluefni fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila um geðheilbrigðismál og einnig fræðsluefni á sviði geðræktar í skólum.

Nánar:

 

 

Komið er til móts við fjölskyldur yfir 80 þúsund barna með sérstökum barnabótaauka sem greiddur er við álagningu opinberra gjalda einstaklinga í lok maí 2020. Þeir framfærendur sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur samkvæmt niðurstöðu álagningarinnar fá til viðbótar greiddan sérstakan barnabótaauka að fjárhæð samtals 42.000 kr. á hvert barn. Þeir framfærendur sem ekki fá greiddar neinar tekjutengdar barnabætur vegna skerðingarákvæða miðað við tekjur viðkomandi fá greiddan sérstakan barnabótaauka að fjárhæð samtals 30.000 kr. á hvert barn. Sérstakur barnabótaauki er greiddur til þeirra sem teljast framfærendur barna samkvæmt skilgreiningu í A-lið 68. gr. tekjuskattslaga. Sérstakur barnabótaauki telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra greiðslna, og honum verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga

Aðgerðin var lögfest með lögum um aðgerðir til að mæta efna­hagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru sem Alþingi samþykkti 30.03.2020.

Sérstaki barnabótaaukinn var greiddur út við álagningu skatta í lok maí 2020.


Gripið hefur verið til sértækra aðgerða til að tryggja þjónustu og stuðning við viðkvæma hópa á tímum COVID-19, og í kjölfar faraldursins. Um er að ræða meðal annars aldraða, fatlað fólk, innflytjendur og flóttafólk, fanga, heimilislausa  og börn og fjölskyldur þeirra. Sérstök áhersla er lögð á að vinna gegn félagslegri einangrun með eflingu félagsmiðstöðva fyrir eldri borgara og öryrkja, aukinn félagslegan stuðning fyrir fjölskyldur á landsvísu með sérstakri áherslu á stuðning við fötluð börn og fjölskyldur þeirra sem og börn af erlendum uppruna.
Skipað hefur verið tímabundið aðgerðateymi  til að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða sem miða að verndun viðkvæmra hópa. Meðal aðgerða er áframhaldandi vitundarvakning um ofbeldi gegn börnum sem felst meðal annars í því að efla og vekja athygli á úrræðum eins og 112 , Hjálparsímanum 1717 og netspjallinu 1717.is. Stuðningur til þjónustuaðila sem sinna ráðgjöf fyrir bæði þolendur og gerendur ofbeldis hefur verið aukinn. Þá var starfsemi Barnahúss styrkt sérstaklega með það að markmiði að draga úr bið eftir þjónustu.

Sýnt hefur verið fram á að samfélagslegum áföllum fylgir oft aukin áfengis- og vímuefnaneysla, ofbeldi og fleiri neikvæð mynstur sem þarf að koma í veg fyrir eins og hægt er með forvörnum og frekari aðgerðum. Aðgerðirnar eru miðaðar sérstaklega að viðkvæmum hópum, þar með talið börnum, konum af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðu fólki, sem reynslan hefur sýnt að eru í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Aðgerðateyminu er jafnframt falið að fylgja eftir öðrum almennum aðgerðum er lúta að fræðslu, þjónustu og stuðningi vegna ofbeldis í samræmi við tillögur í áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019-2022, sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2019.


Í því skyni að auðvelda einstaklingum og heimilum að standa af sér þær aðstæður sem sköpuðust vegna heimsfaraldursins var m.a. ákveðið að gera fólki kleift að taka út séreignarsparnað til frjálsra nota. Er markmiðið annars vegar að gera fólki kleift að nýta eigin sparnað til að mæta djúpri en tímabundinni efnahagslægð. Einnig er hægt að nota sparnaðinn til að auka útgjöld sem eykur eftirspurn í efnahagslífinu. Umsóknarfrestur er til 1. janúar 2021. Hámarksútgreiðsla er 12 m.kr. yfir 15 mánaða tímabil og útgreiðsla hvers mánaðar nemur að hámarki 800 þúsund krónum.

Sótt er um úttekt séreignar hjá þeim lífeyrissjóði eða banka sem heldur utan um séreignarsparnað umsækjanda.

Nánar:

Spurt og svarað um úttekt séreignarsparnaðar

 Úrræðið var lögfest frá Alþingi 31. mars 2020.

 

Þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi hefur mikið forvarnargildi og stuðlar að aukinni velferð þeirra. Þegar efnahagsþrengingar verða er mikil hætta á að fyrstu aðgerðir fjölskyldna verði að draga úr íþrótta- og tómstundastarfi barna. Miðað við núverandi tölur má ætla að börn sem eru í hættu á að detta úr tómstunda- og frístundastarfi séu um 8 þúsund börn. Með aukningu í fjölda þeirra sem munu mögulega þiggja atvinnuleysisbætur má ætla að þessi fjöldi hækki töluvert og nái jafnvel um 12 þúsund börnum. Strax í haust verður lagt fram viðbótarframlag vegna tómstundastarfs barna sem búa á tekjulágum heimilum. Aðgerðin jafnar tækifæri barna til þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi þrátt fyrir efnahagsþrengingar.
Gert er ráð fyrir að opnað verði fyrir umsóknir um stuðning til tómstundarstarfs barna eftir miðjan nóvember 2020 og verður það kynnt á vef félagsmálaráðuneytisins.

Ríkisstjórnin kemur til móts við þá sem þurfa að sinna aukinni umönnun fatlaðra og langveikra barna þar sem ytri úrræði hafa legið niðri vegna COVID-19. Um er að ræða styrk til umönnunaraðila sem byggir á tímabundið aukinni umönnunarbyrði.

Heimilt er að greiða framfærendum barna, sem voru með gilt umönnunarmat á tímabilinu 16. mars til 4. maí 2020, eingreiðslu sem nemur 25% af fullum umönnunargreiðslum fyrir einn mánuð vegna aukinnar umönnunar. Skilyrði fyrir auknum greiðslum er að Covid-19 faraldurinn hafi valdið því að þjónusta á borð við skóla eða dagvistun hafi legið niðri, eða að barn hafi ekki getað sótt skóla eða dagvistun vegna faraldursins. Hið sama gildir ef framfærandi hefur verið heima með barni vegna undirliggjandi vanda þess, sem landlæknir hefur skilgreint í áhættuhópi fyrir alvarlegri sýkingu vegna Covid-19.

Þá er það skilyrði eingreiðslunnar að slíkar aðstæður hafi varað í a.m.k. 15 virka daga á tímabilinu. Sótt er um eingreiðsluna hjá Tryggingastofnun ríkisins  og er umsóknarfrestur til 1. janúar 2021. Úrræðið er ekki tekjutengt. Greiðslan er undanþegin skattskyldu og hefur ekki áhrif á aðrar bætur.Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar, sem eiga rétt á orlofsuppbót á árinu 2020, fengu 20.000.kr eingreiðslu þann 1. júní til viðbótar vegna þeirra áhifa sem COVID-19 faraldurinn hefur haft. Greiðslan kemur til viðbótar við þá orlofsuppbót sem örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar eiga rétt á í ár og telst ekki til tekna þeirra. Hún mun þar af leiðandi ekki skerða aðrar greiðslur til hópsins en miðað er við að um það bil 20.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar uppfylli skilyrðið um rétt á orlofsuppbót á árinu 2020.

Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fer úr þremur mánuðum í sex mánuði, enda séu ákveðin skilyrði uppfyllt, og hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði. Greiðslur launa vegna einstaklinga í sóttkví munu einnig halda áfram.
Markmiðið með framlengingu á rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex mánuði er að komið til móts við einstaklinga sem orðið hafa fyrir atvinnumissi vegna Covid-19 faraldursins og munu búa við skerta möguleika á atvinnu næstu misseri. Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði tekur gildi þegar lögin verða samþykkt og gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta réttinn fyrir 1. október 2021.
Hægt er að sækja um atvinnuleysisbætur á vef Vinnumálastofnunar


Samhæfingarhópur félags- og menntamálaráðuneytisins er að vinna að því að skapa menntatækifæri fyrir atvinnuleitendur í þeim tilgangi að styðja þá betur til þess að fá atvinnutækifæri síðar meir. Áætlað er að hægt verði að styðja við og stuðla að virkri atvinnuleit með námi og þjálfun um 15 þúsund manns á árinu.

Fjárveitingunni er ætlað að kosta náms- og þjálfunarúrræði innan hins hefðbundna menntakerfis, innan framhaldsfræðslunnar, hjá almennum fræðsluaðilum og öðrum þjónustuaðilum. Nemar í námi sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenska námsmanna eiga þó almennt ekki rétt á atvinnuleysisbótum.


HAGKERFIÐ

Í því skyni að örva hagkerfið ákváðu stjórnvöld að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað vegna vinnu við byggingu, endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði úr 60% í 100% frá 1. mars til og með 31. desember 2020. Samhliða hækkun endurgreiðsluhlutfallsins var úrræðið útvíkkað og einnig látið ná til frístundahúsnæðis og hönnunar og eftirlits við framangreind húsnæði. Úrræðið var einnig á sama tímabili látið ná til annars húsnæðis í eigu sveitarfélaga, eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu þeirra vegna byggingar, endurbóta og viðhalds. Þá var jafnframt ákveðið að láta úrræðið á sama tímabili ná til heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis sem og bílaviðgerða, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Loks var ný heimild tekin upp fyrir mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög og björgunarsveitir og deildir þeirra til óska eftir endurgreiðslu á 100% virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað á tímabilinu 1. mars til og með 31. desember 2020 við byggingu, endurbætur eða viðhald á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021, sem er í meðförum Alþingis, er lagt til að úrræðið verði framlengt til 31. desember 2021. 

Skatturinn sér um framkvæmd endurgreiðslna. Hægt er að sjá nánari upplýsingar um ofangreind úrræði á vef Skattsins.

Nánar:

Spurt og svarað um Allir vinna

Úrræðin voru lögfest á Alþingi þann 31. mars sl. með lögum nr. 25/2020 og þann 11. maí sl. með lögum nr. 37/2020.


Til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu hefur ríkisstjórnin ákveðið að ráðast í átak í fjárfestingu. Fjárfestingarátakið felst í því að hefja nýjar fjárfestingar eða flýta áður fyrirhuguðum fjárfestingum til þess að skapa störf. Með því er ætlað að sporna gegn aukningu í atvinnuleysi og auka framleiðni til lengri tíma. Fjárfestingarátakið felst meðal annars í fjárfestingu í samgöngumannvirkjum eins og fækkun einbreiðra brúa og bættum vegasamgöngum, Viðhald og endurbætur fasteigna, hafna og flugvalla um land allt. Jafnframt var leitast við að skapa fjölbreytt störf sem hafa jákvæð áhrif á umhverfismál og framleiðni. Má þar nefna orkuskipti í samgöngum, rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar og átak í upplýsingatækni til að bæta þjónustu ríkisins.

Aukaúthlutun úr launasjóði listamanna

Sjálfstætt starfandi hönnuðir, myndlistarmenn, rithöfundar, sviðslistafólk, tónlistarflytjendur og tónskáld geta sótt um í aukaúthlutun úr launasjóði listamanna á vef Rannís, en umsóknarfrestur er til 25. maí.

Stefnt er að því að niðurstaða um úthlutun liggi fyrir í byrjun júlí. 

Nánar:

Spurt og svarað um úthlutunina á vef Rannís

 

Spornað gegn útbreiðslu Covid-19

Aðgerðir sem miða að því að hefta útbreiðslu Covid-19 á Íslandi.

      - Ferðaráð vegna COVID-19 heimsfaraldurs

test: falsetrueSjá meiratruefalsefalsefalsefalsefalse

Fréttir sem tengjast Covid-19

Efnahagsaðgerðir 21. og 28. apríl 2020

Lítil fyrirtæki í rekstrarörðugleikum fá stuðning, brugðist er við vanda námsmanna, félagsleg úrræði efld og sjónum er beint að nýsköpun til framtíðar. 

Efnahagsaðgerðir 21. mars 2020

Aðgerðirnar eru þríþættar og miða að því að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. 

Áhrif á jafnrétti

Á þessu svæði er annars vegar farið yfir áhrif ákveðinna mótvægisaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19 á stöðu kynjanna á Íslandi og hins vegar greint frá þeim aðgerðum sem sérstaklega var ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna.

Spornað gegn útbreiðslu Covid-19 á Íslandi

Viðbrögð við auknu ofbeldi gegn konum og börnum

Það er þekkt staðreynd að heimilisofbeldi, og þá ofbeldi karla gegn konum sérstaklega, eykst í tíð heimsfaraldra á borð við COVID-19. Innilokun á heimilum eykur líkurnar á heimilisofbeldi enn frekar þegar konur og börn einangrast með ofbeldisfullum maka. Samkvæmt nýjustu tölum ríkislögreglustjóra hefur heimilisofbeldi aukist um 10% í kjölfar COVID-19 faraldursins á Íslandi. Vísbendingar frá sveitarfélögum og þeim aðilum sem koma að heimilisofbeldismálum benda þó til að aukningin sé meiri í raun, enda er ekki gefið að þolendur heimilisofbeldis leiti sér aðstoðar strax.

Vitundarvakning gegn heimilisofbeldi

 • Þegar fyrsta bylgja faraldursins reið yfir á Íslandi var ákveðið að loka ekki leik- og grunnskólum sem kann að hafa dregið úr heimilisofbeldi á Íslandi.   
 • Farið var í markvissa vitundarvakningu gegn heimilisofbeldi, úrræði voru gerð sýnilegri á samfélagsmiðlum, fræðsla aukin og upplýsingum dreift víða.
 • Skipað var aðgerðateymi til að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi.
 • Athvörf s.s. Kvennaathvarfið og Bjarkarhlíð voru opin á meðan á samkomubanni stóð.  
 • Boðið hefur verið upp á þjónustu fyrir börn sem verða fyrir ofbeldi á heimilum sínum og ráðgjöf fyrir gerendur ofbeldis og fjölskyldur þeirra.   

Styrkir til Kvennaathvarfsins og Stígamóta

 • Kvennaathvarfið var styrkt um 100 m.kr á árinu 2020 í fyrsta aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19.
 • Stígamót, ráðgjafar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi, var styrkt um 20 m.kr. til þess að bregðast við auknu álagi í þjónustu samtakanna og draga þar með úr biðtíma eftir þjónustu.

Nýir verkferlar fyrir heimilisofbeldisbrot 

 • Ríkislögreglustjóri bætti verkferla og jók fræðslu lögreglunnar vegna aukningar á heimilisofbeldisbrotum.

Áhrif á heilsu

Heilsa karla og kvenna er ólík og karlar eru líklegri til að veikjast alvarlega vegna COVID-19. Konur eru að jafnaði undir meira álagi vegna aukinnar umönnunar- og heimilisábyrgðar  vegna COVID-19, auk þess að vera líklegri til að skipa framlínuna sem eru álagsstörf tengd faraldrinum. Oft eru þessi álagsstörf, láglaunastörf og umbun því ekki í samræmi við áhættuna.   

Konur sinna frekar þeim störfum sem teljast til grunnþjónustu á tímum COVID-19 faraldursins og eru því útsettari fyrir smiti. Konur sem vinna í heilbrigðisgeiranum vinna að jafnaði í meira návígi við sjúklinga en karlar sem starfa innan sama geira. Slík kynjaskipting innan heilbrigðisgeirans er þekkt og sama mynstur er til staðar í flestum ríkjum Evrópu. Konur sem starfa í heilbrigðisgeiranum á Spáni eru til að mynda tvisvar sinnum líklegri en karlar að smitast af COVID-19 í störfum sínum vegna návígis við sjúklinga. Gert er ráð fyrir því að staðan sé sambærileg í öðrum löndum Evrópu. Álag á heilbrigðiskerfið og aðrar takmarkanir hafa víðtæk áhrif og þá meiri áhrif á konur en karla vegna fæðingar- og mæðraeftirlits.

Hlífðarbúnaður og álagsgreiðslur tryggðar

 • Hlífðarbúnaður hefur verið tryggður fyrir starfsfólk spítala og aukið eftirlit er með heilsu starfsfólks Landspítalans.
 • Einn milljarður króna var settur í sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks sjúkrahúsa- og heilbrigðisstofnana sem starfa undir miklu álagi. Greiðslurnar voru í formi eingreiðslna til starfsfólks í framlínunni á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og hjá heilsugæslunni.

Áhersla á mæðra- og fæðingarþjónustu

 • Á Íslandi hefur verið hugað sérstaklega að stöðu kvenna hvað varðar heilbrigðisþjónustu og gætt að því að halda mæðra- og fæðingarþjónustu gangandi. 
 • Tekin var ákvörðun um að kortleggja heilsufar landsmanna út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum og gera mat á því hvort heilbrigðisþjónustan taki mið af ólíkum þörfum kynjanna.

Áhrif á atvinnuþáttöku og ólaunaða vinnu

Vinnumarkaður á Íslandi er kynskiptur og eru konur líklegri til að vera frá vinnu vegna umönnunar barna þegar þjónusta skerðist. Álagið er sérstaklega mikið hjá einstæðum foreldrum. Þá hafa afar og ömmur ekki í sama mæli tök á að aðstoða fjölskyldur á tímum COVID-19 vegna smithættu sem eykur álagið enn frekar. Karlar og konur eru álíka líkleg til að missa vinnuna í faraldrinum.

Skólum haldið opnum 

 • Framlínustörf sem teljast til grunnþjónustu í COVID-19 eru þess eðlis að fólk hefur ekki kost á að sinna þeim í fjarvinnu. Það gerir fólki erfitt fyrir að bregðast við lokunum skóla, leikskóla o.s.frv. 
 • Skólum og leikskólum hefur því verið haldið opnum með ákveðnum takmörkunum og fólki í framlínu og samfélagslega mikilvægum störfum gefinn rýmri aðgangur að skólum og leikskólum fyrir börn sín.

Umönnunarstyrkir 

 • Styrkjum hefur verið úthlutað vegna umönnunar fatlaðra og langveikra barna. Félagslegur og fjárhagslegur stuðningur við fjölskyldur getur dregið úr álagi vegna ólaunaðra umönnunarstarfa sem konur eru mun líklegri til að sinna. 

Efnahagsaðgerðir

Efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafa ólík áhrif á kynin þar sem þau búa við ólíka efnahagslega stöðu. Á Íslandi er kynskiptur vinnumarkaður og konur að jafnaði með lægri tekjur en karlar. Þá sýna rannsóknir og greiningar að konur fá síður úthlutað úr opinberum sjóðum og þá að jafnaði lægri fjárhæðir en karlar.

Einstaklingar og fjölskyldur

Hlutastarfaleiðin 

 • Kynjaskipting umsækjenda um hlutabætur hefur verið í samræmi við hlut karla og kvenna á vinnumarkaði. 
 • Eldri greiningar hafa þó sýnt að karlar fá hærra hlutfall tekjutengdra atvinnuleysibóta en konur að teknu tilliti til kynjahlutfalls þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur. 
 • Það að greiðslur allt að 400.000 kr. á mánuði skerðist ekki gagnast sérstaklega þeim lægst launuðu og sú ráðstöfun er því líkleg til að stuðla að jafnrétti. Mikilvægt er þó að fylgjast áfram með þróun nýtingar úrræðisins og áhrifum útfærslu þess á konur og karla. 

Sérstakur barnabótaauki

 • Allir foreldrar með börn á framfæri hafa fengið greiddan barnabótaauka. Þeir sem fengu greiddar tekjutengdar barnabætur fengu 42.000 kr. en aðrir 30.000 kr.
 • Konur voru 56% þeirra sem fengu greiddan barnabótaauka en 59% af upphæðinni sem greidd var fór til kvenna. Konur voru þannig líklegri til að eiga rétt á greiðslunni.
 • Þessi munur skýrist að miklu leyti af kynjaskiptingu í hópi einstæðra foreldra. 90% einstæðra foreldra sem fengu greiddan barnabótaauka eru konur og fengu 96% þeirra greidda hærri upphæðina en 86% einstæðra feðra.

Úttekt séreignarsparnaðar 

 • Þar sem iðgjöld karla eru töluvert hærri en kvenna eru karlar líklegri en konur til að geta nýtt sér úrræðið og tekið út hærri upphæðir.
 • Úrræðið er því ekki líklegt til að stuðla að jafnrétti og gæti aukið efnahagslega mismunun milli karla og kvenna.  

Virkni í atvinnuleit og sumarúrræði fyrir námsmenn 

 • Viðbótarfjármagni var veitt í Nýsköpunarsjóð námsmanna vegna COVID-19 þar sem 426 sumarstörf urðu til fyrir námsmenn. Störfin skiptust jafnt á milli karla og kvenna.
 • Atvinnuleitendum verður gert kleift að hefja nám og fá fullar atvinnu­leysisbætur í eina önn frá og með vorönn 2021. Átakið afmarkast við starfs- og tækninám í framhaldsskóla eða háskóla, brúarnám eða flýtileiðir til annarrar prófgráðu, til dæmis í heilbrigðis- og kennslugreinum. Þessar námsleiðir virðast ekki höfða jafnt til karla og kvenna og því mögulegt að þessi afmörkun verði til þess að úrræðið nýtist kynjunum ekki með jöfnum hætti og gæti leitt til ólíkra tekjumöguleika karla og kvenna að námi loknu.

Fyrirtæki

Sókn í nýsköpun 

 • Færri konur en karlar sækja um fjármagn í samkeppnissjóði og auk þess sækja konur gjarnan um lægri upphæðir. Árangurshlutfall kynjanna er þó svipað í flestum sjóðum.
 • Aukin framlög í samkeppnissjóði eru því líkleg til þess að gagnast körlum betur en konum, sé ekki höfðað betur til kvenfrumkvöðla og sérstaða þeirra og þarfir teknar betur til greina.
 • Settir hafa verið á laggirnar nýir samkeppnissjóðir sem hluti af aðgerðum til að bregðast við áhrifum COVID-19. Stjórnir sjóðanna hafa sett sér jafnréttismarkmið fyrir úthlutanir úr sjóðunum sem líkleg eru til þess að stuðla að því að jafna áhrif styrkjanna á milli kynjanna.
 • Nýleg úthlutun úr Tækniþróunarsjóði var á þann veg að karlar fengu 180 m.kr. (75%) og konur 60 m.kr. (25%).

Lokunarstyrkir

 • Við mótun skilyrða fyrir lokunarstyrk var gætt að því að útiloka ekki sjálfstætt starfandi í hlutastarfi en konur eru mun líklegri en karlar til að vera í hlutastarfi.

Hagkerfið

Fjárfestingarátak 

 • Ef miðað er við kynjahlutfall starfandi í þeim atvinnugreinum sem fjárfestingarátakið tekur til má gera ráð fyrir að 85-90% þeirra starfa sem skapast á framkvæmdatímanum verði unnin af körlum.
 • Fyrirhugaðar nýbyggingar eða endurbætur á opinberum byggingum hafa í fæstum tilfellum mikil áhrif á fjölda þeirra sem þar starfa. Verkefnin eru því ýmist ekki talin hafa áhrif eða líkleg til að stuðla að jafnrétti, m.a. vegna mögulegrar fjölgunar starfa sem konur sinna í auknum mæli og bættrar þjónustu sem kann að draga úr ólaunuðum umönnunarstörfum.

Útvíkkun á allir vinna 

 • Gera má ráð fyrir að langflest þeirra starfa sem skapast vegna hækkunar endurgreiðsluhlutfalls VSK vegna bygginga, endurbóta eða viðhalds íbúðarhúsnæðis auk bílaviðgerða verði unnin af körlum enda eru ríflega 95% þeirra sem starfa við bílaviðgerðir, í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð karlar. 
 • Heimild til endurgreiðslu VSK vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis er aftur á móti líklegri til að skapa fleiri störf fyrir konur þar sem fleiri konur en karlar starfa á þessu sviði. Þá kann hún einnig að bæta réttarstöðu þeirra sem vinna þessi störf auk þess að draga úr ólaunuðum störfum við þrif og umhirðu íbúðarhúsnæðis sem er í auknum mæli sinnt af konum.
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira